Eflum kynheilbrigðisþjónustu
Meðal þingmála á þingmálaskrá minni fyrir 149. löggjafarþing, þingveturinn 2018-2019 er frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum og lögum um landlækni og lýðheilsu. Í frumvarpinu eru lagðar til lagabreytingar sem heimila hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum.
Markmið lagafrumvarpsins er annars vegar að stuðla að bættu aðgengi kvenna að kynheilbrigðisþjónustu, ásamt því að efla og styrkja slíka þjónustu, og hins vegar að nýta betur fagþekkingu hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra innan heilbrigðisþjónustunnar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að heimild hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra til að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum verði bundin því skilyrði að viðkomandi starfi á heilbrigðisstofnun þar sem heilsugæsla, kvenlækninga- eða fæðingarþjónusta er veitt. Landlæknir mun veita hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum leyfi til lyfjaávísunar að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum og meðal þessara skilyrða verður að viðkomandi leyfisumsækjandi hafi sótt og staðist fræðilegt og klínískt námskeið um lyfjaávísanir.
Þessar lagabreytingar eru í samræmi við ábendingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um mikilvægi þess að almenningur hafi greiðan aðgang að þjónustu og ráðgjöf um kynheilbrigði og getnaðarvörnum hjá heilsugæslu. Auk þess er samhljómur með þessum lagabreytingum og aukinni áherslu á forvarnir í heilbrigðismálum og ráðgjöf til almennings um eigin heilsu.
Sjálfsforræði kvenna þarf að efla, og þar með talinn rétt kvenna til að taka ákvörðun um barneign. Með þessari heimild til ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga er tekið mikilvægt skref í þá átt með bættu aðgengi kvenna að kynheilbrigðisþjónustu.
Frumvarpið er einnig til þess fallið að efla heilsugæsluna og teymisvinnu innan hennar. Ég hef lagt áherslu á styrkingu heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar í heilbrigðiskerfinu, með það að markmiði að tryggja jafnan aðgang allra að góðri heilbrigðisþjónustu. Með aukinni eftirspurn eftir heilsugæsluþjónustu aukast áskoranir heilbrigðisyfirvalda enn frekar. Í því skyni er mikilvægt að nýta þekkingu fagstétta sem þar starfa enn betur, svo mannauður nýtist sem best. Fyrirkomulagið sem hér um ræðir felur í sér samstarf við lækna sem gefur hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum færi á að sinna fjölbreyttari verkefnum en nú.
Það er von mín að frumvarpið verði að lögum. Ég er sannfærð um það að samþykkt þess muni stuðla að enn betri heilbrigðisþjónustu í landinu, öllum til heilla.
Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 26. október 2018