Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

05. október 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Ræða heilbrigðisráðherra við undirritun samnings um fullnaðarhönnun rannsóknahúss Landspítala við Hringbraut

Svandís Svavarsdóttir - myndVelferðarráðuneytið

Kæru gestir

Við erum hér samankomin til þess að fagna stórum áfanga í Hringbrautarverkefninu, uppbyggingu Landspítalaþorpsins hér við Hringbraut. Fyrir níu árum síðan setti þáverandi heilbrigðisráðherra, Álfheiður Ingadóttir, af stað verkefnastjórn, sem síðar varð Nýr Landspítali ohf., til að vinna að undirbúningi og uppbyggingu þessa svæðis. Það var gert með víðtækri þátttöku starfsmanna Landspítala og Háskóla Íslands.
Uppbygging Landspítala við Hringbraut er umfangsmikið verkefni og í vor skipaði ég samstarfsráð til þess að styrkja samvinnu aðila um uppbyggingu Landspítalans sem verður mér til samráðs og ráðgjafar vegna verkefnisins. Ég hef einnig ákveðið að setja á fót vinnuhóp sem mun hafa það hlutverk að framkvæma ástandsmat eldri bygginga spítalans, gera kostnaðaráætlanir vegna stoðbygginga og verkáætlun um flutning á starfsemi í nýtt húsnæði. Í þeim hópi munu eiga sæti fulltrúar Landspítala, velferðarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og Framkvæmdasýslu ríkisins.

Nú er uppbygging Landspítala við Hringbraut í fullum gangi. Uppbyggingin er mikilvæg fyrir starfsemi sjúkrahússins í heild, en ekki síður fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra.

Laugardaginn 13. október nk. boða ég til skóflustungu að meðferðarkjarnanum, sem kemur til með að vera stærsta húsið í þessari stærstu framkvæmd lýðveldissögunnar.

Þá verður enn einum stóra áfanganum náð en jarðvinna að húsinu hefur þegar verið boðin út og gatna- og bílastæðagerð er hafin hér á svæðinu. Verið öll velkomin á laugardaginn 13. október kl. 14.00 á svæðið milli Barnaspítala og Læknagarðs, neðan gömlu Hringbrautar.
Í dag er verkefnið okkar að festa niður samning milli NLSH ohf. og Corpus3 ehf. um fullnaðarhönnun á rannsóknahúsi Landspítalans. Húsið var forhannað á árunum 2009-2012 með þátttöku notenda og síðan þá hefur forhönnunin verið rýnd og beitt við það LEAN-aðferðarfræðinni. Forval hönnuða fór fram á síðasta ári og voru fjórir íslenskir hönnunarhópar hæfir til að taka þátt í samkeppnisútboði um fullnaðarhönnunina og Corpus3 -hópurinn stóð uppi sem lægstbjóðandi.

Rannsóknahúsið, sem verður um 15.500 fermetrar, mun sameina alla rannsóknastarfsemi spítalans á einn stað, bæði þjónusturannsóknir og hefðbundnar vísindalegar rannsóknir. Starfsemi Blóðbanka mun einnig verða í húsinu. Á rannsóknahúsinu er gert ráð fyrir þyrlupalli fyrir neyðarflug sem mun tengjast bráðastarfsemi spítalans. Rannsóknahúsið mun tengjast öðrum byggingum spítalans á sjálfvirkan hátt með tæknikerfum en einnig verður innangengt á milli bygginga í göngum eða yfir brýr. Landspítali og Háskóli Íslands hafa átt mjög gott samstarf í þessu verkefni og ég flyt ykkur góðar kveðjur Jóns Atla Benediktssonar háskólarektors sem vildi gjarnan vera með okkur hér í dag en á ekki heimangengt.

Ég vil að lokum óska Nýjum Landspítala ohf. og Corpus áframhaldandi góðs samstarfs varðandi hönnun bygginga spítalans og þakka öllum þeim sem komið hafa að verkefnunum, hvort sem er tæknifólkinu eða klínísku starfsfólki spítalans. Á stundum sem þessum má ekki gleyma því að öll þessi uppbygging mun skila sér í enn betri þjónustu við sjúklinga. Sjúklingar og starfsfólk spítalans og Háskóla Íslands eru hornsteinar að því samfélagi sem er hér við Hringbraut. Við sem komum að verkefnum á annan hátt hlúum að því samfélagi og veitum því brautargengi og samningurinn sem nú er formfestur staðfestir það.

Takk fyrir.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta