Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. mars 2018 HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Eflum lýðheilsu

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - mynd

Grein eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.
Birtist í Morgunblaðinu 12. mars 2018.

Öflugt samfélag byggist á góðri heilsu og líðan sem flestra. Sem flestir ættu að geta notið æviáranna við góða heilsu og til þess að stuðla að því þurfa lýðheilsusjónarmið að vera ríkjandi í allri stefnumótun og aðgerðum stjórnvalda. 

Áhættuþættir sjúkdóma sem tengjast lífsstíl eru vaxandi vandi í heiminum öllum. Í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar kemur fram að áhættuþættir lífsstílstengdra sjúkdóma séu eitt helsta viðfangsefni samfélagsins á sviði lýðheilsu.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að leggja skuli áherslu á forvarnir og lýðheilsu og ég mun leggja sérstaka áherslu á það í embætti heilbrigðisráðherra að tryggja framgang verkefna því sviði. Markmiðið með öflugu lýðheilsustarfi er bæði að stuðla að góðri heilsu, lífsgæðum og vellíðan landsmanna og tryggja örugga og góða heilbrigðisþjónustu. Með því að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu drögum við til framtíðar úr beinum og óbeinum kostnaði fyrir samfélagið.

Það getum við til dæmis gert með því að leggja sérstaka áherslu á verkefni tengd geðrækt, offitu, vímuvörnum og skaðaminnkun og baráttuna gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi. Nú þegar er verkefnið Heilsueflandi samfélag í gangi á vegum Embættis landlæknis. Verkefnið hefur
þann tilgang að efla lýðheilsu og felst í því að sveitarfélög, landsfjórðungar, sýslur eða hverfi vinna skipulega að því að heilsa og líðan allra íbúa sé höfð í fyrirrúmi í allri stefnumótun. Í heilsueflandi samfélagi er stöðug áhersla lögð á að bæta bæði hið manngerða og félagslega umhverfi íbúa, draga úr ójöfnuði og draga úr tíðni og afleiðingum langvinnra sjúkdóma með margvíslegu forvarnar- og heilsueflingarstarfi.

Mikilvægt er að styðja áfram við verkefni á borð við Heilsueflandi samfélag og hrinda fleiri slíkum verkefnum úr vör. Einnig að styðja við þrótta- og æskulýðsstarf, öldrunarstarf og heilsueflingu á vinnustöðum. Svæðisbundnir lýðheilsuvísar veita yfirsýn yfir lýðheilsu í hverju umdæmi fyrir sig í samanburði við landið í heild. Lýðheilsuvísum er ætlað að auðvelda sveitarfélögum og heilbrigðisþjónustu að greina stöðuna í sínu umdæmi, finna styrkleika og veikleika og skilja þarfir íbúanna þannig að þau geti unnið saman að því að bæta heilsu og líðan, og þeir eru nytsamlegir til að tryggja eftirfylgni verkefna á sviði lýðheilsu. Forvarnir þarf einnig að efla, m.a. með því að efla skimun, þ.m.t. skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi og að skimunin nái til fleiri aldurshópa.

Við megum ekki gleyma því að öflug lýðheilsa er forsenda fyrir heilbrigðu og góðu samfélagi. Mikilvægt er að lýðheilsa sé höfð að leiðarljósi í öllum aðgerðum og stefnumótun stjórnvalda til þess að markmiðum lýðheilsustarfs verði náð.

Þannig verður lýðheilsustefna hluti af samfélaginu en ekki verkefni sem stendur eitt á báti.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta