Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

05. janúar 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Jöfnuður sem leiðarljós

Svandís Svavarsdóttir - mynd

Grein eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.
Birtist í Morgunblaðinu 5. janúar 2018.

Í nýsamþykktum fjárlögum var umtalsvert aukið í fjárframlög ríkisins til heilbrigðisþjónustunnar. Aukningunni var beint bæði í Landspítalann, heilbrigðisstofnanirnar úti um land og í Heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu. Þessi aukning er í samræmi við langvarandi kröfu úr samfélaginu öllu, sameiginlega áherslu nánast allra stjórnmálaflokka í aðdraganda kosninga en ekki síst þá staðreynd að heilbrigðiskerfið hefur setið eftir nú þegar efnahagslífið hefur náð að rétta úr kútnum eftir efnahagshrunið.

Fyrir liggur að innspýting af þessu tagi dugar hvergi nærri til að tryggja að heilbrigðisþjónustan á Íslandi dragist ekki aftur úr. Til þess þarf frekari aðgerðir. Hin mikilvægasta er að setja saman skýra og markvissa heilbrigðisstefnu sem verði leiðarljós fyrir alla þá sem starfa í málaflokknum allt frá ráðuneyti til einstakra stofnana og rekstraraðila sem veita heilbrigðisþjónustu. Það þarf að liggja fyrir hverjum beri að sinna hverjum geira þjónustunnar, hvort um skörun er að ræða og ekki síður hvort einhvers staðar er um að ræða skort á þjónustu sem sannarlega er þörf fyrir.

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er sjónum ekki síður beint að jöfnu aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Þar er um að ræða almenna heilbrigðisþjónustu, fæðingarhjálp, mæðravernd og aðra þætti sem telja má til grunnþjónustu. Um leið má öllum vera ljóst að ákveðinn hluta þjónustunnar er aðeins hægt að bjóða á öflugu móðursjúkrahúsi íslenska heilbrigðiskerfisins, Landspítalanum Háskólasjúkrahúsi. Þar fara fram rannsóknir, kennsla auk þess sem allar flóknari aðgerðir og þyngri þjónusta er veitt. LSH þjónar landinu öllu þegar þjónustunni í heimabyggð sleppir og er þannig bakland alls heilbrigðiskerfisins í landinu.

Íbúaþróun, ferðamennska, samgöngur, ólík fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu og mismunandi aldurssamsetning gera það að verkum að þarfir heilbrigðisstofnana út um land eru með mismunandi hætti. Þessa þjónustu þarf að meta, greina þörfina og gera áætlanir til lengri framtíðar með þjónustu við alla landsmenn að markmiði.

Góð heilbrigðisþjónusta byggir á skýrri heilbrigðisstefnu sem er og á að vera hluti af samfélagssáttmálanum. Stefna sem lifir af kosningar og breytingar í landsstjórninni og snýst um jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags eða búsetu og þar sem almannafé er skynsamlega ráðstafað.

Í fjárlagaumræðunni nú fyrir jól varð ég þess áskynja í þingsal að almennur vilji þingmanna stendur til þess að stefnumótun af þessu tagi fari fram og að jöfnuður sé þar leiðarljós. Ég mun ráðast í mótun á skýrri heilbrigðisstefnu nú á næstu mánuðum sem mun hafa það hlutverk að liggja til grundvallar öllum helstu ákvörðunum í málaflokknum til framtíðar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta