Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. september 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Mikilvæg forgangsmál

Svandís Svavarsdóttir - myndVelferðarráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur eru nefnd fjölmörg markmið sem varða heilbrigðiskerfið beint og óbeint. Af fyrirliggjandi verkefnum hef ég ákveðið að í fyrstu muni ég leggja sérstaka áherslu á ákveðin atriði. Það eru til dæmis gerð nýrrar heilbrigðisstefnu, efling heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar í heilbrigðiskerfinu, lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga og bygging nýs Landspítala.

Við ætlum að fullvinna heilbrigðisstefnu með hliðsjón af þörfum allra landsmanna. Í heilbrigðisstefnu verða mótuð markmið og leiðir í heilbrigðismálum í þeim tilgangi að stuðla að góðu heilbrigði þjóðarinnar. Þessi vinna hefur verið sett í forgang innan ráðuneytisins og hún gengur vel. Ég stefni að því að aðaláherslur stefnunnar verði ræddar á heilbrigðisþingi í vetur og hana mun ég síðan leggja fyrir alþingi árið 2019.

Það er mikilvægt að grunnheilbrigðisþjónustan sé öflug. Efling heilsugæslunnar er lykilatriði í því samhengi. Heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður sjúklinga í kerfinu, auk þess sem hún á að beina sjúklingum á rétta þjónustuveitendur. Við höfum þegar hafist handa við að styrkja heilsugæsluna og munum halda því áfram. Fjölgun starfsstétta sem starfa innan heilsugæslunnar og stofnun Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar á landsvísu eru til dæmis liðir í eflingu heilsugæslunnar.

Lægri greiðsluþátttaka sjúklinga eykur aðgang alls almennings að heilbrigðisþjónustu og stuðlar að jöfnuði í samfélaginu. Við höfum nú þegar lækkað greiðsluþátttöku öryrkja og lífeyrisþega í tannlæknakostnaði og nú er unnið að því að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu almennt. Markmiðið er að við nálgumst meðaltal Norðurlandaþjóðanna í þessum efnum.

Uppbygging vegna Landspítalaverkefnis er í fullum gangi. Vinna við lokafrágang nýs sjúkrahótels á Hringbrautarlóð er langt komin og skóflustunga að nýjum meðferðarkjarna verður tekin í haust. Í síðari áföngum uppbyggingar spítalans við Hringbraut verður bygging dag-, göngu- og legudeildarhúss. Uppbygging Landspítala við Hringbraut verður bylting fyrir spítalaþjónustu á landinu.

Forgangsmálin sem hér hafa verið nefnd eru aðeins nokkur dæmi um mikilvæg verkefni. Verkefnin eru enn fleiri og öll mikilvæg. Ég er fullviss um það að ef við höldum áfram á þeirri vegferð sem þegar er hafin, og felst í styrkingu hins opinbera heilbrigðiskerfis, færumst við smám saman nær því að takast það að tryggja jafnan aðgang allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu sem stenst samanburð við það sem best gerist í heiminum. Það hlýtur að vera markmið sem við getum öll sammælst um að sé eftirsóknarvert.

Greinin birtist í Morgublaðinu 10. september 2018


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta