Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. október 2017 HeilbrigðisráðuneytiðÓttar Proppé

Ráðstefna Geðhjálpar: Börnin okkar

Ávarp Óttars Proppé heilbrigðisráðherra

Komiði sæl öll sömul og velkomin til þessarar ráðstefnu um Börnin okkar sem Geðhjálp ákvað að efna til – og sem ég er svo lánsamur að fá að opna með nokkrum orðum.

Fyrst af öllu vil ég þakka Geðhjálp fyrir frumkvæðið að því að halda þessa ráðstefnu um geðheilbrigðisþjónustu þar sem börn og ungmenni eru í brennidepli.

Dagskráin framundan er fjölbreytt og snertir á mjög mörgum þeirra þátta sem skipta miklu um velferð barna í uppvextinum og hvernig við högum stuðningi velferðarkerfisins og þá einkum heilbrigðiskerfisins við börn og fjölskyldur þeirra á þessum árum.

Þekkingu á þeim þáttum sem móta okkur allt frá barnsaldri fleygir fram, - jafnt þeim þáttum sem hafa jákvæð og uppbyggileg áhrif og þeim sem skapa áhættu og jafnvel neikvæð áhrif.

Við vitum til að mynda að börn sem upplifa ofbeldi eða vanrækslu eru í meiri hættu en önnur börn að þróa með sér geðræna erfiðleika, þroskaraskanir, ýmsa sjúkdóma og eiga á hættu að þróa með sér áfengis- og vímuefnavanda.
En það er líka vitað að sumir einstaklingar dafna vel þrátt fyrir erfiðleika í æsku og þar virðist seigla skipta sköpum.

Þekkingu okkar fleygir fram og í ljósi hennar höfum við aldrei verið betur í stakk búin en nú til að hlúa að okkar viðkvæmustu einstaklingum, börnunum, og skapa þeim bjarta framtíð.

Margt í kerfi okkar er gott og margt gerum við vel. En það er mikilvægt að við séum stöðugt reiðubúin að bæta okkur, að kerfið sé tilbúið að bregðast við málefnalegri gagnrýni og gera úrbætur þar sem þeirra er þörf.

Málefni barna eru viðkvæmur málaflokkur. Þótt á hverjum tíma sé áhersla lögð á að veita börnum og fjölskyldum þeirra stuðning og aðstoð eftir þörfum, þá breytast áherslur í takt við nýja þekkingu og reynslu.

Eins og staðan er í dag er óhætt að segja að við höfum orðið góða þekkingu á forvörnum og hverju góðar forvarnir geta skilað.

Við vitum hve snemmtæk íhlutun skiptir miklu máli, þ.e. að greina vanda skjótt og grípa inní aðstæður strax og vandinn er ljós..

Við eigum gagnreyndar leiðir til að efla seiglu barna í áhættuhópum, við höfum raunprófaðar leiðir til þess að styðja við foreldra og efla færni þeirra sem uppalanda.

Það er mikilvægt að greina þörf foreldra fyrir stuðning og veita viðeigandi ráðgjöf, jafnvel snemma á meðgöngu

Mikilvægur grunnur að þróun geðheilbrigðisþjónustu næstu árin er ný geðheilbrigðisáætlun. Það er ánægjulegt að vel gengur að fylgja áætluninni og brýnt að halda áfram að hrinda í framkvæmd áföngum áætlunarinnar.

Það er líka mikilvægt að skýra enn betur hlutverk hinna ýmsu aðila sem koma að geðheilbrigðisþjónustu barna. T.d. þarf að skýra enn betur sérstök hlutverk t.d. heilsugæslunnar, sjúkrahúsanna og meðferðaraðila sem starfa utan stofnana.

Hér þarf að marka betur heildarstefnu, skýra betur hlutverk hvers aðila og setja vörður um samstarf allra aðila. Á vegum Velferðarráðuneytisins hefur verið undanfarna mánuði verið unnið að heildarstefnu í heilbrigðismálum.

Góðir gestir.
Ég þreytist ekki á því að ræða mikilvægi þess að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu og gera hana betur í stakk búna til þess að mæta margvíslegum þörfum notenda, meðal annars á sviði geðheilbrigðisþjónustu.

Sú áhersla rímar við þá þekkingu sem ég nefndi áðan og færir sterk rök fyrir því að efla forvarnir og snemmtæka íhlutun.

Ég hef lagt áherslu á að efla heilsugæsluna meðal annars með því að halda áfram að fjölga nýjum faghópum heilbrigðisstétta í framlínu þjónustunnar.

Það hefur gengið vel að bæta geðheilbrigðisþjónustu við börn með fjölgun sálfræðinga í heilsugæslu um land allt.
Næsti áfangi er að bæta sálfræðiþjónustu við fullorðna og þar verður bætt verulega í á næstu misserum samkvæmt geðheilbrigðisáætlun og fjármálaáætlun.
Heilsugæslustöðvar hérlendis voru fyrst settar á um miðjan níunda áratuginn og fylgdu alþjóðlegri þróun um aukna áherslu á forvarnir, heilsugæslu og eflingu lýðheilsu.

Ég hef lagt áherslu á að fylgja þessari þróun eftir með enn þá meiri áherslu á heildræna nálgun, þjónustu sem veitt er af þverfaglegu teymi, með því að nýta mun betur rafræna upplýsingamiðlun og margs konar möguleika fjarheilbrigðisþjónustu.

Með aukinni áherslu á rafræn samskipti og nýtingu tækni til meðferðar og upplýsingamiðlunar má til dæmis bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu í gegnum samskipti á vefnum og ráðgjöf til einstaklinga í heimahúsi.

Mörg verkefni á þessu sviði eru nú þegar hluti af heilbrigðisþjónustunni og í nýrri fjármálaáætlun eru áform um enn frekari þróun á þessu sviði sem bætir gæði þjónustunnar og eflir möguleika einstaklinganna til heilsueflingar og bættra lífsgæða.
Góðir gestir.
Þegar við ræðum um geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni á Íslandi getum við ekki aðskilið þá umfjöllun mikilvægi þess að styðja við fjölskylduna í heild.

Við vitum að góð foreldrafærni er lykilatriði varðandi velgengi barna í lífinu. Með því að nota gagnreyndar aðferðir til að styðja við fjölskylduna aukum við líkurnar á því að barnið dafni vel.

Ég ítreka þakkir mínar til Geðhjálpar fyrir að efna til þessarar myndarlegu ráðstefnu um mikilvægt málefni og veit að umræðan í dag verður gott innlegg í þróun geðheilbrigðisþjónustunnar hér á landi.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta