Hoppa yfir valmynd

Greining á útgjöldum

 

Greining á útgjöldum

06.10 Hagskýrslugerð og grunnskrár. Ein stofnun heyrir undir málaflokkinn hjá innviðaráðuneytinu, þ.e. Þjóðskrá Íslands. Rekstrarútgjöld að frádregnum sértekjum námu 799 m.kr. Er það um 11,8 m.kr. lægri fjárhæð en heildarfjárveitingar ársins eða sem nemur 1,5%. Rekstraráætlun 2023 hafði gert ráð fyrir um 25 m.kr. rekstrarhalla og er því afkoman betri en í áætlun sem nemur um 37 m.kr. Helstu skýringar eru að kostnaður vegna verkefna sem tengjast nafnskírteinum og kjörskrákerfum færðust að hluta til yfir á árið 2024. Fjárfestingar Þjóðskrár Íslands námu 7 m.kr. á árinu 2023. Ónotuð fjárfestingaframlög stofnunarinnar námu 94 m.kr. um síðustu áramót. 

08.10 Framlög til sveitarfélaga. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga heyrir undir málaflokkinn. Fjárveiting fjárlaga byggir á tekjuáætlun ríkissjóðs. Útgjöld reyndust 642 m.kr. lægri en áætlun eða sem nemur 2,1%. Þessi umframútgjöld eru felld niður samhliða yfirflutningi árslokastaða og birt í ríkisreikningi. 

08.20 Byggðamál. Útgjöld málaflokksins námu liðlega 2.121 m.kr. og voru 107 m.kr. eða 5% undir heildarfjárveitingum ársins. Frávikið má einkum rekja til útgjalda í tengslum við framkvæmd byggðaáætlunar. Ónotuð fjárveiting kemur til ráðstöfunar á árinu 2024.

11.10 Samgöngur. Heildarútgjöld málaflokksins námu tæpum 37,1 milljörðum króna og voru 949 m.kr. umfram fjárveitingar eða sem nemur 2,6%. Stærstu útgjaldaliðirnir eru hjá Vegagerðinni í tengslum við þjónustu á vegum og almenningssamgöngur. Halli á rekstri stofnunarinnar nam 905 m.kr. á árinu 2023, en þar af nam halli á almennum rekstri 539 m.kr sem skýrist að stórum hluta af yfirfluttum halla síðasta árs. Halli var á þjónustulið stofnunarinnar 324,2 m.kr. sem skýrist m.a. af erfiðri vetrarfærð og yfirfluttum halla síðasta árs. Einnig var halli upp á 42,6 m.kr á styrkjum til almenningssamgangna. Gjöld Samgöngustofu voru um 80,5 m.kr. eða 6,1% undir fjárveitingu ársins að teknu tilliti til yfirflutts halla frá fyrra ári. Þá voru útgjöld Hafnabótasjóðs 101 m.kr. eða 5,2% undir fjárveitingum en sú fjárhæð er öll skuldbundin í samningum við hafnarsamlög.

Fjárfestingaheimildir málaflokksins námu rúmum 28 mö.kr. og námu ónotaðar fjárveitingar tæpum 2,7 ma.kr. í árslok 2023. Afgangurinn kemur til vegna reikningshaldslegrar meðferðar verka í vinnslu í tengslum við framkvæmdir á innanlandsflugvöllum og uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Fjárfestingar Vegagerðarinnar námu tæpum 30 ma.kr. á  árinu og var staða fjárfestingaframlaga neikvæð um tæpa 5,4 ma.kr. Fjárfestingar Samgöngustofu námu 21,5 m.kr. á árinu 2023 og var staða fjárfestingaframlaga neikvæð um tæpar 27 m.kr. í árslok.

11.20 Fjarskipti. Eitt viðfang heyrir undir málaflokkinn hjá innviðaráðuneytinu, þ.e. alþjónustuframlag til Íslandspósts sbr. lög um póstþjónustu. Alþjónustuframlagið nam 665 m.kr. vegna ársins 2023 samkvæmt ákvörðun Byggðastofnunar.

11.30 Stjórnsýsla innviðaráðuneytisins. Útgjöld málaflokksins námu 987,9 m.kr. og voru 41 m.kr. eða 4,3% hærri en heildarfjárveitingar. Gjöld aðalskrifstofu ráðuneytisins voru 33,2 m.kr. hærri en fjárveitingar eða sem nemur 4,4%. Rekstrarhalli á liðnum 10-190 ýmis verkefni nam um 7,5 m.kr. Þá átti varasjóður málaflokksins um 21 m.kr. í ónotaðar fjárveitingar í árslok.

17.40 Varnir gegn náttúruvá. Eitt fjárlagaviðfang heyrir undir þennan málaflokk hjá innviðaráðuneytinu, þ.e. varnargarðar. Fjármagnstilfærslur námu 1.812 m.kr. sem er 888 m.kr. undir fjárveitingu ársins eða um 33%. Ónýtt fjárveiting kemur til ráðstöfunar á árinu 2024. 

29.40 Fjölskyldumál. Eitt fjárlagaviðfang heyrir undir þennan málaflokk hjá innviðaráðuneytinu, þ.e. meðlög samkvæmt lögum nr. 76/2003. Útgjöld námu 456 m.kr. sem er um 83 m.kr. umfram fjárveitingar ársins. Halli á liðnum er felldur niður við yfirflutning árslokastaða milli ára þar sem um lögbundnar greiðslur er að ræða.

31.10 Húsnæðismál. Heildargjöld málaflokksins námu tæpum 16,5 ma.kr. að frádregnum 1,3 ma.kr. sértekjum eða 7% undir heildarfjárheimildum. Frávikið má að langstærstum hluta rekja til húsnæðisbóta en 1 ma.kr. afgangur var á fjárveitingu til fjárlagaliðarins. Afkoma á þessum lið fellur niður við yfirflutning árslokastaða þar sem um lögbundin útgjöld er að ræða. Afgangur af fjárheimildum til stofnframlaga nam 359 m.kr. og einnig var 306 m.kr. afgangur af fjárveitingu til sértæks húsnæðisstuðnings til Grindvíkinga. Einnig var afgangur af rekstri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem nam 37,5 m.kr. af fjárveitingu ársins. Fjárfestingaheimildir Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar námu tæplega 247 m.kr. á árinu 2023. Fjárfesting ársins nam rúmlega 203 m.kr. og var staða fjárfestingaframlaga jákvæð um tæpar 33 m.kr. í árslok. 

31.20 Skipulagsmál. Útgjöld málaflokksins námu 936 m.kr. og voru 177,5 m.kr. eða 23,4% umfram fjárheimildir. Umframútgjöld má fyrst og fremst rekja til endurgreiðslu kostnaðar við gerð skipulagsáætlana með vísan til skipulagslaga og nam hallinn 162,2 m.kr. Þessi halli er felldur niður við yfirflutning árslokastaða þar sem um lögbundin útgjöld er að ræða. Þá nam halli á rekstri Skipulagsstofnunar rúmum 15 m.kr. eða sem nemur 4%. Fjárfestingaheimildir Skipulagsstofnunar námu tæplega 18,4 m.kr. á árinu 2023. Fjárfesting ársins nam rúmlega 1,9 m.kr. og var staða fjárfestingaframlaga jákvæð um tæpar 16,5 m.kr. í árslok.

 

 

Ráðstöfun varasjóða 2023

Varasjóðir ráðuneytisins eru tveir. Annars vegar er um að ræða varasjóð málaflokks 11.1 Samgöngur og hins vegar 11.3 Stjórnsýsla innviðaráðuneytis. Fjárveiting á fyrrnefnda liðnum nam 238,9 m.kr. og var nær öllu framlaginu ráðstafað á árinu. Þar af runnu 87,4 m.kr. á almenningssamgöngulið Vegagerðarinnar vegna kaupa á Breiðafjarðarferju. Þá voru 136,1 m.kr. millifærðar til Vegagerðarinnar á almennan rekstur vegna ófyrirséðs kostnaðar við dýpkun Landeyjahafnar. Að lokum voru 15 m.kr millifærðar til Rannsóknarnefndar samgönguslysa þar sem sýnt þótti fram á að stofnunin færi fram úr fjárveitingum á árinu.  

Engu var ráðstafað á árinu 2023 vegna varasjóðs málaflokks 11.3 Stjórnsýsla innviðaráðuneytis og nam ónotuð fjárheimild um 21 m.kr. í lok ársins.

 

Styrktar- og samstarfssamningar 2023

Yfirlit yfir styrktar- og samstarfssamninga árið 2023 samanber 42. gr. laga um opinber fjármál (123/2015).

 
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum