Skipulag heilbrigðisráðuneytisins
Heilbrigðisráðuneytið annast verkefni sem varða heilbrigðisþjónustu, lýðheilsu og forvarnir, lífvísindi og lífsiðfræði og sjúkratryggingar almannatrygginga, líkt og nánar er tilgreint í forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta. Heilbrigðisráðherra fer með yfirstjórn ráðuneytisins og ber ábyrgð á öllum stjórnarframkvæmdum þess. Ráðuneytisstjóri stýrir ráðuneytinu undir yfirstjórn ráðherra.
Skipulag heilbrigðisráðuneytisins byggist á tveimur fagskrifstofum og tveimur stoðskrifstofum sem starfa þvert á ráðuneytið. Fagskrifstofurnar eru skrifstofa heilbrigðisþjónustu og skrifstofa lýðheilsu og vísinda. Stoðskrifstofurnar eru skrifstofa stjórnsýslu og skrifstofa fjármála.
Ráðuneytisstjóri er Ásta Valdimarsdóttir.
Skipuritið tók gildi 1. janúar 2024
Skrifstofa heilbrigðisþjónustu
Öll veiting heilbrigðisþjónustu við landsmenn, hvort sem er á fyrsta, öðru, eða þriðja þjónustustigi, sbr. skilgreining 4. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, heyrir undir málefnasvið skrifstofunnar. Hlutverk skrifstofunnar er að stuðla að samfelldri heilbrigðisþjónustu á réttu þjónustustigi þar sem saman fara gæði, öryggi, skilvirkni og hagkvæmni. Í því felst m.a. að leiða stefnumótun á sviði heilbrigðisþjónustu, auk verkefna sem varða áætlanagerð, skipulag, sérhæfingu og verkaskiptingu.
Helstu málefni:
- Heilbrigðisþjónusta
- Sjúkraflutningar
- Endurhæfing- og meðferðarstofnanir
- Tæknifrjóvgun
- Þungunarrof
- Ófrjósemisaðgerðir
- Líffæragjafir og líffæraígræðsla
- Hjúkrunarheimili
- Dagdvöl aldraðra
- Húsnæðismál og byggingaframkvæmdir
- Framkvæmdasjóður aldraðra
Ytri tengsl: Öll sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir, heilsugæsla, endurhæfingar- og meðferðarstofnanir, starfsstofur sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks, öll hjúkrunarheimili og dagdvalir aldraðra, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands og Framkvæmdasýslan ríkiseignir.
Skrifstofustjóri er Guðlaug Einarsdóttir.
Skrifstofa lýðheilsu og vísinda
Meginhlutverk skrifstofunnar er að annast verkefni sem tengjast stefnumótun á sviði lýðheilsu, heilsueflingar og forvarna. Á verksviði skrifstofunnar eru einnig lyfjamál og lækningatæki, mönnun og menntun heilbrigðisstarfsfólks, vísindi, nýsköpun og siðfræði, heilbrigðisviðbúnaður, hjálpartæki og yfirumsjón alþjóðasamstarfs.
Helstu verkefni:
- Lýðheilsa
- Heilsuefling
- Forvarnir
- Lyfjamál
- Lækningatæki
- Hjálpartæki
- Heilbrigðisviðbúnaður
- Mönnun og menntun heilbrigðisstarfsfólks
- Vísindi, nýsköpun og siðfræði
- Alþjóðasamstarf
- Styrkir og sjóðir á málefnasviði skrifstofunnar
Ytri tengsl: Lyfjastofnun, Geislavarnir ríkisins, vísindasiðanefnd, embætti landlæknis, Sjúkratryggingar Íslands, Landspítali, Sjúkrahúsið á Akureyri, heilbrigðisstofnanir og alþjóðastofnanir á sviði heilbrigðismála.
Skrifstofustjóri er Ásthildur Knútsdóttir.
Skrifstofa fjármála
Skrifstofan ber ábyrgð á gerð fjármálaáætlunar, fjárlaga, rekstrar- og framkvæmdaáætlana og hefur eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Hún hefur heildaryfirsýn yfir fjármál- og rekstur stofnana ráðuneytisins, tryggingarliða og annarra viðfangsefna sem heyra undir það. Þá hefur skrifstofan umsjón með kostnaðarþátttöku notenda í heilbrigðisþjónustu. Skrifstofan annast jafnframt fjármál og áætlanagerð og innri rekstur aðalskrifstofu ráðuneytisins (t.d. launavinnslu, bókhald, upplýsingatækni, skjala- og upplýsingastjórnun, mötuneyti, húsnæði og öryggismál). Enn fremur leggur skrifstofan mat á hagkvæmni verkefna og kostnað sem kann að hljótast af lagafrumvörpum fyrir ríkissjóð.
Helstu verkefni:
- Fjármálaáætlun og fjárlagagerð
- Rekstur aðalskrifstofu ráðuneytisins
- Eftirlit með fjármálum stofnana
- Fjármögnunarlíkön heilbrigðisþjónustu
- Kostnaðarmat og áætlanagerð
- Greiðsluþátttaka notenda heilbrigðisþjónustu
- Rekstur og innri þjónusta ráðuneytisins
- Jafnlaunavottun
- Skjalamál
- Net- og kerfisstjórnun
Ytri tengsl: Alþingi, fjármála- og efnahagsráðuneytið, forstöðumenn stofnana ráðuneytisins, Ríkisendurskoðun.
Skrifstofustjóri er Runólfur Birgir Leifsson.
Skrifstofa stjórnsýslu
Meginhlutverk skrifstofunnar er að stuðla að vandaðri stjórnsýslu ráðuneytisins og annast samskipti við helstu aðila stjórnsýslunnar þar að lútandi. Skrifstofan er ráðherra og ráðuneytisstjóra til fulltingis við margvísleg úrlausnarefni, annast samhæfingu verkefna á málefnasviðum ráðuneytisins og gegnir einnig samhæfingarhlutverki í samskiptum ráðuneytisins við Alþingi. Réttindi sjúklinga og sjúkra- og sjúklingatryggingar heyra undir skrifstofuna, einnig verkefni tengd samningum um heilbrigðisþjónustu og eftirliti með gæðum hennar, stafræn þróun heilbrigðisþjónustu auk sjúkraskráa og gagnasafna á heilbrigðissviði. Almannatengsl eru á ábyrgð skrifstofunnar og einnig umbótastarf, innri stefnumótun og mannauðsmál.
Helstu verkefni:
- Stjórnsýsla
- Samskipti við Alþingi
- Umsagnir ríkislögmanns
- Samningar um heilbrigðisþjónustu
- Sjúkra- og sjúklingatryggingar
- Persónuvernd
- Réttindi sjúklinga
- Gæði og eftirlit með heilbrigðisþjónustu
- Sjúkraskrár og gagnasöfn
- Gagnagrunnar
- Stafræn þróun
- Mannauðsmál
- Jafnréttismál
- Almannatengsl
- Innri stefnumótun
Ytri tengsl: Alþingi, umboðsmaður Alþingis, embætti ríkislögmanns, Sjúkratryggingar Íslands, embætti landlæknis, Persónuvernd, Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og forstöðumenn stofnana ráðuneytisins.
Skrifstofustjóri er Sigurður Kári Árnason.
Um heilbrigðisráðuneytið
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.