Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. janúar 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Árangur af heilbrigðiskerfi

Svandís Svavarsdóttir - mynd

Grein eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra
Birtist í Fréttablaðinu 10. janúar 2018

Hvernig á að meta árangur af heilbrigðiskerfi? Mér hefur orðið það ljóst á mínum fyrstu dögum í embætti að hugsanlegir mælikvarðar eru fjölmargir og enginn hafinn yfir vafa. Engu að síður er ljóst að mikilvægt er að við séum sem mest sammála um það hvaða mælikvarða skuli leggja til grundvallar í því mati.

Aukin útgjöld úr ríkissjóði til kerfisins duga ekki ein og sér sem mælikvarði heldur eru þeir miklu fleiri og margþættari. Í samanburði OECD-ríkja kemur fram að langmest fjármagn rennur til heilbrigðiskerfisins í Bandaríkjunum en þar ríkir jafnframt mikill ójöfnuður og stór hluti þjóðarinnar hefur tæpast aðgang að heilbrigðisþjónustu.

Mælikvarðar sem má líta til eru til að mynda mælikvarðar sem taka á gæðum þjónustunnar, árangri hennar, samsetningu starfsfólksins, aðstæðum þess, kjörum og möguleikum til starfsþróunar. Málefni sem lúta að mönnun heilbrigðiskerfisins á Íslandi eru kannski þau sem oftast eru nefnd þegar áskoranir eru ræddar til framtíðar. Einnig má nefna stöðuna að því er varðar aðgengi að þjónustu, þ.e. jafnræði að því er varðar búsetu.

Mér er þó efst í huga einmitt núna sú þróun í íslenska heilbrigðiskerfinu sem hefur aldrei verið tekin ein stór ákvörðun um. Það er sú staðreynd að það hefur orðið ákveðin gliðnun á milli opinbera kerfisins annars vegar og hins vegar eins og sjálfkrafa flæðis út úr ríkissjóði í tiltekna stóra þætti kerfisins án þess að um það hafi beinlínis verið tekin ákvörðun. Það eru tilteknar minni ákvarðanir á undanförnum árum og áratugum sem hafa leitt okkur í þær áttir.

Kjarni málsins er sá að nú stendur vilji stjórnvalda til þess að snúa vörn í sókn í þágu opinbera kerfisins. Við viljum styrkja innviði þess með jöfnuð að leiðarljósi. Það er mín von að við getum, í nýrri heilbrigðisstefnu, sett saman skýra framtíðarsýn í þessum mikilvæga málaflokki til lengri framtíðar og fengið slíka sýn rædda og samþykkta á Alþingi áður en langt um líður.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta