Bætum heilbrigðisþjónustu við fólk með ákominn heilaskaða
Grein eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.
Birtist í Morgunblaðinu 22. desember 2017.
Allir þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda einhvern tímann á lífsleiðinni. Slysavarnir og forvarnir, læknisþjónusta og endurhæfing eru allt órjúfanlegir þættir í góðri heilbrigðisþjónustu.
Ákominn heilaskaði er heilaskaði sem er ekki meðfæddur. Slíkur heilaskaði orsakast því til dæmis af ytri áverka, eða er tilkominn vegna heilablóðfalls eða heilabólgu. Árlega hljóta um 1000-1500 manns heilaskaða á ári, en þar af þurfa 200-300 manns á frekari ráðgjöf og endurhæfingu að halda, eftir að bráðameðferð á spítala lýkur.
Hugarfar, félag fólks með ákominn heilaskaða, aðstandenda og áhugafólks um málefnið, og fagráð um heilaskaða, hafa nýlega vakið athygli á því að úrræði og viðeigendi heilbrigðisþjónustu fyrir fólk með ákominn heilaskaða skorti. Þá skorti sérstaklega úrræði fyrir þann hóp sem verður fyrir vægum eða miðlungsalvarlegum heilaskaða. Ein ástæða þess að einstaklingar með heilaskaða fá ekki viðeigandi stuðning er sú að greining reynist oft og tíðum erfið og einstaklingar með heilaskaða eru oft ranglega greindir.
Frumendurhæfingu fólks sem hlotið hefur ákominn heilaskaða er sinnt á Grensásdeild Landspítala - háskólasjúkrahúss og fólki með langvinn einkenni eftir ákominn heilaskaða er sinnt á Reykjalundi. Grensásdeild og Reykjalundur hafa samanlagt bolmagn til þess að sinna um 20 einstaklingum á ári. Þeir sem verða fyrir vægum eða miðlungsalvarlegum heilaskaða fá almennt ekki þjónustu á Grensásdeild og Hugarfar og fagráð um heilaskaða hafa lýst því að skortur sé á öðrum úrræðum fyrir þennan hóp, og að alltof lítill hluti þeirra sem greinast með heilaskaða fái þá þjónustu sem þeir þurfi á að halda.
Ljóst er að gera þarf gangskör að því að bæta málefni fólks með ákominn heilaskaða. Þörfin fyrir bætta heilbrigðisþjónustu í málaflokknum er brýn, og fyrsta skref í því að bæta þjónustuna er að greina stöðu þjónustu við fólk sem hlotið hefur ákominn heilaskaða. Því hef ég tekið ákvörðun um að setja á fót starfshóp til að greina stöðu þjónustunnar og setja fram tillögur að úrbótum eftir því sem þörf krefur. Stofnun starfshópsins er því fyrsta
skrefið í þeirri vegferð að bæta lífsgæði fólks með ákominn heilaskaða, og sjá til þess að þeim standi til boða heilbrigðisþjónusta sem er í samræmi við þarfir þeirra.