Engin komugjöld fyrir aldraða og öryrkja í heilsugæsluna
Svandís Svavarsdóttir heilbriðgisráðherra skrifar:
Í samræmi við áform ríkisstjórnarinnar um að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu hefur verið ákveðið að hætta að innheimta komugjöld af öryrkjum og öldruðum í heilsugæslu og hjá heimilislæknum frá 1. janúar næstkomandi. Á það jafnt við um komu á dagvinnutíma og á öðrum tímum sólarhringsins. Þá verður gjaldtöku fyrir vitjanir lækna til aldraðra og öryrkja einnig hætt. Um er að ræða mikilvæga aðgerð og lið í stefnu stjórnvalda um að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu og auka á móti framlög hins opinbera. Þetta er einnig í samræmi við þá áherslu að efla hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar fólks í heilbrigðiskerfinu. Til að koma til móts við þá sem mest þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda var á síðasta ári innleitt nýtt greiðsluþátttökukerfi þar sem markmiðið var fyrst og fremst að koma til móts við þá sem mest þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Í því fólst að sett var þak á heildarútgjöld sjúklinga og ýmsar aðrar breytingar gerðar. Sú breyting hefur leitt til þess að heildarútgjöld sjúklinga í nýja greiðsluþátttökukerfinu eru um 1,5 milljörðum króna lægri á ársgrundvelli en þau voru áður og lækka nú enn frekar með niðurfellingu komugjalda öryrkja og aldraðra um áramótin. Þá var niðurgreiðsla á kostnaði aldraðra og öryrkja við tannlækningar aukin fyrr á þessu ári, en reglugerð varðandi það hafði ekki verið uppfærð síðan 2004. Þessi skref og fleiri verða til þess að jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu og þar með jöfnuð í samfélaginu, styrkja opinbert heilbrigðiskerfi og stuðla að því að heilbrigðisþjónustan sé eins heildstæð og samfelld og kostur er. Mikilvægt er að stefna stjórnvalda í heilbrigðismálum sé skýr, nú er í smíðum heilbrigðisstefna til ársins 2030 sem verður lögð fyrir Alþingi á vormánuðum. Stefnunni er ætlað að vera leiðarljós sem sameinar krafta þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu og tryggja sjúklingum bestu þjónustu sem völ er á, þar sem öryggi, gæði og jöfnuður eru í fyrirrúmi.
Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 21. desember 2018.