Geðheilsuteymi fanga sett á fót
Í liðinni viku kynnti ég áform um stofnun sérstaks geðheilsuteymis fyrir fanga. Teymið mun sinna geðheilbrigðisþjónustu við fanga í öllum fangelsum landsins en verkefnið er afrakstur metnaðarfullrar samvinnu heilbrigðis- og dómsmálaráðuneyta undanfarna mánuði. Samningur þessa efnis milli Sjúkratrygginga Íslands og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins var undirritaður á fjölmiðlafundi í fangelsinu á Hólmsheiði í síðustu viku og ásamt mér kynntu Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, og Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, hvernig unnið hefur verið að því að móta nýtt skipulag þessarar þjónustu við fanga.
Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur verið falið að sinna þjónustunni en stofnað verður sérhæft, þverfaglegt geðheilsuteymi fanga í þessu skyni sem mun starfa með og styðja við starfsemi heilsugæslunnar í fangelsum. Teymið verður hreyfanlegt og mun einnig nýta tæknilausnir á sviði fjarheilbrigðisþjónustu. Teymið verður mannað með geðlæknum, sálfræðingum og hjúkrunarfræðingum og öðrum fagstéttum á þessu sviði eftir því sem þörf krefur. Áhersla verður lögð á samstarf við aðra þjónustuveitendur og að tryggja viðeigandi eftirfylgni og stuðning félags- og heilbrigðisþjónustu eftir að afplánun lýkur.
Síðastliðið vor gerði úttekt í fangelsum hér á landi nefnd Evrópuráðsins (CPT-nefndin) um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Bráðabirgðaniðurstöður nefndarinnar bárust dóms- og heilbrigðismálaráðuneytum í sumar og komu þar m.a. fram athugasemdir varðandi fyrirkomulag geðheilbrigðisþjónustu við fanga. Meðal þess sem nefndin leggur áherslu á er að geðheilbrigðisþjónusta innan fangelsa eigi að vera sambærileg þeirri þjónustu sem aðrir landsmenn njóta eftir því sem mögulegt er, að teknu tilliti til sérþarfa fanga.
Ákvörðun um að byggja geðheilbrigðisþjónustu fanga upp í sérstöku geðheilsuteymi fanga sem hluta af opinbera heilbrigðiskerfinu og á vettvangi heilsugæslunnar samræmist ábendingum CPT-nefndarinnar. Ákvörðunin er jafnframt mikilvægur liður í því að tryggja föngum einstaklingsmiðaða og samhæfða þjónustu með skilvirkum boðleiðum milli þjónustustiga eftir því hvort um er að ræða fyrsta, annars, eða þriðja stigs heilbrigðisþjónustu, líkt og nánar er skilgreint í heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Í þessu skyni voru framlög til heilbrigðisþjónustu við fanga aukin umtalsvert á þessu ári. Alls voru 55 milljónir króna sérstaklega ætlaðar í geðheilbrigðisþjónustu og nú hef ég ákveðið að auka fjárveitinguna í 70 milljónir króna á næsta ári. Ég bind vonir við að með þessari nýjung komum við geðheilbrigðisþjónustu við fanga í farveg sem við getum öll verið stolt af.