Heilsugæsla í sókn
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:
Heilbrigðiskerfið er flókið og margþætt og þjónustuveitendur margir. Verkefni heilbrigðisyfirvalda í samstarfi við stofnanir heilbrigðiskerfisins, er að skapa heildrænt kerfi sem tryggir sjúklingum samfellda þjónustu á réttu þjónustustigi þar sem saman fara gæði, öryggi, skilvirkni og hagkvæmni. Um það fjallar ný samþykkt heilbrigðisstefna til 2030 meðal annars. Er í stefnunni fjallað um mikilvægi þess að veita rétta þjónustu á réttum stað til að tryggja bæði hagkvæmni og skilvirkni þjónustunnar. Heilsugæslunni er ætlað að vera fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu og hafa fjárveitingar til hennar verið auknar til að tryggja að hún hafi bolmagn til að takast á við aukin verkefni og stærra hlutverk innan heilbrigðiskerfisins. Meðal þess sem gert hefur verið til að efla heilsugæsluna er stofnun geðheilsuteyma um landa allt, fjölgun stöðugilda sálfræðinga, áhersla á þverfaglega teymisvinnu og aukin áhersla á forvarnir og fræðslu.
Til að leiða faglega þróun allrar heilsugæsluþjónustu í landinu var, fyrir rúmu ári síðan, stofnuð Þróunarmiðstöð heilsugæslu. Markmið nýrrar þróunarmiðstöðvar er meðal annars að jafna aðgengi landsmanna að heilsugæsluþjónustu, efla gæði þjónustunnar og stuðla að nýjungum, leiða samstarf á sviði rannsókna og stuðla að samhæfingu og því að sérhæfð þekking fagfólks heilsugæslunnar um allt land nýtist sem best.
Nú þegar Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar hefur verið starfrækt í rúmt ár hefur hún komið að fjölmörgum verkefnum og hefur verið lögð áhersla á að öll þjónusta sem miðstöðin veitir sé aðgengileg öllum heilsugæslustöðvum á landinu. Þróunarmiðstöðin hefur komið með einum eða öðrum hætti að fjölbreyttum verkefnum meðal annars á sviði ofbeldisvarna, mansals, mæðraverndar, ung- og smábarnaverndar, heilsuverndar skólabarna og eldra fólks, forvarna, hreyfiseðla, heilsuveru, fjarheilbrigðisþjónustu, og gæðavinnu ýmiskonar. Þá kemur hún að stefnumótun innan heilbrigðiskerfisins og að ýmsum tilraunaverkefnum m.a. um móttökur í heilsugæslu með áherslu á konur, verkefni sem lýtur að því að draga úr ofnotkun á sýklalyfjum og verkefni þar sem reynd verður þverfagleg nálgun við langvinnum verkjum. Þá á miðstöðin fulltrúa í vinnu við innleiðingu krabbameinsáætlunar og í verkefnisstjórn um framkvæmd tillagna skimunarráðs varðandi skimun fyrir krabbameini.
Öflug heilsugæsla er mikilvægur þáttur í eflingu heilbrigðiskerfisins í heild og eitt af mikilvægustu stefnumálum mínum sem heilbrigðisráðherra og meðal meginmarkmiða ríkisstjórnarinnar.
Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 20. ágúst 2019