Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. febrúar 2019 HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Heildstæð og samfelld heilbrigðisþjónusta fyrir alla.

Svandís Svavarsdóttir - myndVelferðarráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Mikilvægur áfangi í uppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut átti sér stað á dögunum þegar Sjúkrahótelið var afhent Landspítala sem mun fara með rekstur þess. Sjúkrahótelið er hannað eins og hefðbundið hótel. Það er með móttöku og veitingastað og í allri nálgun er lögð áhersla á að þeir sem þar dvelja séu gestir á hótelinu. Á sjúkrahótelinu er veitt sérhæfð þjónusta af hæfu fagfólki allan sólarhringinn. Tilgangur þess er fyrst og fremst að vera athvarf fyrir þá sem þurfa heilsu sinnar eða aðstandenda sinna vegna að dvelja fjarri heimabyggð vegna rannsókna og meðferðar. Þar að auki nýtist það sjúklingum sem sækja dag- og göngudeildarþjónustu á sjúkrahúsi, þeim sem eru í virkri meðferð og þurfa eftirlit og stuðning sem og þeim sem hafa dvalið á sjúkrahúsi og þarfnast heilbrigðisþjónustu til dæmis í kjölfar aðgerða. Á sjúkrahótelinu er veittur aðgangur að ráðgjöf og liðsinni hjúkrunarfræðinga bæði vegna heilsufarsvanda og við að sækja heilbrigðisþjónustu. Hjúkrunarfræðingar sjúkrahótelsins eru tengiliðir við meðferðardeild sjúklingsins og sjá meðal annars um sýklalyfjagjafir, eftirlit með blóðþrýstingi, lyfjagjafir og fleira.

Tilkoma sjúkrahótels er mikilvægt skref í bættri heilbrigðisþjónustu við landsmenn, einkum þá sem búa utan höfuðborgarsvæðisins og þurfa að sækja sérhæfða heilbrigðisþjónustu á Landspítalann. Meðferð sem sjúklingur þarf að gangast undir verður með tilkomu sjúkrahótels auðveldari vegna nálægðar við sjúkrahúsið. Öll umgjörð, umhverfið og þjónustan er heimilislegri en á sjúkrahúsi, auk þess sem sjúklingurinn býr í einbýli og getur haft nánari samskipti við ættingja og vini. Það er mín sannfæring að sjúkrahótelið muni gegna mikilvægu hlutverki í starfsemi Landspítalans, auka gæði heilbrigðisþjónustu og stuðla að hagkvæmni í rekstri til framtíðar. Með sjúkrahóteli er stigið enn eitt skrefið í að skapa heildstæða og samfellda heilbrigðisþjónustu fyrir alla.

Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 11. febrúar 2019

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta