Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

01. febrúar 2019 HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Innleiðing krabbameinsáætlunar hafin

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Ísland er í fremstu röð þegar kemur að greiningu og meðferð krabbameina. Þann árangur getum við meðal annars þakkað vel menntuðu og hæfu fagfólki og öflugum sjúklingasamtökum.  Engu að síður má sökum fjölgunar íbúa og hækkandi aldurs þjóðarinnar búast við mikilli fjölgun einstaklinga sem greinast með krabbamein á næstu árum. Í ljósi þessarar þróunar hafa mörg vestræn ríki, þ.m.t. öll hin Norðurlöndin, sett fram krabbameinsáætlanir og hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gefið út leiðbeiningar um gerð slíkra áætlana sem ætlað er að skerpa sýn, móta markmið og aðgerðir og stilla saman strengi allra hlutaðeigandi í baráttunni við krabbamein. Segja má að fyrstu skrefin í gerð íslenskar krabbameinsáætlunar hafi verið tekin þann 4. febrúar 2011, á  alþjóðadegi krabbameins í tilefni af 60 ára afmæli Krabbameinsfélags Íslands. En þá tilkynnti Guðbjartur Hannesson, þáverandi velferðarráðherra, að stefnt yrði að gerð íslenskrar krabbameinsáætlunar. Í kjölfarið fór fram undirbúningsvinna af hálfu Krabbameinsfélags Íslands og í ársbyrjun 2013 skipaði velferðarráðherra ráðgjafahóp sem falið var það hlutverk að móta stefnu og meginmarkmið á sviði forvarna og meðferðar vegna krabbameina til ársins 2020.

Fjöldi manns kom að gerð krabbameinsáætlunar, bæði beint og sem ráðgefandi aðilar en hópurinn var skipaður fulltrúum frá Landspítalanum, Heilsugæslunni, háskólasamfélaginu og frá sjúklinga- og aðstandendasamtökum auk þess sem hópurinn leitaði ráðgjafar hjá fjölmörgum aðilum sem hafa aðkomu að málaflokknum.

Ráðgjafahópurinn skilaði skýrslu með tillögu að íslenskri krabbameinsáætlun í júlí 2017. Lögð er rík áhersla á notendur heilbrigðisþjónustunnar í áætluninni og er undirtitill hennar Notendamiðuð þjónusta í öndvegi. Ekki hafði verið tekin formleg afstaða til innleiðingar þeirra verkefna sem sett eru fram í áætluninni fyrr en nú, en ég hef nú ákveðið að unnið verði að framkvæmd verkefna í samræmi við tillögur ráðgjafarhóps. Gildistími áætlunarinnar verður til ársins 2030, til samræmis við tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu sem nú liggur fyrir Alþingi.

Þó að við höfum ekki enn náð að sigrast á krabbameini þá hefur mikið áunnist á undanförnum áratugum. Forvörnum, greiningu og meðferð hefur fleygt fram og batahorfur þeirra sem greinast hafa batnað verulega. Það er mín sannfæring að krabbameinsáætlunin muni stuðla að enn betri árangri á komandi árum.

Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 1. febrúar 2019.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta