Hoppa yfir valmynd

Starfsemi ráðuneytisins á árinu 2023

Skipulag og hlutverk

Verkefni heilbrigðisráðuneytisins varða heilbrigðisþjónustu, lyfjamál, lýðheilsu og forvarnir, sjúkratryggingar almannatrygginga, lífvísindi og lífsiðfræði, líkt og nánar er tilgreint í forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Innra skipulag

Árið 2023 var unnið að breytingum á skipuriti ráðuneytisins og tók nýtt skipurit gildi 1. janúar 2024. Fyrir gildistöku þess voru skrifstofur ráðuneytisins fjórar, þ.e. skrifstofa heilsueflingar og vísinda, skrifstofa sjúkrahúsa og sérþjónustu, skrifstofa fjármála og innri þjónustu og skrifstofa innviða heilbrigðisþjónustu. Með þeim skipulagsbreytingum sem unnið var að á árinu var skrifstofum fækkað um eina og töluverðar breytingar gerðar á verkaskiptingu og heitum skrifstofa með það að markmiði að auka yfirsýn, stuðla að aukinni samþættingu skyldra verkefna og styrkja stjórnsýslu ráðuneytisins. Ein veigamikilla breytinga fólst í því að sameina á einni skrifstofu öll fagleg málefni sem varða fyrsta, annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu. Skrifstofur samkvæmt nýju skipuriti eru fjórar; tvær fagskrifstofur, þ.e. skrifstofa heilbrigðisþjónustu og skrifstofa lýðheilsu og vísinda og tvær stoðskrifstofur, þ.e. skrifstofa stjórnsýslu og skrifstofa fjármála. Innan ráðuneytisins starfa jafnframt tíu fagteymi þvert á skrifstofur um tiltekna málaflokka. Þetta eru fagteymi geðheilbrigðismála, fagteymi mönnunar heilbrigðisþjónustunnar, fagteymi lyfjamála, fagteymi stafrænnar þróunar, fagteymi þjónustu við aldraða og langveika, fagteymi sjúkraflutninga, fagteymi um gæðamál í heilbrigðisþjónustu, fagteymi um endurhæfingu, fagteymi samninga og starfsleyfa og fagteymi tannheilsu.

Í árslok 2023 voru starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins 60 í 57,5 stöðugildum. Kynjahlutfallið var þannig að 77% starfsfólksins voru konur, eða 46 talsins og 23% karlar, eða 14 talsins. Meðalaldur starfsfólks var 50 ár.

Mannauðsstefna Stjórnarráðsins er leiðarljós ráðuneytisins í mannauðsmálum, með áherslu á að ráðuneytið sé eftirsóknarverður vinnustaður sem býður upp á tækifæri fyrir starfsfólk til að eflast og þróast í starfi. Ráðuneytið er með jafnlaunavottun og starfar í samræmi við jafnlaunastefnu Stjórnarráðsins sem er hluti af jafnréttisáætlun þess.

Stofnanir ráðuneytisins

Undir heilbrigðisráðuneytið heyra 15 stofnanir. Af þeim eru níu heilbrigðisstofnanir sem veita heilsugæslu- og sjúkrahússþjónustu í öllum sjö heilbrigðisumdæmum landsins, þar með eru taldar Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítali. Heyrnar- og talmeinastöð Íslands veitir sérhæfða þjónustu á sínu sviði. Aðrar stofnanir ráðuneytisins eru embætti landlæknis, Lyfjastofnun, Sjúkratryggingar Íslands, Geislavarnir ríkisins og Vísindasiðanefnd.

Málefnasvið og málaflokkar

Lög um opinber fjármál mæla fyrir um skiptingu fjárlaga í málefnasvið og málaflokka sem eru á ábyrgð ráðuneyta. Málefnasviðin eru samtals 35 og málaflokkarnir yfir 100. Fimm málefnasvið eru á ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins og undir þau heyra 13 málaflokkar. Að auki ber ráðuneytið ábyrgð á málaflokknum 2960 bætur vegna veikinda og slysa. Sá málaflokkur heyrir undir málefnasvið 29 Fjölskyldumál* sem er á ábyrgð félagsmálaráðuneytisins.

23 Sjúkrahúsþjónusta

2310 - Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta

2320 - Almenn sjúkrahúsþjónusta

2330 - Erlend sjúkrahúsþjónusta

24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa 

2410 - Heilsugæsla

2420 - Sérfræðiþjónusta og hjúkrun

2430 - Sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun

2420 - Sjúkraflutningar

25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta

2510 - Hjúkrunar- og dvalarrými

2520 - Endurhæfingarþjónusta

26 Lyf og lækningavörur

2610 - Lyf

2630 – Hjálpartæki

29 Fjölskyldumál*

2960 – bætur vegna veikinda og slysa

32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

3210 - Lýðheilsa- forvarnir og eftirlit

3230 – Stjórnsýsla heilbrigðismála

Stiklur úr störfum ráðuneytisins 2023

Samningar um heilbrigðisþjónustu

Stórum áfanga var náð þegar samningar tókust milli Sjúkratrygginga Íslands og Læknafélags Reykjavíkur um þjónustu sérgreinalækna. Samningurinn er langtímasamningur til 5 ára. Með honum var stuðlað að umtalsverðri lækkun á greiðsluþátttöku almennings í þjónustu sérfræðilækna og mótuð styrk umgjörð um starfsemi sérfræðilækna sem stuðlar bæði að framþróun þjónustunnar og auknu aðgengi að henni.

Samningar um framkvæmd 700 liðskiptaaðgerða voru undirritaðir snemma á árinu milli Sjúkratrygginga Íslands, Klíníkurinnar í Ármúla og Handlæknastöðvarinnar í Glæsibæ. Með samningunum var áhersla lögð á að nýta betur afkastagetu heilbrigðiskerfisins sem leiðir til styttri biðtíma sjúklinga eftir þessari mikilvægu þjónustu sem veitt er með greiðsluþátttöku sjúkratrygginga.

Gerður var nýr samningur um tannlæknaþjónustu á árinu sem varðar forvarnir og tannlækningar barna til 18 ára aldurs, tannlækningar aldraðra og öryrkja og tannlækningar vegna alvarlegra meðfæddra galla, slysa eða sjúkdóma, annarra en tannréttinga. Samningurinn tók við af þremur eldri samningum um sömu þjónustu.

Það náðist einnig tímamótasamningur um tannréttingar á árinu. Þetta er fyrsti samningurinn sem gerður hefur verið um þjónustu tannréttingasérfræðinga og með honum sköpuðust m.a. forsendur til þess að auka greiðsluþátttöku ríkisins í tannréttingum.

Þríhliða samningur milli Sjúkratrygginga Íslands, VIRK starfsendurhæfingarsjóðs og Janusar endurhæfingar ehf. sem gerður var á árinu kveður á um samþætta og þverfaglega heilbrigðis- og starfsendurhæfingarþjónustu við ungt fólk á aldrinum 18 til 30 ára með flókinn og fjölþættan vanda. Samningurinn er liður í tilraunaverkefni heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumálaráðherra um aukna samþættingu endurhæfingarþjónustu í samræmi við aðgerðaáætlun geðheilbrigðismála til ársins 2027.

Í framhaldi af ákvörðun ráðherra um fjármagn til að tryggja fólki sem er heimilislaust og með flóknar þjónustuþarfir betra aðgengi að heilbrigðisþjónustu var gerður þjónustusamningur þess efnis milli Sjúkratrygginga Íslands og Heimaþjónustu Reykjavíkur sem annast þjónustuna.

Geðheilbrigðismál

Þingsályktunartillaga heilbrigðisráðherra um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til ársins 2027 var samþykkt einróma á Alþingi í lok maí. Áætlunin felur í sér 27 aðgerðir til að hrinda í framkvæmd stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 sem samþykkt var á Alþingi 15. júní 2022.

Ráðherra skipaði Geðráð í samræmi við aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til ársins 2027. Þar eiga sæti fulltrúar stjórnvalda, notenda geðheilbrigðisþjónustu, aðstandenda og fagfólks sem fjallar um málaflokkinn. Þannig er tryggð aðkoma helstu haghafa að stefnumótun, umbótum og þróun á sviði geðheilbrigðismála og geðheilbrigðisþjónustu.

Ráðist var í ýmis verkefni sem snúa að því að þróa og efla geðheilbrigðisþjónustu. Með nýju meðferðarúrræði á netinu er horft til þess að tryggja mun fleiri börnum og forráðamönnum þeirra um allt land árangursríka geðheilbrigðisþjónustu. Veitt er meðferð við kvíða og byggt á hugrænni atferlismeðferð. Háskólinn í Reykjavík og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins vinna saman að verkefninu sem heilbrigðisráðuneytið hefur styrkt með 70 milljóna króna framlagi.

Í sumarbyrjun kynnti heilbrigðisráðherra áætlun sína um aðgerðir til að sporna við vímuefnavanda með áherslu á ópíóíðafíkn. Áætlunin felur í sér uppbyggingu nýrra úrræða og aukið aðgengi að fjölbreyttri, gagnreyndi meðferð við vímuefnavanda og skaðaminnkandi úrræðum, þar með talinni gagnreyndri viðhaldsmeðferð við ópíóíðafíkn. Einn liður í áætluninni felst í því að efla frjáls félagasamtök til að vinna að verkefnum til að sporna gegn fíknisjúkdómum og afleiðingum þeirra og úthlutaði ráðherra 30 milljónum króna í styrki til sex verkefna á vegum félagasamtaka sem hafa þetta að markmiði.

Heilbrigðisráðherra kynnti í byrjun árs úthlutun rúmlega 260 milljóna króna af fjárlögum til að efla þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu og skólaheilsugæslu. Þetta er hluti fjármagns sem ákveðið var að verja til ýmissa heilsufarslegra aðgerða til að vinna gegn neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs Covid-19. Framlagið er veitt tímabundið til þriggja ára og nemur í heild 780 milljónum króna. Ákvörðun heilbrigðisráðherra um ráðstöfun fjárins er í samræmi við þingsályktun um stefnu í geðheilbrigðismálum

Mönnun og menntun heilbrigðisstarfsfólks

Heilbrigðisráðherra hratt úr vör á árinu verkefninu „framtíð læknisþjónustu á Íslandi“ sem Ólafur Baldursson framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala leiðir í samstarfi við spítalann, aðrar heilbrigðisstofnanir og hagaðila og landsráð um mönnun og menntun. Hann er einnig formaður starfshóps sem ráðherra skipaði til að kortleggja þörf fyrir læknisþjónustu og gera tillögur um mönnun, gæði og öryggi læknisþjónustu til næstu ára.

Starfshópur heilbrigðisráðherra sem falið var að fjalla um bætta mönnun og jafnara aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu skilaði niðurstöðum sínum í júlí. Tillögur hópsins snúa einkum að því að nýta heimildir um Menntasjóð námsmanna um tímabundnar ívilnanir við endurgreiðslu námslána.

Með breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu var leidd í lög tímabundin undanþága frá almennri reglu um 70 ára starfslokaaldur sem gerir heilbrigðisstarfsfólki sem vinnur klínísk störf kleift að starfa til 75 ára aldurs á opinberum heilbrigðisstofnunum á grundvelli ráðningasamnings.

Breytingar voru gerðar á umgjörð og stjórnskipulagi sérnáms lækna, kröfur til náms skýrðar nánar sem og mat á sérnámi o.fl. með nýrri reglugerð ráðherra um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði  til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi. Einnig hefur fagleg umgjörð sérnámsins verið endurskoðuð og efld, enda öflugt sérnám lækna mikilvægur þáttur í mönnun heilbrigðiskerfisins til framtíðar.

Ráðherra skipaði í maí verkefnahóp um mönnunarviðmið í hjúkrun sem ætlað er að skila á næsta ári tillögum að slíkum viðmiðum fyrir bráðalegudeildir Sjúkrahússins á Akureyri og Landspítala. Formaður hópsins var Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir sem ráðin var tímabundið til ráðuneytisins til að sinna verkefnum sem snúa að mönnun í heilbrigðisþjónustu, gerð viðbragðsáætlana og stuðning við innleiðingu Evrópureglugerðar um heilbrigðisvár þvert á landamæri.

Heilbrigðisráðherra setti heildarreglugerð um meðferð umsókna þriðjaríkisborgara, þ.e. ríkisborgara utan Evrópska efnahagssvæðisins og Sviss sem vilja starfa hér á landi sem heilbrigðisstarfsmenn. Með reglugerðinni hafa kröfur til slíkra umsókna verið einfaldaðar og skýrða sem stuðlar að aukinni skilvirkni við meðferð þeirra.

Í apríl undirrituðu heilbrigðisráðherra og ráðherra háskóla- iðnaðar og nýsköpunar samning um styrk til uppbyggingar færni- og hermikennslu í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Háskólann í Reykjavík í samstarfi við Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir uppbyggingu hermisetra og færnibúða nauðsynlegan hluta innviðauppbyggingar í bæði heilbrigðis- og menntakerfinu: „Í takt við forgangsaðgerðir ráðuneytanna um mönnun og menntun heilbrigðisstarfsfólks mun þetta gjörbylta aðstöðu til kennslu, náms og þjálfunar á öllum stigum. Þessi samningur er mikið gleðiefni og sýnir hversu mikilvæg samvinna er, milli ráðuneyta og stofnana, til að ná fram áþreifanlegum umbótum í heilbrigðiskerfinu.”

Ráðist var í tilraunaverkefni um bólusetningar í apótekum sem lyfjafræðingar annast. Markmiðið er að bæta þjónustu við notendur, auka aðgengi að heilbrigðisþjónustu, létta álagi af heilbrigðisstofnunum og efla hlutverk lyfjafræðinga innan heilbrigðiskerfisins.

Framkvæmdir

Heildstæð áætlun um uppbyggingu innviða heilbrigðiskerfisins til ársins 2030 var kynnt af forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra í apríl. Farið var yfir stöðu Landspítalaverkefnisins og metnaðarfulla áætlun um áframhaldandi fjárfestingu í innviðum heilbrigðiskerfisins. Uppbygging Landspítala er mikilvægur liður í stefnu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum, en um er að ræða einhverja umfangsmestu innviðauppbyggingu Íslandssögunnar. Frá árinu 2010 hefur verið fjárfest í uppbyggingu Landspítala fyrir 28,7 milljarða króna, þar af fyrir 10,3 milljarða króna árið 2022. Á fundinum kom fram að áætluð fjárfesting ársins 2023 yrði 21,5 milljörðar króna. Fyrsti áfangi uppbyggingarinnar er fullfjármagnaður og vel á veg kominn.

Fyrsta skóflustunga að viðbyggingu við Grensásdeild Landspítala var tekin í október. Nýbyggingin verður um 4.400 m2 að stærð, sérsniðin fyrir þjálfunarstarfsemi Grensásdeildar og með nýja legudeild.

Viðamiklum endurbótum við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja lauk á árinu sem stórbæta aðstæður sjúklinga og starfsfólks. Slysa- og bráðamóttakan er nú í þrefalt stærra rými en áður og ný sjúkradeild hefur verið tekin í notkun. Geðheilsuteymi stofnunarinnar hefur fengið aðstöðu í stærra og betra húsnæði við Hafnargötu.

Ráðherra úthlutaði rúmum einum milljarði króna úr Framkvæmdasjóði aldraðra til 57 verkefna til margvíslegra framkvæmda og endurbóta á hjúkrunarheimilum um allt land.

Tveir samningar voru gerðir um stækkun nýrra hjúkrunarheimila sem eru á framkvæmdastigi. Nýtt hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ verður stærra en upphaflega var áformað, með aðstöðu fyrir 80 íbúa í stað 60. Sama máli gegnir um nýtt hjúkrunarheimili á Akureyri sem verður fyrir 80 íbúa í stað 60 samkvæmt upphaflegum samningi.

Ráðherra veitti Sjúkrahúsinu á Akureyri 80 milljóna króna framlag til að ljúka framkvæmdum við nýtt sjúkrahússapótek. Framlagið kom til viðbótar 120 m.kr. framlagi sem ráðherra tryggði til verksins árið 2022.

Ráðist var í úboðsferli fyrir nýja heilsugæslustöð á Akureyri. Samhliða var unnið að framkvæmdum við nýtt húsnæði heilsugæslu við verslunarmiðstöðina í Sunnuhlíð.

Lýðheilsa

Drög að fyrstu aðgerðaáætlun heilbrigðisráðherra um framkvæmd lýðheilsustefnu var birt til umsagnar í mars. Í henni er forgangsraðað til næstu fimm ára stefnumarkmiðum þingsályktunar um lýðheilsustefnu sem samþykkt var á Alþingi 2021. Í áætluninni eru skilgreindar 11 aðgerðir í þágu lýðheilsu sem unnið verður að á næstu fimm árum.

Heilbrigðisráðherra úthlutaði rúmum 86 milljónum króna í árlega lýðheilsustyrki, að þessu sinni til 150 verkefna og rannsókna þar sem áhersla er lögð á að efla geðheilsu barna og fullorðinna, efla félagsfærni og draga úr einmanaleika. Einnig voru veittir styrkir til verkefna á sviði áfengis, vímu- og tóbaksvarna og verkefni tengd næringu, hreyfingu og kynheilbrigði.

Félagasamtök hlutu 79,8 milljóna króna styrk af safnhliðum sem ráðherra úthlutar árlega til margvíslegra verkefna þeirra á sviði heilbrigðismála og í þágu tiltekinna hópa. Hæstu styrkina hlutu Alzheimersamtökin, ADHD samtökin, Bergið headspace, Gigtarfélag Íslands, Hjartaheill, Rótin félag um velferð og lífsgæði kvenna og SÍBS.

Árlegir gæða og nýsköpunarstyrkir heilbrigðisráðherra voru veittir til 18 verkefna, samtals 55 milljónir króna. Verkefnin hafa öll að markmiði að bæta þjónustu við notendur og stuðla að greiðara aðgengi með stafrænum lausnum.

Forseti Íslands veitti íslensku lýðheilsuverðlaunin í fyrsta sinn í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið, landlækni, Geðhjálp og Íþrótta og ólympíusamband Íslands.

Bólusetning barna gegn HPV veirunni, óháð kyni, hófst á árinu en áður stóð hún til boða stúlkum eingöngu. Samhliða var tekið í notkun nýtt og breiðvirkara bóluefni en áður sem veitir víðtækari vörn gegn krabbameinum af völdum veirunnar. Ávinningur af bólusetningu gegn HPV veirunni er mikill en fullur ávinningur bólusettra gegn krabbameinum kemur fram 15-20 árum eftir að reglubundin bólusetning hefst.

Ýmis þjónusta þróuð og efld

Viðbragðsteymi sem heilbrigðisráðherra skipaði um bráðaþjónustu í landinu skilaði í byrjun árs tímasettri áætlun til næstu ára um breytingar og umbætur í bráðaþjónustu um allt land með 39 tillögum um aðgerðir til skemmri og lengri tíma. Á grundvelli þeirra hefur m.a. verið ráðstafað um 330 milljónum króna til að bæta tækjabúnað vegna bráðaþjónustu á stofnunum um allt land.

Í apríl skilaði starfshópur um vegvísun og fjarráðgjöf í heilbrigðiskerfinu tillögum sínum til ráðherra um framtíðarfyrirkomulag þjónustunnar. Markmiðið er að tryggja almenningi greiðar og samræmdar upplýsingar um heilbrigðisþjónustu og vísa fólki rétta leið í heilbrigðiskerfinu í samræmi við aðstæður og þörf hlutaðeigandi fyrir þjónustu hverju sinni.

Ráðist var í kynningarátak um stóraukna og eflda þjónustu og ráðgjöf um heilsutengd málefni í síma 1700 og á netspjalli Heilsuveru. Markmiðið er að auka þjónustu við almenning með heilbrigðistengdri ráðgjöf og vegvísun í viðeigandi þjónustu.

Í maí kynnti ráðherra ákvörðun sína um ráðstöfun 300 m.kr. af fjárlögum til að efla heimahjúkrun um allt land og um aukið fjármagn inn í fjármögnunarlíkön heilsugæslu sem nemur 1,4 milljörðum króna á ársgrundvelli. Aukið fjármagn til heilsugæslu í gegnum fjármögnunarlíkan þessarar þjónustu er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Eins og þar kemur fram er áhersla lögð á að styrkja hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustað notenda í heilbrigðiskerfinu með aukinni og bættri þjónustu og þverfaglegri teymisvinnu þar sem unnið er að stöðugum umbótum.

Starfshópur sem ráðherra skipaði til að kortleggja og samræma fyrirkomulag um aðkomu heilbrigðisstarfsfólks þegar upp kemur grunur um kynferðislegt ofbeldi í garð barna skilaði niðurstöðum sínum. Lagt var til að innleiða ákveðið verklag í heilbrigðisþjónustu fyrir börn sem beitt hafa verið kynferðisofbeldi og ákvað ráðherra að láta ráðast í þá vinnu. Markmiðið er að tryggja rétt viðbrögð heilbrigðisþjónustunnar og skýra boðleiðir milli lögreglu, barnaverndar og heilbrigðiskerfisins með hag barnanna að leiðarljósi.

Auglýst var eftir samstarfi við sveitarfélög og heilbrigðisstofnanir til þátttöku í þróunarverkefnum um samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum. Þróunarverkefnin eru hluti aðgerðaáætlunarinnar Gott að eldast. Áhugi var mikill, 19 umsóknir bárust og voru sex svæði valin til þátttöku. Markmið þróunarverkefnanna er að finna góðar lausnir á samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk og flétta vandlega saman þá þætti sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin.

Heilbrigðisþing

Heilbrigðisráðherra boðar árlega til heilbrigðisþings þar sem fjallað er um mikilvæg málefni sem varða heilbrigðisþjónustu við landsmenn í nútíð og framtíð. Á þinginu að þessu sinni var sjónum beint að þeim tækifærum sem felast í nýtingu margvíslegra heilbrigðisgagna, stafrænnar þjónustu og gervigreindar. Hátt í 400 manns sóttu þingið og fjölmargir fylgdust með þinginu í beinu streymi. Fyrirlesarar komu víða að, allir vel þekktir og með yfirgripsmikla þekkingu á þeim viðfangsefnum sem voru í brennidepli á þinginu. Vegna formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni ákvað ráðherra að tileinka þingið norrænu samstarfi, enda felst margvíslegur ávinningur í auknu og áframhaldandi samstarfi Norðurlandanna þegar kemur að nýtingu heilbrigðisgagna og stafrænni þróun.

Nýtt fólk til forystu

Heilbrigðisráðherra skipaði á árinu Sigurð Helgason í embætti forstjóra Sjúkratrygginga Íslands, Sigríði Dóru Magnúsdóttur í embætti forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Elísabetu Dólindu Ólafsdóttur í embætti forstjóra Geislavarna ríkisins.

Þingstörf ráðherra

Sex frumvörp heilbrigðisráðherra voru samþykkt sem lög frá Alþingi árið 2023 og ein þingsályktun. Þetta voru frumvarp til breytinga á lögum um heilbrigðisstarfsmenn vegna tilkynninga um heimilisofbeldi, frumvarp um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um landlækni og lýðheilsu og lögum um réttindi sjúklinga varðandi refsiábyrgð heilbrigðisstofnana og rannsókn alvarlegra atvika, frumvarp til breytinga á lögum um heilbrigðisstarfsmenn sem fól í sér hækkun á hámarksaldri heilbrigðisstarfsmanna hjá hinu opinbera, frumvarp til breytinga á lögum um sjúklingatryggingu varðandi bótarétt vegna bólusetningar, frumvarp til breytinga á lögum um tóbaksvarnir varðandi innihaldsefni, umbúðir o.fl. og frumvarp um breytingu á lögum um tæknifrjóvgun varðandi geymslu og nýtingu fósturvísa og kynfrumna. Þá var einnig samþykkt á Alþingi tillaga heilbrigðisráðherra til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

Auk þeirra frumvarpa sem urðu að lögum, lagði ráðherra fram á Alþingi tvö önnur frumvörp, þ.e. frumvarp til breytinga á lyfjalögum og lögum um lækningatæki varðandi upplýsingar um birgðastöðu og frumvarp til nýrra sóttvarnalaga.

Ríkur þáttur í þingstörfum ráðherra felst í því að svara formlegum fyrirspurnum þingmanna á málefnasviðum heilbrigðisráðuneytisins. Alls svaraði heilbrigðisráðherra 108 fyrirspurnum þingmanna á árinu sem nær allar voru skriflegar. Þá eru ótaldar fyrirspurnir þingmanna til ráðherrans í óundirbúnum fyrirspurnartímum á Alþingi.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum