Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. nóvember 2020 HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Um farsóttarþreytu

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Þegar við heyrðum fyrst af nýju afbrigði kórónaveiru um eða rétt eftir síðustu áramót, sáum við líklega fæst fyrir okkur að í nóvember 2020 hefðu aðgerðir yfirvalda til að sporna við dreifingu veirunnar enn afgerandi áhrif á okkar daglega líf.

Eftir því sem á líður heimsfaraldur upplifir almenningur sóttvarnaraðgerðir yfirvalda smám saman meira íþyngjandi og smám saman minnkar áhugi fólks á að fylgja sóttvarnarleiðbeiningum. Þessu samfélagsástandi má lýsa með einu orði; farsóttarþreyta.

Farsóttarþreyta getur einnig haft bein áhrif á líðan fólks og aðstæður, og getur til dæmis leitt til fjölþættra áhrifa á daglegt líf. Hreyfing minnkar, svefn verður óreglulegur, mataræði síðra, streita eykst og meiri hætta er á félagslegri einangrun og einmanaleika. Áhrifin geta einnig falist í auknu ofbeldi, aukinni fátækt, auknu atvinnuleysi og auknum geðheilbrigðisvanda. Þessara áhrifa farsóttarþreytunnar gætir víða hér á landi nú þegar, og Covid-19-faraldurinn er sökudólgurinn.

Vísbendingar eru um að farsóttarþreyta færist í vöxt í Evrópu. Brýnt er að bregðast við þessu ástandi og vernda jafnframt þann árangur sem náðst hefur með sóttvarnaaðgerðum, um leið og við hlúum að bæði andlegri og líkamlegri heilsu almennings.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur vakið máls á farsóttarþreytunni og skaðlegum afleiðingum hennar og lagt til að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að virkja almenning og hvetja til þátttöku í sóttvarnaaðgerðum á jákvæðan hátt. Einnig að stjórnvöld stuðli að gegnsæi í aðgerðum og sjái til þess að þær séu eins fyrirsjáanlegar og kostur er og að skiljanlegt sé hvaða röksemdir búi að baki þeim. Að mati WHO er einnig mikilvægt að fylgjast með líðan fólks á þessum fordæmalausu tímum og byggja aðgerðir á gögnum.

Íslensk stjórnvöld og við í heilbrigðisráðuneytinu erum sérstaklega meðvituð um þessi óbeinu áhrif Covid-19 á geðheilsu og líðan fólks. Líkt og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur haldið fram er áreiðanleg greining á stöðunni forsenda þess að við getum brugðist við þessum vanda. Heilbrigðisráðuneytið og embætti landlæknis hafa frá upphafi faraldursins vaktað líðan almennings í nánu samráði við heilbrigðisstofnanir og notendur heilbrigðisþjónustu ekki síst þau sem búa yfir eigin reynslu af geðheilbrigðisþjónustu. Nú á dögunum voru að tillögu landlæknis auk þess settir á laggirnar tveir stýrihópar; annars vegar hópur sem vaktar óbein áhrif COVID-19 á lýðheilsu og hins vegar hópur sem vaktar óbein áhrif COVID-19 á geðheilsu.

Við þurfum að halda vöku okkar áfram og ég er viss um að vinna stýrihópanna mun nýtast vel í okkar flóknu baráttu við veiruna og bein og óbein áhrif hennar.

Grein ráðherra birtist í Morgunblaðinu 19. nóvember 2020.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta