Næstu skref
Til dæmis má nefna gerð heilbrigðisstefnu og heilbrigðisþing, sem haldið verður í nóvember. Vinna við gerð heilbrigðisstefnu er hafin en hún verður unnin með hliðsjón af þörfum allra landsmanna. Skilgreina þarf betur hlutverk og samspil einstakra þátta innan heilbrigðisþjónustunnar og á heilbrigðisþinginu í haust verða þær áherslur ræddar sem birtast í stefnunni.
Einnig má nefna stofnun Þróunarmiðstöðvar heilsugæslu á landsvísu. Þróunarmiðstöðin mun leiða faglega þróun allrar heilsugæsluþjónustu í landinu og þróun þjónustuúrræða í heilsugæslu. Þróunarmiðstöðin mun einnig leiða samstarf á sviði rannsókna og stuðla að því að sérhæfð þekking fagfólks heilsugæslunnar um allt land nýtist sem best. Samhæfing þjónustu á landsvísu er eitt af meginmarkmiðum með stofnun miðstöðvarinnar, þannig að betur megi tryggja jafnt aðgengi að sambærilegri heilsugæsluþjónustu, óháð búsetu. Vonast er til þess að starfsemin geti hafist strax í haust eða vetur.
Uppbygging hjúkrunarrýma á landinu öllu er aðkallandi verkefni sem mun hafa jákvæð áhrif á heilbrigðiskerfið allt. Í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019-2023 er gert ráð fyrir uppbyggingu 550 hjúkrunarrýma fram til ársins 2023, en það er aukning um 300 frá fyrri áætlun.
Verkefni tengd Landspítala og starfseminni þar eru nokkur. Tilboð vegna jarðvegsvinnu við Hringbraut hafa komið fram, sem og tilboð í fullnaðarhönnun rannsóknarhúss. Jarðvegsvinna og framkvæmdir við meðferðarkjarnann hefjast í sumar en stefnt er að því að bygg¬ingu nýs þjóðar-sjúkra¬húss við Hring¬braut verði lokið árið 2024, í sam¬ræmi við fjár¬mála¬áætl¬un 2019-2023.
Stefnt er að aukinni göngudeildarþjónustu við Landspítala, með því að nýta húsnæði við Eiríksstaði sem nú hýsir skrifstofur yfirstjórnar spítalans. Á Eiríkisstöðum yrði til dæmis aðstaða fyrir brjóstamiðstöð Landspítala, miðstöð um sjaldgæfa sjúkdóma, erfðaráðgjöf og innskriftarmiðstöð, auk annarrar göngudeildarþjónustu. Efling göngudeildarþjónustu er mikilvægur liður í styrkingu hins opinbera heilbrigðiskerfis.
Nefna má fjölmörg önnur verkefni sem framundan eru; til dæmis eflingu sérgreinaþjónustu á landsbyggðinni með það markmið í huga að stuðla að jöfnu aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu. Einnig efling utanspítalaþjónustu og aukna áherslu á notkun gæðavísa í heilbrigðisþjónustu.
Það er mikilvægt að nýta tímann vel í þágu heildstæðrar heilbrigðisþjónustu og þar er sumarið líka góður tími.