Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

07. október 2022 HeilbrigðisráðuneytiðWillum Þór

Geðheilbrigði: Orð eru til alls fyrst

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra - myndStjórnarráðið

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra skrifar:

Á örfáum áratugum hefur samfélagið borið gæfu til þess að lyfta geðheilbrigðismálum ofar og ofar í forgangsröðuninni. Þar er enginn hópur undanskilinn; allt frá börnum til eldri borgara og allt litrófið þar á milli. Ríkisstjórnin hefur skilgreint geðheilbrigði í víðum skilningi sem eitt af sínum forgangsmálum og þingsályktun um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi þann 15. júní með öllum greiddum atkvæðum.

Leikáætlun er nauðsynleg

En hvaða þýðingu hefur geðheilbrigðisstefna til ársins 2030? Stefnan tekur mið af ályktunum Alþingis um heilbrigðisstefnu og lýðheilsustefnu og er í henni lögð áhersla á grunngildi sem hvetja til einstaklingsmiðaðrar heilbrigðisþjónustu og stuðning við heilsueflingu á öllum æviskeiðum. Eins og segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þá eru það sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar, efnahagslegir og félagslegir, að lögð sé aukin áhersla á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðismál. Þannig getum við horft á heilbrigði þjóðarinnar í víðu samhengi.

Heilbrigðiskerfið er komið með leiðarvísi og skýrt umboð Alþingis til að setja geðheilbrigði á oddinn. Verkefnið er krefjandi og áskoranirnar margar en með réttar áherslur og forgangsröðun færumst við áfram veginn og treystum hag geðheilbrigðisþjónustu um land allt.

Til að hrinda stefnunni í framkvæmd verða gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn í samráði við helstu hagsmunaaðila.

Fjórþætt nálgun

Fyrsti áhersluþátturinn lýtur að geðrækt, forvörnum og mikilvægi heildrænnar heilsueflingar sem beinist að grundvallarþáttum vellíðunar og áhrifaþáttum geðheilbrigðis með áherslu á mikilvægi þess að hlúa að geðheilsunni alla ævi.

Annar áhersluþátturinn lýtur að því að heildræn geðheilbrigðisþjónusta verði samþætt og byggist á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð og endurhæfingu. Geðheilbrigðisþjónustan verði veitt af hæfu starfsfólki á viðeigandi þjónustustigum í árangursríku samstarfi milli hlutaðeigandi þjónustuveitendenda.

Þriðji áhersluþátturinn lýtur að notendasamráði og notendamiðaðri þjónustu á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu. Slíkt samtal þarf að leiða til þess að geðheilbrigðisþjónusta á Íslandi verði í vaxandi mæli notendamiðuð og áhersla sé þar með lögð á valdeflingu notenda.

Fjórði áhersluþátturinn lýtur að nýsköpun, vísindum og þróun og bættu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.

Framfarir í geðheilbrigðisþjónustu

Töluverðar framfarir hafa orðið á undanförnum árum. Sérstaklega er varðar upplýsta umræðu. Landspítali og starfsemi tengd honum hefur þar verið leiðandi og þjónusta hans er í stöðugri þróun. Þá hafa ýmis félagasamtök átt stóran þátt í uppbyggilegri, fordómalausri og lausnamiðaðri umræðu. En eins og nýleg skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu bendir réttilega á þá eru ennþá grá svæði í þjónustunni og sérstaklega þegar farið er út fyrir veggi þjóðarsjúkrahússins, út í samfélagið og út á landsbyggðina.

Undanfarið hafa verið byggð upp þverfagleg geðheilsuteymi heilsugæslunnar víða um landið sem veita aukna geðþjónustu í samfélaginu. Einnig hafa verið stofnuð sérhæfðari geðteymi á borð við geðheilsuteymi fangelsa og geðheilsuteymi fjölskylduvernd. En það þarf að halda áfram að efla geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu og eyða kerfisbundið út gráu svæðunum.

Áherslan á aukna samfellu þjónustunnar og samvinnu milli þjónustustiga og úrræða innan heilbrigðiskerfisins og annarrar velferðarþjónustu. Þá þarf sérstaklega að huga að því að tryggja fullnægjandi mönnun í samræmi við þjónustuþörf á hverju þjónustustigi. Að lokum þarf að tryggja aukið samtal og samræmt upplýsingaflæði á viðeigandi hátt milli mismunandi þjónustuaðila. Kallar það á vinnu þvert á ráðuneyti og stofnanir.

Orð eru til alls fyrst

Opin og fordómalaus umræða um geðheilbrigðismál hefur komið okkur sem samfélagi á betri stað. Umræðan þroskast og þekking eykst. Stefnur eru skrifaðar og síðan er komið að aðgerðum. Við þekkjum öll að þegar lagt er af stað í vegferð umbóta þá fyrst koma raunverulegir brestir kerfisins í ljós. Aðgerðaráætlunin til 2030 mun því leggja áherslu á að ryðja markvisst úr vegi þeim hindrunum sem standa í vegi fyrir framförum í málaflokknum og styðja við umbætur, samvinnu og jafnræði.

Grein heilbrigðisráðherra birtist á visir.is 7. október 2022. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta