Bætum kjör sjúkraliða
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:
Mönnun heilbrigðisstétta er viðvarandi áskorun. Á síðustu árum hefur reynst sérstaklega erfitt að manna stöður í tilteknum greinum heilbrigðisþjónustunnar. Það er áhyggjuefni að vandinn sé mestur í stórum kvennastéttum og ljóst er að við þurfum að bæta kjör þessara stétta.
Næst stærsta heilbrigðisstétt landsins, sjúkraliðar, er ein þeirra stétta þar sem mönnunarvandi er mikill. Kjör, vinnutími og starfsumhverfi eru þættir sem þar skipta sköpum og gera það að verkum að menntaðir sjúkraliðar hverfa í miklum mæli til annarra starfa. Þessi vandi er svo mikill að grípa þarf til aðgerða. Við þurfum að greina stöðuna vel til að skýrt sé til hvaða aðgerða skuli grípa.
Það er aðkallandi verkefni að leita leiða til að fjölga starfsfólki í heilbrigðiskerfinu svo mönnun allra fagstétta sé tryggð. Hlutverk ríkisins er að sjá til þess að nægur fjöldi heilbrigðisstarfsmanna útskrifist í hverri starfsgrein og að fyrir hendi séu hvatar sem stuðli að fullnægjandi mönnun og uppbyggingu heilbrigðisstofnana landsins. Miklu máli skiptir að þau sem hafa menntað sig til starfa sem sjúkraliðar skili sér til starfa í faginu og séu sátt við kjör sín. Í því samhengi skipta nokkur atriði meginmáli, til dæmis stjórnun og þáttur yfirmanna, starfsumhverfi, möguleikar til starfsþróunar, launastefna, vinnutími og jafnréttissjónarmið.
Í drögum að heilbrigðisstefnu, sem nú má lesa í samráðsgátt stjórnvalda, er lögð áhersla á mönnun í heilbrigðiskerfinu. Þar kemur meðal annars fram að menntun heilbrigðisstétta sé forsenda þess að hægt sé að manna heilbrigðiskerfið með fullnægjandi hætti á hverjum tíma og veita sjúklingum góða þjónustu. Tryggja þurfi nauðsynlega nýliðun einstakra heilbrigðisstétta. Menntakerfið þurfi að fullnægja þörfum heilbrigðisþjónustunnar fyrir vel menntað heilbrigðisstarfsfólk í öllum greinum.
Samhljómur er með þessum áherslum heilbrigðisstefnunnar og því verkefni sem blasir við. Í drögum að heilbrigðisstefnu kemur einnig fram að árið 2030 eigi staðan að vera sú að mannaflaþörf heilbrigðiskerfisins hafi verið greind og viðeigandi ráðstafanir gerðar af hálfu ríkisvaldsins til að tryggja mönnun. Ég mun leggja áherslu á það að efnisatriðum stefnunnar um mönnun í heilbrigðiskerfinu verði fylgt eftir og að gripið verði til nauðsynlegra aðgerða til þess að gera starfsumhverfi allra heilbrigðisstétta, þar með talið sjúkraliða, eftirsóknarverðara. Menntun og fagþekkingu þarf að meta að verðleikum og brýnt að sérhver fagstétt taki þátt í teymisvinnu og myndi sterka heild í heilbrigðisþjónustunni þar sem sjúklingurinn er í fyrirrúmi. Sá þáttur heildarkjara sem lýtur að starfsumhverfi og möguleikum til starfsþróunar verður alltaf að vera hluti af heildarmyndinni.
Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 3. desember 2018