Greining á útgjöldum
Alls námu heildarútgjöld (rekstur og fjárfesting) þeirra málaflokka sem heilbrigðisráðherra ber ábyrgð á 340,5 ma.kr. á árinu 2023 en fjárheimild ársins gerði ráð fyrir 389,4 ma.kr. Endanleg útkoma reyndist því í jafnvægi en uppsöfnun höfuðstóls í fjárfestingum tengist frestun framkvæmda.
Rekstur
Rekstrarútgjöld málaflokka heilbrigðisráðuneytisins námu 320 ma.kr. á árinu 2023 og eru 2,9 ma.kr. umfram fjárlög ársins sem voru 304,8 ma.kr. Að teknu tilliti til fjáraukalaga, millifærslna, fjárheimilda til afskrifta og flutnings höfuðstóls frá fyrra ári er heildarfjárheimild ársins 330,2 ma.kr. og rekstrarútgjöld 10,1 m.kr. innan heimilda eða 3,1%. Tilefni er til að fjalla frekar um frávik sex málaflokka. Útgjöld málaflokks 23.30 Erlend sjúkrahúsþjónusta eru 12,2% umfram fjárheimild. Undir málaflokkinn falla brýn meðferð erlendis og veikindi og slys erlendis. Hvort tveggja eru liðir sem erfitt er að spá fyrir um og einstök tilfelli geta haft mikil áhrif á kostnað innan ársins. Útgjöld málaflokks 24.40 Sjúkraflutningar eru 8,8% umfram fjárheimild m.a. vegna breytts vinnufyrirkomulags og aukins umfangs. Útgjöld málaflokks 25.10 Hjúkrunar- og dvalarrými eru 11,3% innan fjárheimilda. Frávik stafa af töfum á byggingu hjúkrunarheimila sem eru á framkvæmdaáætlun. Útgjöld málaflokks 25.20 Endurhæfingarþjónusta eru 4,6% innan fjárheimilda. Frávik skýrist að mestu vegna flutnings fjárheimilda frá árinu á undan. Útgjöld málaflokks 29.60 Bætur vegna veikinda og slysa eru 30% innan fjárheimilda og eru ástæður frávika þær að fjárheimildir voru auknar í kjölfar breytinga á lögum um slysatryggingar sem tóku gildi í ársbyrjun 2022. Málsmeðferðartími hefur lengst samhliða fjölgun umsókna og ekki tekist að afgreiða allar umsóknir innan ársins. Útgjöld málaflokks 32.30 Stjórnsýsla heilbrigðismála eru 6,7% innan heimilda. Frávik eru að mestu tilkomin vegna flutnings fjárheimilda frá fyrra ári.
Fjárfestingar
Til fjárfestinga var varið 20,5 ma.kr. Stærstur hluti fjárfestingar var í málaflokki 23.10 Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta vegna nýbygginga við Hringbraut eða 16,8 ma.kr. Á árinu voru um 25,5 ma.kr. til ráðstöfunar og ónýtt heimild frá fyrra ári var 33,7 ma.kr.
Ársskýrsla ráðherra 2022
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.