Geðheilbrigðisþjónusta í nærumhverfi
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:
Samkvæmt upplýsingum frá landlækni frá því í september 2017 hefur geðheilsu ungs fólks hrakað á undanförnum árum. Geðheilbrigðisþjónustu þarf að efla og styrkja sérstaklega, til að stemma stigu við þeirri þróun. Ég hef lagt ríka áherslu á eflingu geðheilbrigðisþjónustu í embætti mínu sem heilbrigðisráðherra, með það meginmarkmið að leiðarljósi að tryggja skuli öllum jafnan aðgang að geðheilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og búsetu. Geðheilbrigðisþjónusta er mikilvægur þáttur heilbrigðisþjónustu og ætti að vera aðgengileg í nærumhverfi.
Í fjárlögum fyrir árið 2019 er gert ráð fyrir umtalsverðri aukningu fjárframlaga til geðheilbrigðisþjónustu innan heilsugæslunnar. Geðheilbrigðisþjónusta á landsvísu innan heilsugæslunnar verður efld með 650 milljóna króna framlag, bæðii til að fjölga geðheilsuteymum og fjölga stöðugildum sálfræðinga. Á höfuðborgarsvæðinu er gert ráð fyrir þremur geðheilsuteymum og gert er ráð fyrir geðheilsuteymum á landsbyggðinni allri.
Með þessu aukna framlagi til geðheilbrigðisþjónustu á heilsugæslustöðvum ætti til að mynda að takast að fullmanna stöður sálfræðinga sem sinna fullorðnum á heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Staðan er sú nú í september 2018 að sálfræðingar sem sinna fullorðnum hafa verið ráðnir á sex af fimmtán heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu en nú þegar er boðið upp á gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu fyrir börn á öllum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Fjárframlög samkvæmt fjárlögum ársins 2019 munu einnig gera það að verkum að á næsta ári ætti að nást markmið gildandi geðheilbrigðisáætlunar alþingis um aðgengi fyrir alla að sálfræðiþjónustu á 90% heilsugæslustöðva landsins.
Þjónusta sálfræðinga á heilsugæslustöðvum er ókeypis fyrir börn, og bæði er boðið upp á einstaklings- og hópmeðferðir fyrir börn, eftir því sem við á í hverju tilviki. Heilsugæslan vinnur einnig í nánu samstarfi við sjúkrahúsin.
Efling heilsugæslunnar er eitt af forgangsmálum mínum. Einn liður í þeirri eflingu er aukið aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu á heilsugæslustöðvum. Sálfræðiþjónusta er hluti af grunnheilbrigðisþjónustu og að mínu mati er þessi styrking þeirrar þjónustu í heilsugæslunni því mikið framfaraskref. Með auknum fjárframlögum í þennan málaflokk tekst okkur að bæta aðgengi að þjónustunni, stytta biðlista og þar með jafna aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu.
Grein ráðherra birtist í Morgunblaðinu 28. september 2018