Hoppa yfir valmynd

Ávarp ráðherra

Willum Þór Þórsson - heilbrigðisráðherraVið Íslendingar njótum þess að búa við sterkt heilbrigðiskerfi sem byggt er á miklum mannauði og fagþekkingu. Kerfið okkar er í stöðugri þróun, en grundvöllur þess er öflugur hópur heilbrigðisstarfsfólks víðsvegar í kerfinu sem vinnur hörðum höndum að því að veita landsmönnum þjónustu af hæstu gæðum. Í ársskýrslu OECD fyrir 2023 um stöðu heilbrigðismála í Evrópuríkjunum kemur fram að Ísland sé meðal fremstu þjóða þegar litið er til fjölmargra mælikvarða á gæði, aðgengi og skilvirkni heilbrigðiskerfisins.

Staða okkar í slíkum samanburði er góð en við viljum gera enn betur til að tryggja öllum landsmönnum jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu af hæstu gæðum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að áhersla er lögð á jafnan aðgang allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu, þjónustuna skuli veita innan skilgreinds biðtíma og að greiðsluþátttaka almennings sé hófleg þannig að allir fái notið hennar óháð efnahag. Þetta er jafnframt leiðarstef íslenskrar heilbrigðisstefnu til ársins 2030.

Jafnt aðgengi óháð efnahag hefur verið rauði þráðurinn í því umbótastarfi sem átt hefur sér stað í heilbrigðismálum á kjörtímabilinu. Sú stefna endurspeglast í bæði forgangsröðun ríkisstjórnarinnar á fjármunum og raunverulegum aðgerðum sem snúa að því að tryggja jafnt og tímanlegt aðgengi að öflugri heilbrigðisþjónustu í takt við þörf samfélagsins. 

Á árinu 2023 náðust mikilvægir áfangar á þeirri vegferð stjórnvalda að jafna og auka aðgengi að öflugri heilbrigðisþjónustu og draga úr greiðsluþátttöku almennings. Ber þar helst að nefna langtímasamning um þjónustu sérgreinalækna sem batt enda á það óhagræði sem fylgdi langvarandi samningsleysi um þjónustuna. Nýr samningur um tannlæknaþjónustu við börn og lífeyrisþega markaði einnig tímamót og sömuleiðis fyrsti samningurinn sem gerður hefur verið um tannréttingar. Samningurinn lagði grunninn að umtalsverðri lækkun greiðsluþátttöku er styrkir til tannréttinga voru þrefaldaðir. Á árinu 2024 náðist svo enn einn áfanginn er samningur um þjónustu sjúkraþjálfara var undirritaður.

Undanfarna áratugi hefur orðið mikil aukning í liðskiptiaðgerðum á heimsvísu, tæplega 2000 manns voru á biðlista eftir að komast í aðgerð en uppsöfnuð þörf jókst í heimsfaraldrinum. Með markvissum aðgerðum s.s. innleiðingu þjónustutengdrar fjármögnunar á stóru sjúkrahúsunum samhliða samningum við aðra þjónustuveitendur um liðskiptaaðgerðir hefur staðan gjörbreyst til hins betra. Aldrei hafa verið gerðar fleiri liðskiptaaðgerðir en árið 2023, biðtíminn styttist til muna og um helmingi færri leituðu eftir þessari þjónustu út fyrir landsteinana frá fyrra ári. Hér er um að ræða risastórt lýðheilsumál og sama má segja um fleiri aðgerðir, s.s. kvenaðgerðir eins og vegna endómetríósu. Aðgerðir sem hægt er að gera utan sjúkrahúsa af fyllsta öryggi og gæðum veitir sjúkrahúsunum aukið svigrúm til að einbeita sér að sérhæfðari þjónustu sem aðeins er á þeirra færi að veita.

Landspítalinn er þungamiðja íslenskrar heilbrigðisþjónustu og gegnir fjölbreyttu og veigamiklu hlutverki innan kerfisins í heild sem háskólasjúkrahús landsins. Árið 2023 var árangursríkt í starfsemi Landspítala sem er í stöðugri þróun og vexti. Spítalinn hefur farið í gegnum umfangsmiklar skipulagsbreytingar í samvinnu og samráði við stjórn og fagráð spítalans til að ná fram mikilvægum umbótum á þjónustu og skilvirkni í þjónustu og rekstri. Í ljósi þeirra umbóta sem átt hefur sér stað á Landspítala þá er afar ánægjulegt að sjá að þessar breytingar og aðgerðir eru að bera raunverulegan árangur sem endurspeglast í starfsemistölum spítalans fyrir árið 2023. Afköst spítalans jukust umtalsvert á flestöllum sviðum, bið eftir þjónustu styttist og var rekstur spítalans í góðu jafnvægi og skilaði hagstæðri rekstrarafkomu.

Heilbrigðiskerfið er viðamikið og spannar breitt svið, enda snýst það um að standa vörð um heilbrigði landsmanna með markvissum forvörnum og lýðheilsuaðgerðum ásamt því að veita fólki örugga og góða heilbrigðisþjónustu allt frá fæðingu til æviloka. Allt gerir þetta miklar kröfur um skýra sýn og stefnu á fjölmörgum sviðum. Traustir innviðir eru forsenda þess að kerfið virki en drifkraftur alls er mannauðurinn sem starfar í heilbrigðiskerfinu, hvort sem er við veitingu þjónustu eða í þeim mikilvægu stofnunum sem hafa það hlutverk að tryggja öryggi og gæði þjónustunnar, umfang hennar, ráðstöfun fjármuna og forgangsröðun. Verkefni heilbrigðisráðuneytisins frá degi til dags og frá ári til árs litast af þessu. Jöfnum höndum er unnið að verkefnum sem varða alla þá þætti sem að framan eru taldir í samvinnu við stofnanir ráðuneytisins og fjölmarga aðra sem að málum koma, auk víðtæks samráðs við mismunandi haghafa eftir málefnasviðum. Í kafla ársskýrslunnar um starfsemi ráðuneytisins eru rakin í grófum dráttum mörg mikilvæg verkefni á fjölmörgum málefnasviðum ráðuneytisins sem unnið var að á árinu.

Árið 2023 var lögð áhersla á ýmis verkefni sem eru til þess fallin að skjóta styrkari stoðum undir mönnun heilbrigðiskerfisins til framtíðar. Miklu skiptir að skapa heilbrigðisstarfsfólki góð starfsskilyrði, fjölga námsstöðum í greinum þar sem skortir fólk og stuðla að því að starfskraftar allra heilbrigðisstétta fái notið sín sem best í samræmi við menntun, þekkingu og reynslu. Það voru ánægjuleg og mikilvæg tímamót fyrir íslenska heilbrigðiskerfið þegar frumvarp um hlutlæga refsiábyrgð var samþykkt samhljóða á Alþingi rétt fyrir jól 2023. Með þeirri lagabreytingu erum við að innleiða hlutlæga refsiábyrgð heilbrigðisstofnana í þeim tilgangi að auka öryggi sjúklinga, að efla öryggismenningu innan heilbrigðiskerfisins, stuðla að umbótum og fækka alvarlegum atvikum. Einnig er tilgangurinn að bæta starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks með því að skýra og auka réttaröryggi framlínufólks heilbrigðiskerfisins.

Uppbygging nýs Landspítala við Hringbraut er einhver umfangsmesta innviðauppbygging Íslandssögunnar og er mikilvægur liður í stefnu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum. Verkefninu miðar vel áfram og í samræmi við áætlanir. Undirbúningur að fleiri stórum framkvæmdum er langt kominn. Fyrsta skóflustunga að nýbyggingu endurhæfingardeildar Landspítala við Grensás var tekin á árinu og framkvæmdir eru hafnar. Nú hillir einnig undir að langþráður draumur um stækkun Sjúkrahússins á Akureyri með nýrri legudeildarbyggingu rætist en skrifað var undir hönnun byggingarinnar í júní 2024.

Tækniframfarir og framþróun á heilbrigðisvísindasviði er hröð og skapar ýmis tækifæri til umbóta í þjónustu. Þær framfarir hafa gert okkur kleift að lækna fjölmarga sjúkdóma, halda öðrum í skefjum og fyrirbyggja suma. Í þeim tilgangi að draga fram þau tækifæri sem fram undan eru og felast í starfrænni þróun og hagnýtingu gagna til framtíðar var Heilbrigðisþing ársins 2023 tileinkað gagnadrifinni framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins. Þingið var afar áhugavert og endurspeglaði dagskrá þess víðfeðmt umfang málefnisins.

Við búum við einstakt tækifæri til að vera leiðandi á heimsvísu í framþróun á einstaklingsmiðaðri heilbrigðisþjónustu sem byggir á skilningi okkar á því hvað veldur mannlegri fjölbreytni og hagnýtingu gagna. Í kjölfar þingsins fól undirritaður starfshóp skipuðum helstu hagaðilum og sérfræðingum á sviðinu að skapa þjónustunni umgjörð sem byggir á traustum grunni og stendur vinna hópsins yfir.

Ég hef hér stiklað á stóru en árið 2023 hefur verið annasamt en gjöfult í heilbrigðisráðuneytinu. Margt hefur áunnist og við sjáum jákvæða þróun eiga sér stað víðsvegar innan heilbrigðiskerfisins. Verkefnið nú er að halda áfram á þeirri vegferð að jafna og auka aðgengi almennings að hagkvæmri og skilvirkri heilbrigðisþjónustu, sem uppfyllir kröfur okkar um gæði og öryggi.  Áframhaldandi fjárfesting, umbætur og styrking innviða heilbrigðiskerfisins birtast okkur í samþykktri fjármálaáætlun til næstu fimm ára og undirstrikar þá áherslu stjórnvalda um að standa áfram vörð um heilbrigðiskerfið.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum