Heilbrigðisþing
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:
Síðastliðinn föstudag, 2. nóvember, var efnt til opins heilbrigðisþings á vegum velferðarráðuneytisins. Markmið þingsins var að ræða drög að heilbrigðisstefnu, stefnu fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi til ársins 2030. Þingið var opið öllum og stefnudrögin eins og þau liggja fyrir nú voru kynnt og rædd, með það fyrir augum að fá athugasemdir og ábendingar við þau. Niðurstöður heilbrigðisþings verða svo notaðar til að uppfæra stefnudrögin. Með innleiðingu heilbrigðisstefnu mun Íslands bætast í hóp fjölda Evrópuþjóða sem hafa sett sér slíka stefnu. Heilbrigðisstefna á að vera leiðarljós sem sameinar krafta þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu og tryggir sjúklingum bestu þjónustu sem völ er á, þar sem öryggi, gæði og jöfnuður eru í fyrirrúmi.
Fulltrúar sjúklingasamtaka, hagsmunafélaga, veitenda heilbrigðisþjónustu, fagfélaga, allra heilbrigðisstétta og fleiri voru sérstaklega hvattir til að mæta á þingið. Rúmlega 250 manns með fjölbreyttan bakgrunn mættu til þess að ræða stefnudrögin. Mikil þekking komst til skila til okkar sem nú vinnum stefnuna áfram, þekking sem fer inn í straum ferilsins sem sköpun heilbrigðisstefnunnar er. Við verðum að fá mismunandi sjónarmið fram til þess að geta stillt saman strengi inn í framtíðina því það er lykilatriðið að heilbrigðisstefnan geti lifað af mörg kjörtímabil og að hún verði skjal sem samfélagið sé sammála um og alþingi getur lokið í þverpólitískri sátt og sem síðar verði vinnuskjal margra heilbrigðisráðherra.
Næstu skref eru að setja drögin að stefnunni í opna samráðsgátt til þess að tryggja enn frekar að allir geti komið sínum ábendingum á framfæri, ekki síður heilbrigðisstéttir og sjúklingasamtök. Því næst verður stefnan lögð fram í formi þingsályktunartillögu sem byggir á skýrslu um heilbrigðisstefnu fyrir Íslands til ársins 2030 og mælt verður fyrir tillögunni á vorþingi.
Heilbrigðisþjónustan snýst um kjarnann í samfélaginu. Það er hluti af ákvörðun fólks þegar það velur sér stað til að lifa og búa og starfa, hvernig heilbrigðisþjónusta er veitt á þeim stað. Ungt fólk horfir á grunnþjónustuna þegar það velur sér stað til að búa á. Ísland þarf að standast bestu kröfur til heilbrigðisþjónustu fyrir alla, og standast samanburð við það sem best gerist í heiminum. Með setningu heilbrigðisstefnu stígum við mikilvægt skref í átt að því að móta heilbrigðisþjónustunni grunn og bæta þjónustuna.
Við höfum alla möguleika á því að hér sé öflugt heilbrigðiskerfi í fremstu röð. Þannig verður Ísland enn meira spennandi og öruggari valkostur til búsetu komandi kynslóða. Skýr heilbrigðisstefna er varða á þeirri leið. Við getum lokið gerð hennar í víðtækri sátt og við eigum að gera það.
Grein ráðherra birtist í Morgunblaðinu 5. nóvember 2018