Sýnum viljann í verki og ökum varlega
Ástæða er til að fagna mjög framtaki hjúkrunarfræðinganna á Landspítala – háskólasjúkrahúsi um gönguna gegn slysum. Sá mikli fjöldi sem tók þátt í göngunum í Reykjavík, á Akureyri og Selfossi sýnir að mínu mati vel að mál er að umferðarslysum linni. Næsta skref er að aka gegn umferðarslysum og það er á okkar valdi.
Það var vel til fundið að sleppa blöðrum til að minnast þeirra sem látist hafa í umferðarslysum og þeirra sem slasast hafa alvarlega. Þetta var okkur lifandi áminning um fjöldann, að allur þessi fjöldi skuli hafa slasast og látist í umferðinni. Um leið voru blöðrurnar áminning til okkar um það hversu fljótt við gleymum þeim. Við heyrum fréttir af hörmulegum slysum og fyllumst ónotum en síðan líða þær okkur úr minni eins og blöðrurnar sem hurfu.
Við skulum ekki gleyma lengur. Við skulum halda áfram þeirri jákvæðu vitundarvakningu sem hafin er. Höfum í huga ábyrgð okkar sem bílstjóra. Við erum búin að tala lengi um hversu brýnt það er að bæta okkur í umferðinni. Það sem við eigum að gera núna er að láta verða af því.
Við eigum mörg eftir að aka víða um í sumar. Við eigum eftir að fá mörg tækifæri til að sýna að við getum farið eftir umferðarreglum og ekið eftir aðstæðum. Við eigum áreiðanlega líka eftir að lenda í þeirri freistingu að ,,gefa í" undir ákveðnum kringumstæðum. Þá er mikilvægt að minnast þess af hverju við tókum þátt í göngunni – að við ætlum að sýna af okkur ábyrga hegðun og að við ætlum ekki að valda slysi eða lenda í slysi. Sýnum þann styrk að okkur finnist það ekki sniðugt að ,,gefa í". Sýnum þá ábyrgð að spenna alltaf beltin og sýnum þá ábyrgð að aka aldrei undir áhrifum.
Ég vil að lokum þakka hjúkrunarfræðingunum sérstaklega fyrir framtakið. Sýnum viljann í verki og ökum varlega.