Hraðari afhending bóluefna
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:
Staðan á Covid-19-faraldrinum er góð hérlendis í alþjóðlegum samanburði. Ísland er í grænum flokki samkvæmt litakóðunarkerfi á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu en land fær grænan lit ef nýgengi smita síðustu fjórtán daga á hverja 100 þúsund íbúa er undir 25 og hlutfall jákvæðra sýna undir 4%. Í gær, 15. febrúar, var sú tala raunar bara 2,2 hérlendis. Alls hafa átta smit greinst frá 1. febrúar innanlands og einungis eitt þeirra utan sóttkvíar en það var 1. febrúar. Það smit er jafnframt það eina utan sóttkvíar sem greinst hefur innanlands frá 20. janúar sl. Álag á Landspítala vegna Covid-19 hefur minnkað verulega undanfarið.
Við stöndum því vel og af þeim sökum gátum við slakað aðeins á samkomutakmörkunum þann 8. febrúar síðastliðinn. Bólusetning gegn Covid-19 er hafin hérlendis og gengur vel. Í könnun á viðhorfi almennings til bólusetningar við Covid-19 sem embætti landlæknis lét gera í lok janúar 2021 kom fram að Íslendingar eru almennt jákvæðir gagnvart bólusetningum. Rétt tæplega 90% svarenda í könnuninni töldu alveg öruggt að þau myndu láta bólusetja sig, og að 92,5% teldu bóluefnin vera mjög eða frekar örugg.
Ísland hefur samið við fimm lyfjaframleiðendur um bóluefni gegn Covid-19, bóluefni þriggja þeirra, Pfizer, AstraZeneca og Moderna, eru komin með markaðsleyfi og bólusetning með þeim hafin hér á landi.
Gera má ráð fyrir að hægt verði að bólusetja tæplega 190.000 einstaklinga hér á landi fyrir lok júní næstkomandi með bóluefnum Pfizer, AstraZeneca og Moderna. Þetta er mun meira en áður var vænst. Mestu munar annars vegar um nýjan samning Evrópusambandsins við Pfizer sem tryggir Íslandi bóluefni fyrir 25.000 til 30.000 manns strax á öðrum ársfjórðungi, til viðbótar fyrri samningum og hins vegar aukna framleiðslugetu AstraZeneca sem leiðir til mun hraðari afhendingar bóluefna en áður. Alls verður rúmlega 280.000 einstaklingum boðin bólusetning hér á landi, þ.e. öllum sem eru 16 ára og eldri. Gert er ráð fyrir að Ísland undirriti samning um aukinn fjölda bóluefna frá Pfizer á grundvelli nýs samnings Evrópusambandsins fyrir lok þessarar viku.
Einnig má nefna að gert er ráð fyrir að Evrópska lyfjastofnunin leggi mat á bóluefni Janssen og Curevac innan skamms en mat hennar er forsenda markaðsleyfis. Áætlað er að afhending þessara bóluefna geti hafist á öðrum fjórðungi þessa árs en ekki liggja fyrir staðfestar upplýsingar frá framleiðendunum um magn.
Í ljósi stöðu faraldursins hérlendis og nýjustu frétta af bóluefnum tel ég að við getum leyft okkur að horfa björtum augum fram á veginn. Daginn tekur að lengja og með hverjum deginum birtir líka til í glímunni við faraldurinn. Við skulum njóta þess með hækkandi sól.
Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 16. febrúar 2021