Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. desember 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Ræða Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra 14. desember 2017

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn.

Við sögðumst ætla að styrkja innviðina. Við töldum að innviðirnir væru orðnir svo veikir að veruleg hætta stafaði af. Þess vegna erum við hér. Við teljum svo mikilvægt að laga heilbrigðiskerfið, samgöngurnar og menntakerfið að við tókumst það á hendur, við Vinstri græn, undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, að efna til samstarfs við þá flokka sem við höfum gagnrýnt hvað mest og aldrei unnið með áður. Til þess þarf skýran pólitískan vilja, þrek og kjark. Við höfum það sem til þarf. Við höfum þann styrk og þann kjark. Við þorðum að taka frumkvæðið og grípa tækifærið.

Það er stundum talað um að við séum ekki að stuðla að kerfisbreytingum í þessari ríkisstjórn. Það er rangt. Við erum að bjarga heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og samgöngunum frá langvinnri vanrækslu og ásælni peningaaflanna í landinu. Það er búið að rétta efnahagslífið við eftir hrunið. Eftir standa innviðirnir, margir hverjir vanræktir til langs tíma. Viðfangsefnin eru alls staðar. Þess vegna erum við hér.

Við erum að gera við samfélagsinnviðina, virða samfélagssáttmálann, hefja aftur á loft þá sýn okkar flestra að enginn verði skilinn eftir og vinna samkvæmt því; gera við, breyta og bæta en líka byggja nýtt og byggja við í góðri samvinnu við fólkið sem best þekkir til og veit hvar þörfin er mest. Um leið erum við að leggja grunn að róttækri stefnu í loftslagsmálum og umhverfismálum. Við erum að efla opinbera heilbrigðiskerfið, hlut aldraðra og öryrkja, skólana, tungutæknina og náttúruverndina. Við ætlum okkur að styrkja stöðu barnafólks, kvennastétta og brotaþola kynferðisbrota. Þetta eru mikilvægar samfélagsumbætur.

Við leggjum líka áherslu á siðareglur, gagnsæi og opnara samtal milli flokka út í samfélagið. Vinstrihreyfingin – grænt framboð er stjórnmálahreyfing sem hefur kjark til að takast á við verkefnin, stjórnmálahreyfing sem er óhrædd, getur átt samstarf við aðra og leitt þann björgunarleiðangur fyrir íslenskt samfélag sem þjóðin þarf svo mjög á að halda. Við getum verið í forystu og við getum vísað veginn. Við erum að breyta.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur vill marka pólitísk kaflaskipti í þágu almennings á Íslandi fyrir umhverfið og náttúruna og fyrir menninguna. Við ætlum að ráðast gegn fátækt í landinu. Við viljum ráðast gegn ójöfnuði, auka samneyslu, draga úr greiðsluþátttöku þeirra sem veikast standa og byggja upp eins og við frekast getum innviði á öllum sviðum. Við viljum réttlátara samfélag.

Þetta eru stór markmið og við munum beita öllu okkar afli. Eitt af því sem við höfum lagt mikla áherslu á við stjórnarmyndunina er að treysta og byggja upp Alþingi. Eftir að hafa verið þingflokksformaður í stjórnarandstöðu í allnokkur ár er mér algerlega ljóst að stöðu þingsins þarf að efla, ekki síst eftirlits- og aðhaldshlutverk gagnvart framkvæmdarvaldinu á hverjum tíma. Löggjafarhlutverkið þarf líka að styrkja, bæði fyrir stjórn og stjórnarandstöðu. Þessar áherslur rötuðu inn í stjórnarsáttmálann. Erum við ekki ánægð með það? Vonandi allir flokkar á þingi.

Erum við ekki ánægð með aukið fjármagn til heilbrigðismála? Erum Við ekki ánægð með aukið fjármagn til menntamála? Erum við ekki ánægð með aukna áherslu á umhverfisvernd og eflingu tungunnar? Erum við ekki ánægð með róttæka stefnu í loftslagsmálum þar sem við skipum okkur í sveit með framsæknustu þjóðum heims? Vonandi erum við ánægð með það.

Fyrir nokkrum árum misstum við Íslendingar mikinn baráttumann fyrir náttúruvernd. Guðmundur Páll Ólafsson var minnisstæður, öflugur og óþreytandi og eftir hann liggja margar bækur. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að þekkja Guðmund og njóta leiðsagnar hans og vináttu um árabil, síðast þegar ég gegndi embætti umhverfisráðherra. Guðmundur Páll var kröfuharður liðsmaður. Þannig liðsmenn eru bestir, þeir sem gera miklar kröfur en styðja mann til góðra verka.

Ég hvet landsmenn alla til að vera kröfuharðir liðsmenn nýrrar ríkisstjórnar, halda okkur við efnið af festu. Þannig gengur okkur öllum best. — Góðar stundir. 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta