Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. nóvember 2020 HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Ávarp ráðherra á heilbrigðisþingi 2020

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndMynd: Heilbrigðisráðuneyti

Komið þið sæl

Velkomin á heilbrigðisþing, sem að þessu sinni er haldið við mjög óvenjulegar aðstæður. Covid-19 faraldurinn gerir okkur því miður ekki kleift að hittast með venjulegum hætti. Við höfum þegar frestað þinginu einu sinni í þeirri von að aðstæður myndu lagast og þótt faraldurinn sé nú í rénun hér á landi er útséð um það að fjölmennar samkomur verði haldnar hér á landi í náinni framtíð. Fremur en að fresta þinginu um óákveðinn tíma ákvað ég því að freista þess að halda þetta þing með stafrænum hætti enda hefur öll stafræn þjónusta og fjarþjónusta tekið stórt stökk fram á við á þeim níu mánuðum sem við höfum reynt að beisla þennan faraldur. Við höfum lært margt gagnlegt á þessum mánuðum, sem við munum geta nýtt okkur til frambúðar, en faraldurinn hefur sýnt okkur mikilvægi þess að hafa sterkt opinbert heilbrigðiskerfi, sem hefur á að skipa hæfu starfsfólki, sem á þessum erfiðu tímum hefur sýnt mikla þrautseigju, fórnfýsi og sveigjanleika sem á endanum mun koma okkur í gegnum þessar fordæmalausu aðstæður.

Þetta er þriðja heilbrigðisþingið í minni ráðherratíð. Hin tvö fyrri heilbrigðisþingin hafa bæði leitt til þingsályktunartillagna sem hafa verið samþykktar á Alþingi, hið fyrsta um heilbrigðisstefnu til ársins 2030, og það síðara um siðferðileg gildi við forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu.

Um afrakstur þinganna þarf því enginn að efast eða hvort vinna okkar á þessum þingum skili sér ekki í betri heilbrigðisþjónustu til framtíðar.

Að þessu sinni ætlum við að ræða mönnun heilbrigðisþjónustunnar og menntun heilbrigðisstarfsfólks  og von mín stendur til þess að við getum aftur lagt fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um það hvernig við viljum standa að þessum málum í framtíðinni með skipulögðum hætti.

Heilbrigðisstefna til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi í júní 2019. Allt frá því hef ég og ráðuneyti mitt kappkostað að koma heilbrigðisstefnu til framkvæmda í samræmi við 5 ára áætlun sem lögð hefur verið fram á Alþingi, seinast í júní sl. Lögð hefur verið áhersla á að endurskoða löggjöf um heilbrigðisþjónustu og aðlaga hana að heilbrigðisstefnu og ný heilbrigðislög voru samþykkt á Alþingi í byrjun sumars. Reglugerð sem unnið hefur verið að í framhaldinu var birt fyrir tíu dögum. Þar er fjallað um hlutverk heilbrigðisstofnana og stjórnenda þeirra á mun skýrari hátt en áður hefur verið. Hlutverk Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri eru skilgreind sérstakleg og skýrt kveðið á um ábyrgð þeirra, m.a. hvað varðar að jafna aðgengi landsmanna að þjónustu sérgreinalækna í landinu í samvinnu við heilbrigðisstofnanir landsins, hvort sem það er með reglubundnum heimsóknum út á land eða í fjarheilbrigðisþjónustu.

Eftir sem áður hefur verið lögð áhersla á hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustað inn í heilbrigðiskerfið og hefur verið ánægjulegt að sjá hvernig afköst heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu hafa aukist og er biðtími þar í flestum tilfellum ásættanlegur. Verulega aukin notkun stafrænna lausna svo sem Heilsuveru hefur haft mikil áhrif á þjónustu heilsugæslunnar og auðveldað aðgengi notenda að þjónustu.

Þá hefur það verið kappsmál að styrkja geðheilbrigðisþjónustuna, sérstaklega á fyrsta og öðru stigi þjónustunnar með fjölgun sálfræðinga á heilsugæslustöðvum og nú geðheilsuteymum um allt land. Ég nefni hér einnig geðheilsuteymi sem starfa á landsvísu en það eru geðheilsuteymi fanga sem tók til starfa í lok síðasta árs, geðheilsuteymi í fjölskylduvernd og sérstakt teymi fyrir fólk með tvígreindan vanda s.s. þroskaraskanir og geðheilsuvanda sem er verið að stofna undir hatti Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Á síðustu misserum hefur verið gert átak í fjölgun hjúkrunarrýma, heimahjúkrun hefur verið efld og aukin ásamt fleiri stuðningsúrræðum sem auka möguleika fólks til að búa heima þrátt fyrir veikindi og skerta getu. Þetta skiptir miklu máli og dregur úr innlögnum og langri legu fólks á sjúkrahúsum sem betur má sinna í öðrum úrræðum.

Allar þessar breytingar á heilbrigðisþjónustunni og sá árangur sem við náum á degi hverjum í þeirri mikilvægu þjónustu, byggir á því starfsfólki sem þjónustuna veitir, menntun þeirra og að „réttur starfsmaður sé á réttum stað“.

Einn af sjö köflum heilbrigðisstefnunnar fjallar einmitt um mönnun heilbrigðisþjónustunnar. Meginmarkmið þess kafla er að mönnun heilbrigðisþjónustunnar skuli vera sambærileg því sem best gerist erlendis, samræmast umfangi starfseminnar og tryggja gæði og öryggi hennar. Jafnframt að mannaflaþörf heilbrigðiskerfisins hafi verið greind og viðeigandi ráðstafanir gerðar af hálfu ríkisvaldsins til að tryggja mönnun heilbrigðisþjónustunnar.

Til að vinna að þessum markmiðum ákvað ég í byrjun þessa árs að láta fara fram úttekt á mönnun og framleiðni heilbrigðisþjónustunnar hér á landi og finna raunhæft viðmið til samanburðar erlendis. Úttektin hér á landi náði til stærstu þjónustuveitendanna, þ.e. Landspítala, Sjúkrahússins á Akureyri og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Verkefnahópar voru skipaðir í hverri stofnun og hafa þeir unnið umfangsmikið starf við að fá fram nauðsynleg gögn yfir heilbrigðisþjónustuna hér á landi. Ráðgjafafyrirtækið McKinsey var fengið til að aðstoða verkefnahópana við að fá fram gögn hér á landi og velja samanburðarstofnanir erlendis. Fyrir valinu varð heilbrigðisþjónustan á Skáni í Suður-Svíþjóð.

McKinsey hefur nú skilað skýrslu þar sem farið er yfir samanburð á mönnun og framleiðni áðurnefndra stofnana hér á landi við sambærilegar stofnanir á Skáni.

Í skýrslunni eru dregin fram fjölmörg tækifæri til úrbóta sem mikilvægt er að við skoðum með jákvæðu hugarfari og nýtum þær til gagns. Þessi skýrsla er til þess að styðja okkur í að efla enn og styrkja heilbrigðiskerfið okkar til framtíðar.

Auk þessa umfangsmikla starfs hafa starfshópar á árinu unnið mikið starf og skilað skýrslum um sérmenntun lækna, mönnun hjúkrunarfræðinga og mönnun og menntun sjúkraliða. Allt þetta er efniviður sem ég bind miklar vonir við og tel mikilvægt að við ræðum á þessu heilbrigðisþingi. Þess ber þó að geta að námsstöðum hjúkrunarfræðinga hefur þegar verið fjölgað umtalsvert og ásókn í hjúkrunarfræðinám fer vaxandi. Einnig er unnið að því að efla nám sjúkraliða og fjölga í stéttinni. Mikilvægt er að halda áfram á þessari braut, en þetta eitt dugir ekki til. Skoða þarf fleiri leiðir sem styrkja sjúkrahússþjónustuna og eins og bent er á í skýrslu McKinsey er endurskoðun mönnunar og breytt fjármögnun þjónustunnar mikilvægur liður í þeirri viðleitni.

Öllum er ljóst að mönnun íslenska heilbrigðiskerfisins til framtíðar er mikil áskorun. Við erum þar í sömu stöðu og nágrannalönd okkar og raunar flest lönd í Evrópu.

Stjórnendum heilbrigðisstofnana, yfirstjórn heilbrigðismála og fjárveitingarvaldinu ber að vinna saman að því að tryggja sem besta framleiðni heilbrigðiskerfisins með skynsamlegri nýtingu fjármuna og skipulagi sem styður við þau markmið, hvort sem horft er til mönnunar eða nýtingar á þeim aðföngum sem úr er að spila hverju sinni. Að sjálfsögðu þurfum við jafnframt að tryggja öryggi og gæði þjónustunnar, enda markmið okkar að íslensk heilbrigðisþjónusta standist samanburð við það sem best þekkist. Við höfum allar forsendur til þess að ná því markmiði með því að sameina þá miklu krafta sem í heilbrigðiskerfinu og samfélaginu búa.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta