Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

06. febrúar 2021 HeilbrigðisráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Heilsa út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Í nýrri úttekt um heilsu út frá jafnréttis- og kynjasjónarmiðum kemur fram að konur virðast búa við lakara heilsufar og verri lífsgæði en karlar og að ástæður þess megi rekja að hluta til félagslegrar og efnahagslegrar stöðu þeirra í samfélaginu. Í úttektinni eru gerðar ýmsar tillögur til úrbóta þar sem áhersla er lögð á að auka heilsufarslegan jöfnuð og stuðla að jöfnu aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu.

Í fyrra fól ég Finnborgu S. Steinþórsdóttur, doktor í kynjafræði, að vinna fyrir heilbrigðisráðuneytið úttekt þar sem heilsufar kynjanna er kortlagt úr frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum og lagt mat á það hvort heilbrigðisþjónustan mæti ólíkum þörfum kynjanna. Að mínu mati var bæði tímabært og mikilvægt að leggjast í slíka vinnu, og það er fagnaðarefni að úttektin liggur nú fyrir. Rúm 20 ár eru frá útgáfu skýrslu um heilsufar kvenna sem nefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra árin 1995 til 2000 vann. Í þeirri skýrslu var fjallað um heilsufar kvenna í alþjóðlegu samhengi og stöðu heilsufars kvenna hér á landi.

Úttekt Finnborgar byggir á fyrirliggjandi gögnum frá ýmsum stofnunum og starfsemi, rannsóknum og skýrslum sem varpa ljósi á heilsu og heilbrigðisþjónustu hér á landi. Fram kemur fram að samspil launaðrar og ólaunaðrar vinnu hefur mikil áhrif á lífsgæði og heilsu kvenna. Bent er á mikla atvinnuþátttöku hér á landi. Árið 2019 voru um 85% kvenna og 92% karla á aldrinum 25–64 ára virk á vinnumarkaði en mun hærra hlutfall kvenna (30%) er í hlutastarfi en karlar (7%). Konur verja mun meiri tíma en karlar í ólaunaða vinnu sem tengist heimilishald og umönnun. Bent er á að umönnunarábyrgð sé mikil á Íslandi, sérstaklega meðal kvenna. Í samanburði við önnur Evrópulönd er Ísland með hæst hlutfall fólks sem veitir veikum, fötluðum eða öldruðu skyldfólki reglulega umönnun. Fæðingarorlofstaka foreldra er ein birtingarmynd kynjaðrar umönnunarábyrgðar, en konur nýta frekar sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs og eru líklegri til að vera frá vinnumarkaði til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og dagvistunar.

Fyrir liggur að fjárhagsleg staða fólks hefur aðgengi að heilbrigðisþjónustu og þá sérstaklega kvenna. Aðrir samverkandi þættir, s.s. menntun, stétt og uppruni, hafa margfeldisáhrif á félagslega og efnahagslega stöðu fólks og vísbendingar eru um að jaðarsettir hópar búi við lakari heilsu og verra aðgengi að heilbrigðisþjónustu hér á landi.

Kynjaðir áhrifaþættir hafa áhrif á heilsu og líðan kynjanna, og úttekt Finnborgar veitir okkur dýrmæta þekkingu um það málefni. Með því að taka markviss skref í þá átt að stuðla að úrbótum á þessu sviði bætum við heilsu og líðan, og síðast en ekki síst, aukum við jafnrétti kynjanna.

Grein ráðherra birtist í Morgunblaðinu á laugardaginn, 6. febrúar

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta