Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. júní 2007 InnviðaráðuneytiðKristján L. Möller, samgönguráðherra 2007-2010

Enn mun reimt á Kili

Grein um veg yfir Kjöl - Morgunblaðið, 16.júní 2007.

Vegna umræðna síðustu daga um vegagerð á Kjalvegi þykir mér rétt að gera betur grein fyrir afstöðu minni til þeirrar hugmyndar að leggja upphækkaðan heilsársveg milli Norður- og Suðurlands. Einkahlutafélagið Norðurvegur setti fyrir nokkrum misserum fram hugmynd um að lagður yrði upphækkaður heilsársvegur um Kjöl og hefur félagið staðið fyrir ýmsum rannsóknum vegna hugmyndarinnar. Með því styttist leið milli Norðurlands og Suðurlands, létt yrði á Hringveginum og meðal jákvæðra afleiðinga væri aukið umferðaröryggi, hagkvæmni myndi nást og minni útblástur verða frá umferð.

Þetta er allt gott og blessað. Hins vegar er alveg eftir að kanna hver yrðu áhrif á umhverfið af slíkri framkvæmd og tilheyrandi umferð um nýjan veg og hvort hann fellur að skipulagi miðhálendisins. Þess vegna er mjög mörgum spurningum ósvarað áður en unnt er að ákveða nokkuð í þessu sambandi.

Víðernin á hálendi Íslands eru verðmæt og þau eru sérstæð. Mikil umræða hefur farið fram síðustu árin í tengslum við virkjanir og stóriðju og hvort og hvernig framkvæmdir á þeim sviðum samræmast náttúruvernd. Þessi umræða þarf einnig að fara fram hvað varðar vegi á hálendi Íslands. Í umhverfisskýrslu með tillögu að tólf ára samgönguáætlun kemur fram að ekki liggur fyrir samræmd stefna stjórnvalda um landnotkun á hálendinu og þar með hvers konar vegi megi sjá fyrir sér þar í framtíðinni. Á næstunni þurfum við að standa fyrir opinni umræðu um hvernig við viljum fara með þessi mál. Hér koma mörg sjónarmið til álita og hér eru margs konar og ólíkir hagsmunir til skoðunar. Við þurfum að draga þau öll fram og komast að niðurstöðu í framhaldi af því. Fyrsta skrefið gæti verið ráðstefna þar sem sérfræðingar reifuðu málið út frá náttúruvernd, byggðasjónarmiðum, þjóðhagslegum sjónarmiðum og mannlífinu almennt. Kalla ég hér með eftir hugmyndum um útfærslu slíkrar umræðu.

Af þessu má ljóst vera að ritstjóri Morgunblaðsins getur sofið rólegur því ég er ekki að rjúka til og standa fyrir lagningu á nýjum vegi yfir Kjöl. Og ég get líka fullvissað hann um það að við Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra munum komast að sameiginlegri niðurstöðu í þessu máli. Vonandi verður þetta til þess að kveða niður draugaganginn sem þetta mál hefur vakið upp á ritstjórnarskrifstofum Morgunblaðsins, þó enn muni reimt á Kili eins og segir í kvæðinu góða.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta