Hoppa yfir valmynd

Starfsemi ráðuneytisins á árinu 2023

Fréttaannáll 2023

Húsnæðis- og skipulagsmál

Húsnæðisstefna ásamt aðgerðaáætlun lögð fram í fyrsta sinn

Tillaga til þingsályktunar um húsnæðisstefnu fyrir árin 2024-2038 ásamt aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028 var lögð fram á Alþingi í nóvember 2023. Þetta er í fyrsta sinn sem sett er fram heildstæð stefnumótun í húsnæðismálum á landsvísu sem hefur að leiðarljósi að tryggja að öll búi við húsnæðisöryggi í víðtækum skilningi.

Í aðgerðaáætlun til fimm ára eru settar fram samtals 43 aðgerðir sem ætlað er að ná fram markmiðum húsnæðisstefnu. Níu þeirra falla undir markmið um jafnvægi á húsnæðismarkaði, 14 undir markmið um að skilvirkari stjórnsýslu og gæði íbúða í jafnvægi við umhverfið, 14 undir markmið um húsnæðisöryggi og jafnrétti landsmanna í húsnæðismálum og sex undir markmið um að framboð íbúða stuðli að virkum vinnumarkaði um land allt.

Stórfelld uppbygging hagkvæmra íbúða með stofnframlögum

Í júní voru kynnt áform um stórfellda uppbyggingu hagkvæmra íbúða fyrir tekju- og eignaminni en stefnt yrði að því að byggja 2.800 íbúðir fyrir þennan hóp á árunum 2023-2025 í stað 1.250 íbúða sem áður var áætlað. Stjórnvöld hafa ákveðið að tvöfalda fjármagn til stofnframlaga til leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins og hlutdeildarlána til íbúðarkaupa.

Samningar við sveitarfélög um húsnæðisuppbyggingu

Samningar um aukið framboð íbúðarhúsnæðis voru gerðir á árinu við þrjú sveitarfélög, Reykjavíkurborg, Mýrdalshrepp og Húnaþing vestra. Samningarnar byggir á rammasamningi ríkis og sveitarfélaga frá 2022 þar sem sameinast var um sýn og stefnu í húsnæðismálum til að tryggja uppbyggingu íbúða í samræmi við þörf. Í rammasamningnum voru markmið sett að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði með því að byggja 35 þúsund nýjar íbúðir á tíu árum. Þar af skal hlutfall hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði að jafnaði um 30% og félagslegt húsnæði að jafnaði sem næst 5%.

Gagnger endurskoðun byggingarreglugerðar

Vorið 2023 var skipaður stýrihóp um breytingar á byggingarreglugerð nr. 112/2012. Tíu vinnuhópar voru myndaðir um jafnmarga málaflokka byggingarreglugerðar, með um 80 sérfræðingum úr virðiskeðju mannvirkjageirans, og áttu þeir að vinna breytingartillögur til stýrihóps og vinna þeirra komin vel á veg í árslok 2023.

Byggjum grænni framtíð – vistvæn mannvirkjagerð

Á árinu var unnið áfram á grunni vegvísis um vistvænni mannvirkjagerð. Byggjum grænni framtíð er samstarfsverkefni stjórnvalda og hagaðila byggingariðnaðarins um vistvænni mannvirkjagerð en það á meðal annars rætur sínar að rekja til aðgerðar C.3 í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum.

Þriðja úthlutun úr Aski - mannvirkjasjóði var auglýst í september 2023. Yfir 100 milljónum króna úthlutað í upphafi árs 2024.

Skipulagsmál

Landsskipulagsstefna ásamt aðgerðaáætlun lögð fram

Tillaga til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun var lögð fram á Alþingi í nóvember 2023. Landsskipulagsstefna felur í sér samræmda stefnu ríkisins í skipulagsmálum fyrir landið í heild og tekur til landsins alls og haf- og strandsvæða. Landsskipulagsstefnu er fyrst og fremst framfylgt í gegnum skipulagsgerð sveitarfélaga en samkvæmt skipulagslögum skulu sveitarfélög byggja á og taka mið af áherslum landsskipulagsstefnu við skipulagsgerð. 

Aðgerðaáætlun stefnunnar felur í sér 19 aðgerðir sem ætlað er að ná fram markmiðum landsskipulagsstefnu. Aðgerðirnar miða einkum að því að gera skipulagsgerð sveitarfélaga skilvirkari með bættu aðgengi að grunngögnum og leiðbeiningum. Jafnframt eru settar fram markvissar aðgerðir til að stuðla að því að styrkja stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði.

Þingsályktunartillagan var samþykkt í maí 2024.

Fyrsta skipulag staðfest til tekur til fjarða og flóa við strendur landsins

Í mars 2023 staðfesti innviðaráðherra tillögur svæðisráða að strandsvæðisskipulagi Austfjarða og strandsvæðisskipulagi Vestfjarða. Um tímamót er að ræða í skipulagssögu landsins þar sem um er að ræða fyrsta skipulag sem tekur til fjarða og flóa við strendur landsins.

Hlutdeild hagkvæmra íbúða verði allt að 25% í deiliskipulagi

Alþingi samþykkti í desember frumvarp innviðaráðherra um breytingar á skipulagslögum. Með nýju ákvæði fá sveitarfélög heimild til að skilyrða að hlutdeild hagkvæmra íbúða verði allt að 25% samkvæmt deiliskipulagi. Markmiðið er að auka uppbyggingu hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði. Breytingarnar eru liður í aðgerðaáætlun á grunni rammasamnings ríkis og sveitarfélaga sem undirritaður var í júlí 2022 um húsnæðisuppbyggingu.

Lagabreytingar um úrbætur í brunavörnum

Alþingi samþykkti í desember 2023 breytingar á lögum um lögheimili og aðsetur, lögum um mannvirki og lögum um brunavarnir í því skyni að gera úrbætur í brunavörnum í í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu. Breytingar eru afrakstur tillagna starfshópa og samráðs af hálfu stjórnvalda í kjölfar bruna sem varð í Reykjavík í júní 2020 þar sem þrír einstaklingar létust á voveiflegan hátt og þrír slösuðust.

Samgöngur

Samgönguáætlun lögð fram

Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028 var lögð fram á Alþingi í október 2023.

Í tillögunni er lögð áhersla á að auka öryggi í samgöngum, stytta vegalengdir, tengja byggðir og umhverfis- og loftslagsmál. Margar mikilvægar vegaframkvæmdir eru fyrirhugaðar með áherslu á aðskilnað akstursstefna, fækkun einbreiðra brúa og lagningu bundins slitlags á tengivegi. Þá verða framlög stóraukin til viðhalds vega. Framlög til uppbyggingar á innanlandsflugvöllum aukast til muna með nýju varaflugvallargjaldi og stefnt er að því að byggja flugstöð á Reykjavíkurflugvelli. Samhliða er lögð fram sérstök jarðgangaáætlun til 30 ára með forgangsröðun á fjórtán jarðgangakostum.

Gert er ráð fyrir að á fimmtán ára tímabili samgönguáætlunar verði 909 milljörðum kr. varið til samgangna, þar af um 263 ma.kr. á fyrsta fimm ára tímabili áætlunarinnar.

Samgöngumannvirki og fækkun einbreiðra brúa – samgönguáætlun

Unnið var að ýmsum stórframkvæmdum á stofnvegum á árinu samkvæmt samgönguáætlun. Nýr Suðurlandsvegur milli Hveragerðis og Selfoss var opnaður á árinu en um var að ræða rúmlega 7 km kafla. Framkvæmdum á 4,13 km kafla á Hringvegi við Kjalarnes lauk við árið 2023 og er næsti áfangi tilbúinn til útboðs. Á árinu voru boðnar út framkvæmdir á 5,6 km kaflia á Reykjanesvegi (Krýsuvíkurvegur-Hvassahraun) og áætluð verklok eru 2026.

Nýjar tvíbreiðar brýr yfir Núpsvötn og Hverfisfljót voru opnaðar í maí 2023.  Á árinu voru í byggingu þrjár brýr sem koma í stað einbreiðra brúa á Hringvegi, þ.e. Hornafjarðarfljót, Hoffelssá og Holtakíll (Djúpá).

Unnið var áfram á ýmsum stigum annarra verkefna. Á árinu voru einnig í gangi framkvæmdir á Vestfjarðavegi um Dynjandisheiði (30,92 km) og um Gufudalssveit (20,39 km) en áætluð verklok eru 2025-2026. Hringvegur um Hornafjarðarfljót var boðinn út árið 2022 og eru verklok 2025. Útboðsferli fyrir nýja brú á Ölfusá hófst árið 2022 og gert er ráð fyrir verklokum 2026. Þá var slitlag lagt á tengivegi samkvæmt sérstakri tengivegaáætlun samgönguáætlunar. Loks er áfram unnið að undirbúningi Sundabrautar.

Framkvæmdir á vegum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

Á árinu var unnið í samræmi við framkvæmdaáætlun samgöngusáttmála. Unnið var að undirbúningi framkvæmda vegna fyrstu tveggja lotna Borgarlínu (Ártún-Hlemmur og Hlemmur-Hamraborg). Á árinu var klárað að leggja 2,1 km af sérstökum hjólastígum á höfuðborgarsvæðinu sem falla undir samgöngusáttmálann. Einnig var unnið að gerð undirganga fyrir gangandi og hjólandi undir Arnarnesveg á Arnarneshæð.
 Samstarfshópur á vegum ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vann að því á árinu að endurskoða samgöngusáttmálann.

Endurskoðun á tekjuöflun ríkisins af ökutækjum og umferð

Áfram var unnið að endurskoðun tekjuöflunar ríkisins af ökutækjum og umferð í vegum verkefnastofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins og innviðaráðuneytisins. Stefnt er að því að aðlaga fjármögnunarkerfið að orkuskiptum og minnkandi notkun jarðefnaeldsneytis með upptöku kílómetragjalds í stað olíu- og bensíngjalda. Markmiðið er að tryggja fjármögnun vegakerfisins til framtíðar og jafnræði í gjaldtöku óháð orkugjafa ökutækja.

Varaflugvallagjald orðið að veruleika

Nýtt frumvarp um rekstur og uppbyggingu flugvalla og flugleiðsöguþjónustu var samþykkt í júní og tók gildi 1. nóvember. Með því varð að veruleika nýtt varaflugvallargjald sem ætlað að bregðast við og tryggja fjármagn til uppbyggingar innviða á innanlandsflugvöllum. Markmiðið er að flugvellirnir geti sinnt hlutverki sínu sem mikilvægar gáttir inn í landið og varaflugvellir fyrir Keflavíkurflugvöll með fullnægjandi hætti.

Unnið að flugstöð á Akureyri og viðhaldi á innanlandsflugvöllum

Framkvæmdir við nýtt flughlað á Akureyrarflugvelli voru langt komnar í árslok 2023 og áætlað að nýtt flughlað verði opnað í ársbyrjun 2024. Framkvæmdir við stækkun á flugstöð stóðu yfir árið 2023 með nýrri viðbyggingu og lýkur því verkefni um mitt ár 2024.

Flugbrautir á Höfn í Hornafirði og á Vopnafirði voru klæddar. Viðhaldi og endurnýjun var sinnt á aðflugsbúnaði, byggingum og flughlöðum á Reykjavíkurflugvelli. Lokið var við uppsetningu nýrra flugbrautarljósi á Norðfjarðarflugvelli og flugbrautarljós endurnýjuð á Bíldudalsflugvelli. Á Egilsstaðaflugvelli var unnið að viðhaldi á veðurbúnaði og aðstöðu í flugturni.

Miklar framkvæmdir við hafnir – breytingar á hafnalögum

Framkvæmdir fóru fram í ýmsum höfnum landsins. Framkvæmdir við Sundabakka á Ísafirði er að mestu lokið og stækkun Þorlákshafnarhöfn hefur staðið yfir frá árinu 2021 en lýkur samkvæmt áætlun 2025. Hafist var að handa við undirbúning útboðs vegna framkvæmda við byggingu Suðurgarðs í Njarðvík.

Alþingi samþykkti einnig í maí breytingar á hafnalögum sem opnar á heimildir fyrir hafnir að taka mið af umhverfissjónarmiðum, orkunýtni eða kolefnisnýtni í siglingum í gjaldskrám sínum.

Nýtt kerfi fyrir skipaskrá og lögskráning sjómanna

Samgöngustofa tók í notkun nýtt tölvukerfi fyrir skipaskrá og lögskráningu sjómanna. Nýja tölvukerfið, sem ber heitið Skútan, leysir af hólmi fimm eldri kerfi og nútímalegri og notendavænni.

Umgjörð almenns ökunáms stafræn

Umgjörð almenns ökunáms (B-réttinda) varð að fullu stafræn á árinu. Allir ferlar sem ökunemar, ökukennarar og ökuskólar nýta vegna námsins eru orðnir stafrænir og pappír heyrir því að mestu sögunni til. Markmiðið með verkefninu er að einfalda ökunámsferlið, bæta þjónustu og fækka snertiflötum milli stofnana.

Almenningssamgöngur milli Keflaflugvallar og höfuðborgarsvæðis

Starfshópur var skipaður á árinu um almenningssamgöngur milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins. Verkefni hópsins hefur verið að greina leiðir til að bæta almenningssamgöngur á þessari leið með umhverfisvænum hætti og leggja fram tillögur til úrbóta. Í hópnum eiga sæti fulltrúar ráðuneytisins, Vegagerðarinnar, Isavia, Strætó bs., Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum og Kadeco, þróunarfélag Keflavíkurflugvallar.

Loftslagsaðgerðir í samgöngum mótaðar

Á árinu var unnið að undirbúningi Vegvísis um vistvænar samgöngur til 2030 sem mun innihalda aðgerðir til að drag úr samdrætti í losun frá samgöngum til að stuðla að því markmiði að Ísland nái að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar í loftslagsmálum sem og sjálfstæð markmið. Stýrihópur um vegvísinn var skipaður 1. mars 2023 og vann hópurinn stöðumat losunar og orkuskipta í samgöngum ásamt tillögum að skilgreiningu aðgerða í samgöngum á hafi, landi og lofti. Í vegvísinum verða sömu aðgerðir og þær sem skilgreindar eru á ábyrgð ráðuneytisins í Aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum..

Sveitarstjórnamál

Ný stefnumótandi áætlun um málefni sveitarfélaga

Þingsályktun um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024-2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028 var samþykkt á Alþingi í desember 2023. Með áætluninni er stuðlað að samræmdri stefnumótun ríkis og sveitarfélaga í málefnum sveitarfélaganna. Meginmarkmið áætlunarinnar eru  að byggja upp öflug, sjálfbær sveitarfélög um land allt. Fyrsta stefna ríkisins í málefnum sveitarfélaga var samþykkt á Alþingi árið 2020.

Aðgerðaáætlun stefnunnar hefur að geyma 18 aðgerðir á sviði fjármála, þjónustu, lýðræðis og stafrænnar umbreytingar. Helstu nýjungar í nýrri aðgerðaáætlunar eru annars vegar áhersla á sjálfbærni og umhverfis- og loftslagsmál og hins vegar að fleiri ráðuneyti bera ábyrgð á aðgerðum, þ.á m. í þágu ungra barna, fólks með fötlun og innflytjenda.

Verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga færð til ríkisins

Verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga, þ. á m. innheimta meðlaga, voru færð til ríkisins með lagabreytingu á Alþingi í júní 2023. Markmið með tilfærslu verkefnanna til ríkisins var að skapa trausta umgjörð um innheimtu meðlaga og annarra framfærsluframlaga, einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, stuðla að jákvæðri þróun starfseminnar og bæta þjónustu við meðlagsgreiðendur. Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra á Blönduósi tók við stjórnsýsluverkefnum Innheimtustofnunar, en sýslumenn eru innheimtumenn ríkissjóðs. Breytingin tók gildi 1. janúar 2024.

Póstþjónusta – heimildir rýmkaðar fyrir bréfakassasamstæður

Alþingi samþykkti í desember breytingar á lögum um póstþjónustu sem rýmka til muna heimildir alþjónustuveitanda til að nýta bréfakassasamstæður (póstbox) í þéttbýli. Bréfasendingum hefur undanfarin ár fækkað jafnt og þétt en pakkasendingum fjölgað að sama skapi. Póstbox fyrir pakkasendingar hafa einnig fengið góðar viðtökur hér á landi. Aukin notkun bréfakassasamstæðna getur því haft sparnað í för með sér og minnkað alþjónustukostnað ríkissjóðs.

Lagaumgjörð Jöfnunarsjóðs endurmótuð

Unnið var að frumvarpi um heildarendurskoðun á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og er það afrakstur mikillar vinnu undangenginna ára. Með frumvarpinu er lagt til að reglur um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og starfsemi hans verði færð úr lögum um tekjustofna sveitarfélaga og að sett verði ný heildarlög um sjóðinn. Megin breytingin felst í að taka í notkun nýtt líkan sem leysir tiltekin framlög Jöfnunarsjóðs af hólmi og sameinar það í eitt almennt jöfnunarframlag.

Endurskoðun sveitarstjórnarlaga

Endurskoðun gildandi sveitarstjórnarlaga hófst á árinu með skipan fjögurra undirhópa um (1) almennar umbætur, (2) birtingu reglna, starfsaðstæður kjörinna fulltrúa, upplýsingamiðlun og íbúalýðræði (3) fjármálakafla og (4) atvinnuþátttöku sveitarfélaga. Hóparnir munu skila ráðgjafanefnd skipaðri þremur fulltrúum innviðaráðherra og tveimur fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga niðurstöðu sinni sumarið 2024.

Fyrsta borgarstefnan mótuð

Starfshópur innviðaráðherra um mótun borgarstefnu vann drög að fyrstu heildstæðu borgarstefnu fyrir Ísland árið 2023. Lögð var rík áhersla á samráð og samhæfingu við aðrar stefnur og áætlanir ríkis og sveitarfélaga, sem og að kortleggja áskoranir og framtíðarsýn fyrir tvö borgarsvæði, Akureyri og Reykjavík og áhrifasvæði þeirra. Drög að borgarstefnu voru svo birt í samráðsgátt stjórnvalda í byrjun árs 2024 og tillögur birtar í júní sama ár.

Auðið fjármagn í átaksverkefni um úrbætur í aðgengismálum fyrir fatlað fólk

Samkomulag var undirritað í júní um aukinn stuðning ríkisins við átaksverkefni stjórnvalda og ÖBÍ um úrbætur um land allt í aðgengismálum fyrir fatlað fólk. Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga mun veita allt að 415 milljónir kr. til úrbótaverkefna út árið 2024. Þá fær ÖBÍ sérstakan fjárstyrk, að fjárhæð 14 milljónir kr., til að ráða verkefnisstjóra út samningstímabilið.

Römpum upp Ísland

Átakinu Römpum upp hélt áfram af krafti árið 2023. Markmiðið með verkefninu er að byggja 1.500 rampa um land allt á fjórum árum að meðtöldum þeim 100 römpum sem reistir voru í Reykjavík árið 2021. Átakið gengur mjög vel og langt á undan áætlun. Undir lok ársins var 1.000 rampurinn vígður í samvinnu við Hitt húsið.

Með römpunum er öllum gert kleift að nýta sér margvíslega þjónustu, fara á veitingahús og verslanir um land allt. Innviðaráðuneytið styður við verkefnið með veglegum fjárstuðningi. Verkefnið nýtur einnig stuðnings frá einkaaðilum og þeim sveitarfélögum þar sem ramparnir eru settir upp.

Byggðamál

Byggðaáætlun í fullri virkni

Á árinu var unnið af krafti á grunni aðgerða í byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036. Byggðaáætlun hefur það að meginmarkmiði að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstök áhersla er á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Aðgerðaáætlunin kveður á um 44 aðgerðir. Öll ráðuneytin eru beinir aðilar að byggðaáætlun og ber hvert þeirra ábyrgð á minnst einni aðgerð.

Drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu

Byggðastofnun vann drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu að ósk innviðaráðuneytisins. Í byggðaáætlun er lögð áhersla á að opinber grunnþjónusta verði skilgreind í lögum og hvernig réttur íbúa landsins til hennar verði tryggður óháð búsetu. Drögin voru lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda. Í drögunum segir að opinber grunnþjónusta er þjónusta opinberra aðila, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, sem er aðgengileg öllum íbúum landsins og nauðsynleg til að skapa fullnægjandi búsetuskilyrði um land allt. Opinber grunnþjónusta er forsenda þess að fólk geti stundað atvinnu, sótt menntun og frístundastarf og sinnt öðrum daglegum verkefnum og þörfum.

Styrkir til að efla byggðir landsins

Tólf verkefni á vegum sjö landshlutasamtaka sveitarfélaga fengu úthlutað styrkjum að upphæð 130 milljónum kr. í byrjun árs. Styrkjunum er ætlað að efla byggðir landsins og er úthlutað til sértækra verkefna á sóknaráætlanasvæðum í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036.

Styrkir voru veittar til sjö verslana í dreifbýli í desember, samtals að fjárhæð 15 milljónir kr. Styrkirnir eru veittir á grundvelli aðgerðar A.9 Verslun í dreifbýli í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036. Markmiðið er að styðja við rekstur dagvöruverslana í minni byggðarlögum fjarri stórum byggðakjörnum á fámennum markaðssvæðum til að viðhalda mikilvægri grunnþjónustu.

Framlög til byggðarannsóknasjóðs hækkuð

Framlag innviðaráðuneytisins til byggðarannsóknasjóðs var hækkað árinu um fimm milljónir og verður tólf milljónir kr. Stjórn Byggðastofnunar hefur einnig tvöfaldað framlag sitt og verður sex milljónir kr. Frá og með árinu 2024 mun sjóðurinn því hafa 18 milljónir kr. til ráðstöfunar.

Rannsóknasetur í byggða- og sveitarstjórnarmálum

Rannsóknasetur í byggða- og sveitarstjórnarmálum var stofnað í janúar 2023. Ráðuneytið styður við uppbyggingu og rekstur setursins með samningi til þriggja ára, í gegnum byggðaáætlun og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Markmiðið er að efla jákvæða byggðaþróun og styrkja sveitarstjórnarstigið með markvissum rannsóknum.

Málefni Grindavíkur

Stjórnvöld hafa staðið fyrir ýmsum aðgerðum til að styðja við Grindvíkinga vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga sem staðið hafa yfir við Grindavík með hléum frá 10. nóvember 2023. 

Aðkoma innviðaráðuneytisins vegna málefna Grindavíkur árið 2023 sneri að mestu að ýmsum aðgerðum í húsnæðismálum Grindvíkinga annars vegar og uppbyggingu varnargarða og vega (Vegagerðin) hins vegar. Í ljósi þess að ársskýrsla ráðherra er gefin út um mitt ár 2024 má greina frá því að aðkoma ráðuneytisins á fyrri hluta árs 2024 fólst einnig í styðja við stjórnsýslu Grindavíkurbæjar, m.a. aðstoð varðandi fjármál og rekstur og með stofnun sérstakrar framkvæmdanefndar um málefni Grindavíkur með lögum frá Alþingi.

Tímabundin húsnæðisúrræði

Þann 10. nóvember 2023 voru 1.150 heimili rýmd í Grindavík. Í framhaldi af ákvörðun stjórnvalda um rýmingu Grindavíkurbæjar var ákveðið að útvega tímabundið húsnæði meðan á óvissu stæði og var m.a. leitað til stéttarfélaga um að lána orlofsíbúðir og einstaklinga um leggja til húsnæði í einkaeigu. Var sú aðgerð framkvæmd á grunni laga um almannavarnir nr. 82/2008. Aðeins var um tímabundna aðgerð að ræða. 

Sértækur húsnæðisstuðningur

Þegar útlit var fyrir að jarðhræringarnar myndu dragast á langinn samþykkti Alþingi frumvarp innviðaráðherra um sértækan húsnæðisstuðning. Markmið laganna var að lækka húsnæðiskostnað Grindvíkinga sem þurfa að leigja húsnæði til búsetu utan Grindavíkurbæjar vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga. Upphæð húsnæðisstuðningsins fer eftir fjölda heimilismanna og getur verið allt að 90% af leigufjárhæð. Á árinu 2024 voru úrræðin framlengd tvívegis. Þau munu gilda til ársloka 2024.

Kaup á leiguíbúðum fyrir Grindvíkinga

Ríkisstjórnin samþykkti 24. nóvember að Bríet leigufélag, óhagnaðardrifið félag að mestu í eigu ríkisins, myndi kaupa allt að 150 íbúðir til leigu til að mæta bráðri húsnæðisþörf Grindvíkinga sem gert var að rýma heimili sín. Íbúðir voru keyptar á Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þess. Síðar var ákveðið að rýmka heimildina til að hægt væri að kaupa allt að 200 íbúðir. Bríet hefur því 200 íbúðir til leigu fyrir Grindvíkinga.

Jafnframt samþykkti Alþingi lög nr. 114/2023, um breytingu á lögum um almennar íbúðir og lögum um húsnæðismál (almennar íbúðir vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ), sem veitir heimild til að veita óhagnaðardrifnum leigufélögum allt að 30% stofnframlag af hálfu ríkisins til kaupa á að allt að 60 íbúðum. Bjarg, íbúðarfélag, sem einnig er óhagnaðardrifið húseignarfélag, hefur keypt 50 íbúðir til útleigu fyrir Grindvíkinga á grunni þessarar heimildar.

Uppbygging húsnæðis á Reykjanesi

Innviðaráðherra skipaði starfshóp 17. nóvember 2023 um möguleika á hraðri uppbyggingu húsnæðis vegna afleiðinga náttúruhamfara við Grindavík. Niðurstaða hópsins var að nægt lóðaframboð væri til staðar fyrir hraða uppbyggingu á þeim svæðum sem tekin voru til skoðunar og ekki var talin þörf á breytingum á skipulagslöggjöfinni til að flýta fyrir uppbyggingu. Enn fremur var það niðurstaða hópsins að mikið framboð væri á tilbúnum húsnæðiseiningum sem hægt væri að framleiða og flytja til landsins, og að fjöldi aðila sé tilbúinn til að standa að uppbyggingu slíkra lausna. Kynntar voru tvær sviðsmyndir. Annars vegar að ríkið ráðist í sértæka uppbyggingu íbúðarhúsnæðis fyrir Grindvíkinga og hins vegar að uppbyggingin verði boðin út af sveitarfélögunum fyrir uppbyggingu einkaaðila. Starfshópurinn tók ekki afstöðu til þess hvort ríkið ætti að ráðast í sértæka uppbyggingu íbúðarhúsnæðis til handa Grindvíkingum. Hópurinn lauk störfum í lok desember 2023.

Verkefnastjóri á vegum stjórnvalda

Stjórnvöld réðu verkefnastjóra þvert á þrjú ráðuneyti þ.e. forsætis-, fjármála- og efnahags, og innviðráðuneyti, til þess að samræma aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum. Þessi ráðuneyti hafa haft umsjón með húsnæðismálum Grindvíkinga. Verkefnastjórinn var ráðinn til sex mánaða og hóf störf um miðjan nóvember 2023. Meðal fyrstu verkefna hans var að koma á samstarfsvettvangi ráðuneytanna þriggja, Grindavíkurbæjar, Almannnavarna, Rauða krossins og Framkvæmdasýslu, Ríkiseigna (FSRE). Fundað var þétt og reglulega um húsnæðismál Grindvíkinga, sérstaklega meðan á ofangreindum aðgerðum stjórnvalda stóð og óvissa var meðal Grindvíkinga um húsnæði.

Áhrif á fjárhag nágrannasveitarfélaga

Brottflutningur Grindvíkinga í önnur sveitarfélög hefur óhjákvæmilega haft áhrif á fjárhag þeirra, ekki síst í nágrannasveitarfélögum á Suðurnesjum. Metið hefur hvernig styðja mætti við sveitarfélög sem hafa tekið á sig auknar byrðar til að aðstoða brottflutta Grindvíkinga en hafa ekki enn fengið útsvarstekjur á móti, í þeim tilvikum þegar fólk hefur ekki flutt lögheimili sitt. Verkefnið hefur verið unnið með heildstæðum hætti í samvinnu við eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga, önnur ráðuneyti, Grindavíkurbæ, sveitarfélög á Suðurnesjum og Samband íslenskra sveitarfélaga. 

Helstu aðgerðir á fyrri hluta 2024

Stuðningur við stjórnsýslu og fjárhag

Innviðaráðherra og Grindavíkurbær undirrituðu samkomulag í febrúar 2024 um stuðning við stjórnsýslu og fjárhag Grindavíkurbæjar. Markmið þess var að styðja við stjórnsýslu og fjárhagsmálefni Grindavíkurbæjar, leggja mat á rekstrarhæfi sveitarfélagsins og stuðla að því að teknar verði upplýstar ákvarðanir um aðgerðir til að aðlaga rekstur sveitarfélagsins að gjörbreyttum aðstæðum í kjölfar náttúruhamfara. 

Framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur

Alþingi samþykkti í maí 2024 lagafrumvarp innviðaráðherra um sérstaka framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur, en nefndin tók til starfa 1. júní. Framkvæmdanefndin fer með stjórn, skipulagningu og samhæfingu aðgerða, tryggir skilvirka samvinnu við sveitarstjórn og opinbera aðila og hefur heildaryfirsýn yfir málefni Grindavíkurbæjar. Verkefnið var undirbúið í samstarfi við bæjarstjórn Grindavíkur sem óskaði eftir samstarfi um tilhögun og stjórnarfyrirkomulag verkefna við óvenjulegar aðstæður vegna jarðhræringa í Grindavík.

Framkvæmdanefndin er fjölskipað og sjálfstætt stjórnvald sem hefur með höndum fjölþætt verkefni sem snúa að úrlausnarefnum sem tengjast jarðhræringunum við Grindavík. Helstu verkefni snúa að samfélagsþjónustu með því að starfrækja þjónustuteymi á sviði velferðar- og skólaþjónustu og framkvæmdum og viðgerðum á mikilvægum innviðum í Grindavík.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum