Sálfræðingum fjölgar í almenna heilbrigðiskerfinu
Grein eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra
Birtist í Morgunblaðinu 15. janúar 2018
Í samfélaginu öllu má heyra ákall eftir aukinni þjónustu sálfræðinga, ákall þess efnis að þjónusta sálfræðinga skuli vera hluti af hinu almenna, opinbera heilbrigðiskerfi. Efling geðheilbrigðisþjónustu er meðal markmiða nýrrar ríkisstjórnar og eitt þeirra atriða sem ég mun leggja sérstaka áherslu á sem heilbrigðisráðherra.
Sálfræðiþjónusta er gríðarlega mikilvægur þáttur í geðheilbrigðisþjónustu. Rannsóknir sýna til dæmis að hugræn atferlismeðferð er ein árangursríkasta meðferð sem völ er á í dag við kvíða og þunglyndi. Í þingsályktun um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára sem samþykkt var á Alþingi 29. apríl 2016 er meðal annars gert ráð fyrir sálfræðiþjónustu sem stærri hluta af hinu opinbera heilbrigðiskerfi, þ.e. fjölgun sálfræðinga innan heilsugæslunnar.
Markmið geðheilbrigðisáætlunar til 2020 er að aðgengi að meðferð sálfræðinga við algengustu geðröskunum, t.d. þunglyndi, kvíðaröskunum og áfallastreitu, sé á 90% heilsugæslustöðva í lok ársins 2019, og miðað er við að 9000 manns séu á hvert stöðugildi sálfræðings. Nú þegar hefur tekist að tryggja fjárveitingar til allra heilbrigðisstofnananna á landsbyggðinni til að uppfylla markmiðið um að eitt stöðugildi sálfræðings sinni 9.000 manns. Áformað er að markmiðið náist á höfuðborgarsvæðinu árið 2019. Á síðastliðnu ári var stöðugildum sálfræðinga á heilsugæslum höfuðborgarsvæðisins fjölgað um fjögur. Á þessu ári munu bætast við sex stöðugildi sálfræðinga og árið 2019 munu fjögur stöðugildi sálfræðinga á heilsugæslum höfuðborgarsvæðisins bætast við.
Svokölluðum geðheilsuteymum við heilsugæslustöðvar verður einnig fjölgað, í samstarfi við sveitarfélögin, og nýjum teymum komið á fót í þeim landshlutum þar sem þau eru ekki til staðar. Geðheilsuteymi eru þverfagleg teymi heilbrigðis- og félagsþjónustu sem koma að greiningu og meðferð fólks sem glímir við geðraskanir. Eitt teymanna mun sérhæfa sig í þjónustu við heyrnarlausa og heyrnarskerta einstaklinga sem reiða sig á íslenskt táknmál til samskipta og glíma við geðröskun. Nú þegar er starfandi geðheilsuteymi í Breiðholti, en áætlað er að flytja teymið í Grafarvog þar sem það mun sinna öllu austursvæði höfuðborgarsvæðisins. Undirbúningur geðheilsuteymis fyrir vesturhluta borgarinnar er hafinn, auk þess sem sett verður á stofn geðheilsuteymi fyrir suðurhluta borgarinnar, þ.e. Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. Árið 2019 eiga geðheilsuteymi að hafa tekið til starfa á öllum landshlutum.