Stöndum saman
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:
Nú er tæpur mánuður síðan fyrsta staðfesta tilvikið af COVID19-sjúkdómnum greindist hér á landi, en það var 28. febrúar síðastliðinn. Á þessum tíma hefur þjóðin öll þurft að bregðast við og aðlagast breyttum veruleika. Margir finna fyrir streitueinkennum og hafa áhyggjur, sem er eðlilegt á þessum sérstöku tímum. En það er líka magnað að finna samtakamáttinn í samfélaginu. Það er greinilegt að almenningur fylgist mjög vel með upplýsingum og fer eftir fyrirmælum stjórnvalda, og það er þakkarvert. Það skiptir líka miklu máli að muna hversu lánsöm við erum að eiga frábært framlínufólk hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Embætti landlæknis og sóttvarnalækni og á fleiri stöðum í heilbrigðiskerfinu sem heldur svo vel og örugglega utan um þetta stóra verkefni, og á hrós og þakkir skilið. Starfsfólk í heilbrigðiskerfinu öllu á líka stórt hrós skilið, og kennarar á öllum skólastigum fyrir að laga nám og kennslu að óvenjulegum tímum.
Samkomubann og takmörkun á skólahaldi tók gildi fyrir tæpum tveimur vikum, þann 13. mars, og markmið þeirra aðgerða er að hægja á útbreiðslu COVID-19-sjúkdómsins svo að heilbrigðisþjónustan muni eiga auðveldara með að takast á við álag í tengslum við sjúkdóminn. Fram að því höfðu viðbrögð á Íslandi beinst að fljótri greiningu, einbeittri rakningu, einangrun sýktra og sóttkví þeirra sem grunaðir eru um smit. Má telja víst að þessar ráðstafanir hafi nú þegar komið í veg fyrir fjölmörg innlend smit.
Í byrjun þessarar viku tók ég svo ákvörðun í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis um að takmarka samkomur enn frekar en áður vegna útbreiðslu COVID-19 í samfélaginu, en tillaga sóttvarnalæknis var lögð fram með hliðsjón af þróun mála hér á landi, tilmælum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og í ljósi aðgerða annarra ríkja. Viðburðir þar sem fólk kemur saman eru nú takmarkaðir við 20 manns í stað 100 áður og tryggja þarf við öll mannamót að nánd milli manna verði yfir tveimur metrum. Ýmiss konar starfsemi þar sem nálægð er mikil er nú bönnuð og einnig er búið að loka líkamsræktarstöðvum og sundlaugum. Þessar aðgerðir hafa mikil áhrif á líf okkar allra, auk starfsemi margra fyrirtækja og stofnana, og það er áskorun að laga okkur að þessum breytingunum en það er til mikils að vinna.
Stjórnvöld vinna að því hörðum höndum að bregðast við og lágmarka skaðann sem óhjákvæmilega verður af innrás veirunnar í samfélagið. En þetta er líka samfélagsverkefni, því við erum öll almannavarnir. Við þurfum öll að leggja okkar lóð á vogarskálarnar og erum að því. Ég finn fyrir því að við erum öll að gera okkar besta í aðstæðum sem ekkert okkar hefur áður reynt. Stöndum saman í því áfram. Samstaðan mun koma okkur í gegnum þetta. Gangi okkur öllum vel.
Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 26. mars 2020