Heilsa og líðan í forgrunni
Grein eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.
Birtist á Visir.is 8.12.2017
Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar skipa heilbrigðismálin háan sess og þar er meðal annars tekið fram að geðheilbrigðisáætlun til ársins 2020 verði hrint í framkvæmd og hún fjármögnuð.
Sérstök áhersla verður á þennan mikilvæga málaflokk, bæði í sjúkrahússtarfseminni en ekki síður í heilsugæslunni og í framhaldsskólunum. Forvarnir og lýðheilsa verða sömuleiðis í brennidepli enda skiptir sá þáttur ekki síst máli þegar litið er til andlegrar heilsu og vellíðunar. Í samfélagi nútímans skapast verulegt álag af auknum hraða, miklu áreiti, þrýstingi frá staðalmyndum og samfélagsmiðlum, klámvæðingu og neyslumenningu. Álag af þessu tagi eykur hættuna á vanlíðan sem getur leitt til verulegs vanda hvort sem er í félagslegu tilliti eða í námi. Forvarnir hjá börnum og ungmennum verða að skipa verðugan sess með aukinni fræðslu og ráðgjöf í samstarfi við skólasamfélagið, með geðræktarstarfi og stuðningi við foreldra og fjölskyldur.
Þegar rætt er um geðheilbrigðismál er mikilvægt að sjúklingurinn sjálfur sé í brennidepli og að þjónustan sé eins samfelld og nokkurs er kostur. Þjónustan þarf að vera aðgengileg, bæði inni í menntakerfinu og í heilsugæslunni þar sem má auka áherslu á þverfaglega vinnu og aukna þjónustu sálfræðinga. Búseta má ekki koma í veg fyrir að hægt sé að nýta sér geðheilbrigðisþjónustu og efnahagur má heldur ekki vera hindrun.
Almennt er mikilvægt að um sé að ræða gott flæði og samvinnu milli einstakra þátta kerfisins en ekki síður að auka samstarf við hagsmunasamtök og samtök notenda þjónustunnar.
Eftirfylgni og endurhæfingu þarf að þróa betur og leggja meiri áherslu á þann þátt sem lýtur að fjölbreyttum tækifærum og öflugum búsetuúrræðum í samráði við sveitarfélögin.
Loks er einn þáttur geðheilbrigðisþjónustunnar sem ekki hefur fengið mikla umfjöllun en það er sá þáttur er lýtur að geðheilbrigði aldraðra. Á síðasta æviskeiðinu er afar mikilvægt að hafa andlega heilsu og líðan í huga í allri umönnun.
Andleg heilsa og líðan er ekki síður viðfangsefni samfélagsins en líkamlegir kvillar. Geðheilbrigðismálin mega ekki mæta afgangi og eru gríðarlega mikilvægur þáttur í góðu samfélagi.