Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. október 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Mönnun í hjúkrun

Svandís Svavarsdóttir - myndVelferðarráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Ein stærsta áskorun sem Ísland og nágrannalönd þess standa frammi fyrir nú er mönnunarvandi í heilbrigðiskerfinu. Sá vandi hefur verið viðvarandi í fjölmennum starfsstéttum í heilbrigðiskerfinu, t.d. og sérstaklega hjá hjúkrunarfræðingum. Það er áhyggjuefni að slíkur flótti sé einna helst vandamál þegar um er að ræða stórar kvennastéttir og ljóst er að við þurfum að bæta kjör hjúkrunarfræðinga og annarra fjölmennra kvennastétta, gera starfsumhverfið eftirsóknarverðara og meta menntun til launa á sanngjarnan hátt.

Hvað hjúkrunarfræðinga varðar sérstaklega er áskorunin tvíþætt. Í fyrsta lagi þarf að tryggja að fjöldi útskrifaðra hjúkrunarfræðinga verði í samræmi við þörf og næga nýliðun í stéttinni og í öðru lagi þarf að tryggja að þeir hjúkrunarfræðingar sem hafa menntað sig til starfsins skili sér í fagið og loks að leita leiða til að ná til baka þeim hjúkrunarfræðingum sem ekki starfa við hjúkrun.

Ég hef ákveðið að leggja sérstaka áherslu á þessi mál og hef til skoðunar aðgerðir í því skyni að tryggja mönnun hjúkrunarfræðinga til framtíðar. Aðgerðirnar varða allar starfskjör hjúkrunarfræðinga á einn eða annan hátt. Þær varða meðal annars kjör, vinnutíma, starfsumhverfi, menningu og stjórnun og menntun hjúkrunarfræðinga.

Hvað kjör varðar þarf að vera samhljómur í upplifun hjúkrunarfræðinga á ábyrgð og vinnuálagi annars vegar og launakjörum hins vegar. Vinnutími og vaktaálag þurfa að vera þess eðlis að hægt sé að samræma vinnu og einkalíf svo vel sé og starfsumhverfi þarf að vera til þess fallið að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna. Í því samhengi skiptir vinnuaðstaða, tækjabúnaður, vinnuálag og möguleikar til starfsþróunar miklu máli.

Mikilvægt er einnig að fjöldi brautskráðra hjúkrunarfræðinga taki mið af þörf fyrir nýliðun í heilbrigðisþjónustunni. Í yfirlýsingu minni, forsætisráðherra og fjármálaráðherra frá 12. febrúar 2018 í tengslum við kjarasamninga BHM kemur fram að ráðast eigi í sérstakt átak í gerð nýrrar mannaflaspár fyrir heilbrigðiskerfið. Að mínu mati er mikilvægt að mannaaflaspá taki einnig til hjúkrunarfræðinga.

Að mínu mati þarf pólitískan vilja til þess að mönnun heilbrigðisþjónustunnar verði eins og best verður á kosið. Samstarf við fagstéttirnar sjálfar eru þar í forgrunni, skýrar spár og metnaðarfull framtíðarsýn fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu.

Grein ráðherra birtist í Morgunblaðinu 17. október 2018


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta