Mikilvægir lýðheilsuvísar
Grein Svandísar Svavarsdótttur heilbrigðisráðherra
Birtist í Morgunblaðinu 24. júlí 2018
Embætti landlæknis hefur sett saman lýðheilsuvísa fyrir árið 2018. Lýðheilsuvísarnir, sem nú koma út í þriðja sinn, eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar og áhrifaþætti þeirra, og Embætti landlæknis safnar saman og birtir einu sinni á ári. Lýðheilsuvísarnir eru flokkaðir eftir heilbrigðisumdæmum og eru liður í því að veita heildaryfirsýn yfir heilsufar landsmanna.
Vísarnir auðvelda bæði sveitarfélögum, veitendum heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisyfirvöldum að greina stöðuna í hverju heilbrigðisumdæmi með tilliti til þeirra þátta sem skoðaðir eru og auðvelda vinnu við að bæta heilsu og líðan landsmanna. Sem dæmi um þætti sem eru skoðaðir voru í lýðheilsuvísum fyrir árið 2018 eru almenn vellíðan, streita, gosdrykkjaneysla, notkun þunglyndislyfja, líkamsþyngdarstuðull og þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi.
Þeir vísar sem mældir eru hverju sinni eru mismunandi en við val á þeim er sjónum beint að áhrifaþáttum heilsu og líðanar sem fela í sér tækifæri til heilsueflingar og forvarna, auk þess sem leitast er við að draga fram þætti í sjúkdómabyrði sem mikilvægt er að heilbrigðisþjónusta hvers umdæmis geti brugðist við eftir föngum. Lýðheilsuvísarnir eru því mikilvægt tól til þess að skoða ýmsa áhrifaþætti heilsu með markvissum hætti. Áhrifaþættir heilsu eru annars vegar þættir sem ekki er hægt að breyta, en hins vegar þættir sem hafa má áhrif á. Sem dæmi um áhrifaþætti sem hafa má áhrif á má nefna lifnaðarhætti, samskipti við fjölskyldu og vini, auk lífsskilyrða eins og menntun, atvinnu, húsnæði og heilbrigðis- og félagsþjónustu.
Sem dæmi um nýtingu lýðheilsuvísanna má nefna Heilsueflandi samfélög og Heilsueflandi skóla. Í þeim verkefnum eru lýðheilsuvísar meðal annars notaðir til að styðja við skóla og sveitarfélög sem vilja skapa aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum og heilsu og vellíðan allra íbúa. Vísana má einnig nota á aðra vegu, til dæmis sem grunn fyrir ýmiss konar átaks- og forvarnarverkefni tengd heilsu, auk þess sem þeir mynda mikilvægan gagnagrunn um stöðu lýðheilsu í íslensku samfélagi.
Að mínu mati fer meðvitund landsmanna um mikilvægi almennrar heilsueflingar almennt vaxandi. Verkefnið um söfnun lýðheilsuvísa er dæmi um verkefni sem mikilvægt er að styðja við áfram og vekja athygli á, ekki aðeins fyrir stjórnvöld heldur einnig svo landsmenn allir séu upplýstir um stöðu hinna ýmissa áhrifaþátta heilsu á landsvísu. Áhugi sem flestra landsmanna í eflingu lýðheilsu er forsenda þess að við náum sem bestum árangri. Heilbrigðari, glaðari og virkari þjóð hlýtur að vera eftirsóknarvert takmark, og lýðheilsuvísarnir hjálpa okkur að nálgast það takmark.