Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

08. maí 2019 HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Stöndum vörð um heilbrigðisþjónustuna

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndMynd: Heilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Útgjöld til heilbrigðismála á Íslandi nema ríflega 240 milljörðum króna á hverju ári sem er fjórðungur útgjalda ríkisins. Við ráðstöfun þeirra fjármuna þarf ríkið sem kaupandi heilbrigðisþjónustu að hafa skýra stefnu um hvaða þjónustu skuli kaupa og ráða ferðinni í þeim efnum. Heilbrigðisráðherra hefur það hlutverk að marka stefnu í heilbrigðismálum,  forgangsraðaða verkefnum og tryggja fjármögnun þeirra. Nú liggur fyrir þinginu heilbrigðisstefna sem mun endurspegla framtíðarsýn og áherslur í heilbrigðisþjónustunni til næstu 10 ára og vera stofnunum heilbrigðiskerfisins leiðarvísir. Ekki síst Sjúkratryggingum Íslands sem fara með það mikilvæga hlutverk að annast kaup á heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins.

Undanfarnar vikur hefur í umræðum um biðlista í heilbrigðiskerfinu borið á því viðhorfi að semja skuli við einkaaðila um  aðgerðir til að ná niður biðlistum og hefur verið vísað í rétt sjúklinga til að sækja heilbrigðisþjónustu út fyrir landsteinana. Í þeirri umræðu hefur því verið haldið fram að viljaleysi til að semja við einkaaðila um slíkar aðgerðir muni leiða til þess að til verði tvöfalt heilbrigðiskerfi hér á landi. Hér gætir nokkurs misskilnings. Tvöfalt heilbrigðiskerfi þýðir alla jafna að vissir einstaklingar hafi ráð á því að kaupa sér tryggingar eða hreinlega greiða sjálfir úr eigin vasa þjónustu sem er veitt af einkareknum heilbrigðisstofnunum. Á sama tíma leiti allur almenningur til opinberra heilbrigðisstofnana, sem vegna fjársveltis veita jafnvel lakari þjónustu en einkaaðilar. Slík tvöföld kerfi þekkjum við frá Bandaríkjunum og jafnvel Bretlandi þar sem stjórnvöld hafa valið að treysta einkaaðilum fyrir grunnþjónustu í heilbrigðiskerfinu. Í þeim löndum sem hafa farið þá leið að halda grunnstoðum heilbrigðiskerfisins í opinberum rekstri og fjármagnað af skattfé myndast ekki jarðvegur fyrir tvöfalt heilbrigðiskerfi. Þar hafa allir jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, enda sé það skráð í landslög. Dæmi um slík lönd eru Norðurlöndin.

Það er stefna mín og lögbundin skylda að stofna ekki til samninga um veitingu heilbrigðisþjónustu sem vega að stoðum hins opinbera þjónustukerfis. Í greinargerð með 40. grein laga um sjúkratryggingar nr. 112/2008 segir: „Þannig er ekki unnt að tína út ábatasömustu þjónustuþættina ef það þýðir að opinber stofnun missi hæfni til að veita þjónustu á hagkvæman og öruggan hátt.“ Það er því með því að standa vörð um opinbera heilbrigðiskerfið sem við tryggjum gæði og öryggi  heilbrigðisþjónustunnar og komum í veg fyrir að hér verði til tvöfalt heilbrigðiskerfi með tilheyrandi skaða fyrir íslenskt samfélag.

Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 8. maí 2019.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta