Hoppa yfir valmynd

Ávarp ráðherra

Willum Þór Þórsson - heilbrigðisráðherra

Öflugt og traust heilbrigðiskerfi er einn af hornsteinum velferðar hvers samfélags. Vilji stjórnvalda til að standa vörð um íslenska heilbrigðiskerfið, styrkja innviði þess og þróa það og efla til framtíðar er skýr, líkt og endurspeglast í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Árið 2022 var bæði viðburðarríkt og krefjandi í heilbrigðiskerfinu. Íslenska heilbrigðiskerfið og mannauður þess sýndi styrk sinn sem aldrei fyrr í gegnum ómíkron-bylgju heimsfaraldurs, í upphafi árs, sem reyndi á þanþolið til hins ýtrasta. Það var öllum mikill léttir þegar unnt var að aflétta öllum opinberum sóttvarnaaðgerðum hér á landi vegna heimsfaraldursins þann 25. febrúar 2022 og líf landsmanna tók að færast til eðlilegs horfs. Álag á heilbrigðiskerfið var þó áfram mikið, meðal annars vegna uppsafnaðra verkefna sem ekki var unnt að sinna á tímum faraldursins. Það sýndi sig, við krefjandi aðstæður, hve mikil tækifæri felast í stafrænum lausnum og með ólíkindum hve hratt tókst að þróa og innleiða nýjungar á því sviði í heilbrigðisþjónustunni sem við munum búa að áfram. Þetta var meðal annars til umræðu á samráðsfundi mínum með forstjórum heilbrigðisstofnana í maí. Slíkir fundir eru haldnir ársfjórðungslega og miða að því að styrkja samstarf og stilla saman strengi stofnananna og ráðuneytisins. 

Þótt við búum við sterkt og öflugt heilbrigðiskerfi verður ekki hjá því litið að við blasa margvíslegar áskoranir sem kalla á skýra sýn og að einhverju leyti nýja nálgun við úrlausn verkefna. Breytt aldurssamsetning þjóðarinnar með hækkandi hlutfalli eldra fólks er skýrt dæmi um þetta. Því er afar mikilvægt að nú liggur fyrir skýr aðgerðaáætlun um þróun þjónustu við eldra fólk til ársins 2027 sem nánar er fjallað um í þessari skýrslu. Önnur og ekki síður stór áskorun er að tryggja fullnægjandi mönnun heilbrigðiskerfisins til framtíðar. Þar duga engar einfaldar lausnir. Nálgast þarf viðfangsefnið frá mörgum hliðum, hvort sem litið er til menntunar heilbrigðisstétta, starfsaðstöðu, skipulags, skilvirkni og innleiðingar nýrra tæknilausna sem geta létt álagi af heilbrigðiskerfinu án þess að þjónusta skerðist. Ýmislegt hefur þegar áunnist í þessum efnum en viðfangsefnið er stórt og krefst stöðugrar vinnu.

Aukin áhersla á lýðheilsu og árangursríkar leiðir til að efla hana er án efa eitt stærsta tækifæri okkar til að búa í haginn fyrir heilbrigðiskerfi framtíðarinnar og bæta lífsgæði almennings. Með þetta að leiðarljósi ákvað ég að helga árlegt heilbrigðisþing lýðheilsu, þar sem forvarnir, heilsuefling, endurhæfing og heilsulæsi voru leiðarstef. Vilji stjórnvalda í þessum efnum kemur skýrt fram í stjórnarsáttmálanum þar sem undirstrikað er að það séu sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar, efnahagslegir og félagslegir, að lögð sé aukin áhersla á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðismál.

Líkt og þessi ársskýrsla dregur fram voru verkefni heilbrigðisráðuneytisins mörg og fjölbreytt á árinu. Áfram var unnið að innleiðingu þjónustutengdrar fjármögnunar heilbrigðiskerfisins, eflingu heilsugæslunnar, aðgerða til að stytta bið sjúklinga eftir þjónustu á ýmsum sviðum og draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu. Lýðheilsa, forvarnir og geðheilbrigðismál voru jafnframt mál í öndvegi. Framkvæmdir við uppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut gengu vel og ýmsir samningar voru gerðir um uppbyggingu hjúkrunarrýma og eflingu öldrunarþjónustu. Samhliða var áhersla lögð á að styrkja stöðu og hlutverk Landspítala og jafnframt að efla heilbrigðisstofnanir í öllum heilbrigðisumdæmum landsins í samræmi við markmið heilbrigðisstefnu til ársins 2030 um rétta þjónustu á réttum stað og sem jafnast aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu.

Horfa á ávarpið

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta