Bætt skipulag krabbameinsskimana
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:
Nýverið fjallaði ég á þessum vettvangi um innleiðingu nýrrar krabbameinsáætlunar sem ætlað er að stuðla að bættum árangri í baráttu gegn krabbameini á næstu árum. Meðal þess sem krabbameinsáætlun felur í sér er áhersla á breytt fyrirkomulag skimana fyrir krabbameini með það að markmiði að ná betri árangri. Liggja nú fyrir tillögur skimunarráðs og Embættis landlæknis um breytt fyrirkomulag skimana sem fela meðal annars í sér stóraukna aðkomu Heilsugæslunnar að skimunum en jafnframt að komið verði á fót stjórnstöð skimana sem haldi m.a. utan um krabbameinsskrá. Með tillögunum er verið að færa skipulag skimana nær því skipulagi sem mælt er með í leiðbeiningum Evrópusambandsins. Ég hef samþykkt að fela verkefnisstjórn að útfæra og innleiða tillögurnar í samráði við hlutaðeigandi aðila.
Skimunarráð tekur fram í áliti sínu að það mæli með fyrirkomulagi þar sem ákvarðanir eru teknar í gagnsæju ferli, niðurstöður séu opnar og birtar reglulega og að ábyrgð á skimun sé samfélagsleg og njóti víðtæks stuðnings. Tillögurnar sem nú liggja fyrir miða að því að skimanir verði hluti af almennri og opinberri heilbrigðisþjónustu og er horft til þess að heilsugæslan fái þar aukið hlutverk. Nálægð Heilsugæslunnar við notendur heilbrigðisþjónustunnar og þekking hennar á almennum forvörnum er til þess fallin að greiða aðgengi almennings að skimunum og bæta árangur í baráttunni gegn krabbameini. Að mati Embættis landlæknis og skimunarráðs styrkir aukin aðkoma Heilsugæslunnar skipulag, utanumhald og eftirlit skimana hér á landi. Samhliða er lagt til að sett verði löggjöf um skimanir til að setja verkefninu skýrari farveg, skapa því stöðugleika og tryggja öryggi þátttakenda, gæðaeftirlit og fjármögnun. Tillaga um aukna aðkomu Heilsugæslunnar í þessu mikilvæga verkefni er í samræmi við áherslur nýrrar Heilbrigðisstefnu sem nú er til meðferðar hjá Velferðarnefnd þingsins og í samræmi við áherslur mínar um stóraukið hlutverk Heilsugæslunnar í heilbrigðiskerfinu.
Þrátt fyrir að Ísland sé í fremstu röð þegar kemur að greiningu og meðferð á krabbameini höfum við ekki náð að sigrast á því frekar en aðrar þjóðir. Engu að síður hefur mikið áunnist á undanförnum áratugum varðandi forvarnir, greiningu og meðferð og batahorfur þeirra sem greinast hafa batnað verulega. Með markvissum skimunum er hægt að ná enn betri árangri í baráttunni gegn krabbameini.
Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 11. mars 2019.