Markviss nýting fjármagns í heilbrigðiskerfinu
Ríkisendurskoðun birti í vikunni skýrslu til alþingis um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu. Skýrslan inniheldur ábendingar af ýmsum toga, en einkum ábendingar er snúa að því að gera þurfi ráðstafanir til að bæta samninga Sjúkratrygginga Íslands. Skýrslan verður að minni beiðni rædd á vettvangi alþingis á næstu vikum.
Það er mat Ríkisendurskoðunar að umræddir samningar tryggi ekki nægilega markviss kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu. Þar af leiðandi verði ekki séð að samningarnir nái því markmiði að stuðla að skilvirkni og markvissri nýtingu fjármagns í heilbrigðiskerfinu.
Skýrslan inniheldur einnig ábendingar til velferðarráðuneytisins. Ábendingar Ríkisendurskoðunar varða annars vegar stefnumörkun og hins vegar verkaskiptingu við gerð samninga. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að marka heildstæða stefnu um heilbrigðisþjónustu, sem Sjúkratryggingar Íslands geta byggt á við gerð samninga. Ákveða þurfi hvaða þjónustu heilbrigðisstofnanir ríkisins eiga að veita og hvaða þjónustu eigi að kaupa af öðrum aðilum, og í hvaða magni.
Ábending Ríkisendurskoðunar sem snýr að stefnumörkun í heilbrigðiskerfinu er réttmæt og góð brýning fyrir heilbrigðisráðuneytið. Nú þegar er hafin vinna við gerð heilbrigðisstefnu innan heilbrigðisráðuneytisins. Ég hef áður talað fyrir því að góð heilbrigðisþjónusta byggi á skýrri heilbrigðisstefnu, sem sé hluti af samfélagssáttmálanum. Stefnu sem lifir af kosningar og breytingar í landsstjórninni og snýst um jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags eða búsetu og þar sem almannafé er skynsamlega ráðstafað. Ábendingar Ríkisendurskoðunar eru því í fullu samræmi við mínar áherslur og forgangsröðun í embætti heilbrigðisráðherra.
Ríkisendurskoðun beinir því einnig til ráðuneytisins að tryggja þurfi eðilega verkaskiptingu við gerð samninga. Styðja þurfi við Sjúkratryggingar Íslands sem faglegan samningsaðila á grundvelli heildstæðrar stefnumörkunar ráðuneytisins. Líkt og fram hefur komið af hálfu ráðuneytisins hefur verið unnið að því á síðustu misserum að skerpa á verkaskiptingu og ábyrgðarskilum við gerð samninga og mun ráðuneytið halda þeirri vinnu áfram í samstarfi við Sjúkratryggingar Íslands. Ráðuneytið muni í því sambandi taka athugasemdir og ábendingar Ríkisendurskoðunar sem fram koma í skýrslu stofnunarinnar til skoðunar.
Gerð heildstæðrar heilbrigðisstefnu, sem samþykkt verður á alþingi í þverpólitískri sátt af hálfu allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á þinginu, er því bæði gott og nauðsynlegt skref í átt að bættri heilbrigðisþjónustu fyrir alla, og góðri nýtingu fjármagns í heilbrigðiskerfinu.