Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. júlí 2019 HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Samkomulag um sjúkrabíla í höfn

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Í gær staðfesti ég samkomulag Sjúkratrygginga Íslands og Rauða krossins á Íslandi um framlengingu á samningi um kaup og rekstur sjúkrabifreiða til ársins 2022. Samkvæmt því mun Rauði krossinn áfram annast rekstur sjúkrabíla, viðhald og innkaup gegn árlegu fjárframlagi af hálfu ríkisins. Fyrirliggjandi samningur rann út í lok árs 2015 og hefur endurnýjun sjúkrabílaflotans tafist frá þeim tíma. Nú þegar samkomulag er í höfn verður tafarlaust ráðist í kaup á 25 nýjum sjúkrabifreiðum samkvæmt útboði sem nú stendur yfir og vænta má þess að fyrstu bílarnir verði teknir í notkun á árinu 2020. Jafnframt er gert ráð fyrir að stærsti hluti bílaflotans verði endurnýjaður á samningstímanum.

Það er ánægjulegt að löngum viðræðum heilbrigðisyfirvalda við Rauða krossinn á Íslandi sé lokið á farsælan hátt. Af hálfu ríkisins hefur verið lögð áhersla á að tryggja snurðulausan rekstur og ábyrga meðferð fjármuna til lengri tíma. Öllum ágreiningi hefur verið ýtt til hliðar og hagsmunir almennings og heilbrigðiskerfisins settir í forgang. Með samkomulaginu eru sjúkraflutningafólki og skjólstæðingum þess tryggðar eins öruggar og góðar aðstæður og hægt er með fyrirhugaðri endurnýjun bílaflotans. Rauði krossinn hefur sinnt sjúkraflutningum af fagmennsku og alúð í heila öld og það er mikils virði að samkomulag um áframhaldandi samstarf hafi verið tryggt.

Málefni sjúkraflutninga eru eitt af áherslumálum mínum á þessu ári og því næsta. Að sjúkraflutningum og utanspítalaþjónustu sem þeim tengjast koma fjölmargir aðilar. Mikilvægt er að samhæfa þá vinnu betur og móta heildarstefnu í málaflokknum þar sem hlutverk og ábyrgð hvers og eins viðbragðsaðila er skýrt, menntunarkröfur eru samhæfðar auk fleiri þátta sem tryggja öryggi og gæði í málaflokknum. Undirbúningur slíkrar stefnumótunar er nú hafinn innan ráðuneytisins og hefur þegar verið leitað til fjölmargra aðila um að tilnefna fulltrúa í starfshóp sem ætlað er að vinna drög að stefnu fyrir starfshóp sem ætlað er að vinna drög að stefnu fyrir málaflokkinn. Öruggir sjúkraflutningar eru mikilvægur liður í að tryggja markmið um jafnt aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustunni. Það er löngu tímabært að hefja heildarstefnumótun í þessum mikilvæga hluta heilbrigðiskerfisins. Markmiðið er að auka enn frekar öryggi og gæði heilbrigðisþjónustunnar og ekki síst að bæta aðgengi landsmanna að þjónustunni, óháð búsetu. 

Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 12. júlí 2019

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta