Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. apríl 2018 HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Öflugara heilbrigðiskerfi

Svandís Svavarsdóttir - myndVelferðarráðuneytið

Grein eftir Svandísi Svararsdóttur heilbrigðisráðherra.
Birtist í Morgublaðinu 11. apríl 2018

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar verður rædd í þinginu í dag og á morgun. Tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára er nú lögð fram á Alþingi í þriðja sinn á grundvelli laga nr. 123/ 2015 um opinber fjármál. Áætlunin endurspeglar þær áherslur sem lagðar eru í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Í áætluninni er brugðist við ákalli samfélagsins um að fjármagna betur mikilvæga samfélagsþjónustu og innviði velferðarkerfisins. 

Útgjöld til reksturs heilbrigðismála aukast umtalsvert samkvæmt nýju fjármálaætluninni. Miðað við fjárlög yfirstandandi árs aukast útgjöld til heilbrigðismála um 79 milljarða króna alls á næstu fimm árum. Stofnkostnaður, m.a. vegna byggingarframkvæmda, verður 101 milljarður á tímabilinu. Stefnt er að því að minnka greiðsluþátttöku sjúklinga á tímabili fjármálaáætlunar, þannig að hlutdeild sjúklinga hérlendis verði sambærileg því sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum.

Meðal verkefna tímabilsins er gerð heilbrigðisstefnu, að skapa aðstæður fyrir aukna göngudeildarþjónustu á Landspítala auk áframhaldandi framkvæmda við spítalann. Þar á meðal eru byggingarframkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna við Hringbraut sem hefjast á þessu ári.

Framlög til geðheilbrigðismála verða aukin á tímabilinu og komið verður upp geðheilsuteymum um allt land í samræmi við aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum. Þá verður unnið á markvissan hátt að því að fjölga fagstéttum innan heilsugæslunnar og efla hana sem fyrsta viðkomustað. Fyrirkomulag sjúkraflutninga verður tekið til endurskoðunar í samræmi við þarfagreiningar og áhersla lögð á öryggi og gæði þjónustunnar. Hjúkrunarrýmum verður fjölgað um 300 frá fjármálaáætlun síðastliðins árs.

Skimun vegna ristilskrabbameins mun hefjast á tímabilinu og áfram verður stutt við heilsueflandi samfélög. Unnið verður að því að bæta aðgang almennings að nauðsynlegum lyfjum. Þá verður aðgangur þeirra er nota vímuefni í æð að hreinum sprautubúnaði tryggður og ráðist í aðgerðir til að sporna við misnotkun á geð- og verkjalyfjum. Neyslurými fyrir langt leidda fíkniefnaneytendur verður opnað. Stefnt verður að því að bæta aðgengi að hormónatengdum getnaðarvörnum og að dreifa smokkum gjaldfrjálst til tiltekinna hópa. Kynfræðsla verður aukin og fjarheilbrigðisþjónusta efld. 

Rauður þráður í þeim köflum fjármálaáætlunar sem varða heilbrigðisþjónustu er styrking hins opinbera heilbrigðiskerfis. Öflugt opinbert heilbrigðiskerfi er ein af grunnstoðum velferðarkerfisins og við munum leggja ríka áherslu á að efla hið opinbera kerfi, með það að markmiði að auka jafnan aðgang allra að heilbrigðisþjónustu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta