Hvatt til ábyrgðar í umferðinni
Ávarp á blaðamannafundi um umferðaröryggismál í aðdraganda verslunarmannahelgarinnar árið 2007.
Ágætu blaða- og fréttamenn
Tilgangur þessa fundar, sem við höldum nú þegar ein mesta ferðamannahelgi ársins er framundan og með aðstoð ykkar fjölmiðlafólks, er að hvetja alla ökumenn til að aka varlega, draga úr umferðarhraða, spenna beltin og muna að blanda ekki áfengi eða öðrum fíkniefnum við aksturinn.
Með þessu sýnum við samfélagslega ábyrgð á þátttöku í umferðinni.
Okkur er öllum hollt að staldra við og brýna okkur sjálf til þess að sýna ábyrgð í umferðinni og raunar ekki aðeins um þessa helgi heldur alltaf.
Þá vil ég einnig koma betur á framfæri upplýsingum, til þeirra ökumanna sem ekki vilja vera ábyrgir þátttakendur í umferðinni, um þau hertu viðurlög við umferðarlagabrotum sem tekið hafa gildi á liðnum vikum og mánuðum.
Jafnframt kynnum við hér skilti og upplýsingar á ensku sem ætlaðar eru erlendum ferðamönnum en það er orðið sífellt mikilvægara að kynna þeim ýmsan séríslenskan vanda sem tengist akstri á íslenskum vegum, hvort heldur hraðamörkin eða akstur á malarvegum svo dæmi séu tekin.
Viðurlög við umferðarlagabrotum, sektir, punktakerfi, svipting ökuleyfis og að gera ökutæki upptæk eru alltaf ákveðið neyðarúrræði sem beitt er þegar akstur manna hefur farið úr böndum.
Því miður hefur hegðun sumra í umferðinni hjá okkur verið þannig að hún kallaði á þessi hertu viðurlög. Lítill hópur verður til þess að löggjafinn setur þröng mörk og þeim er fylgt eftir með öflugu eftirliti og aðhaldi lögreglu
Það er aldrei gaman að refsa eða beita viðurlögum og er ekki markmið heldur tæki til að hafa áhrif á hegðun til að tryggja öryggi annarra.
Við umberum ekki vítaverða hegðun í umferðinni.
Við höfum gnægð dæma um þannig hegðun sem leitt hefur af sér dauða og örkuml. Við kærum okkur ekki um slíka áhættuhegðun í umferðinni.
Þetta vitum við sem ökumenn og langstærsti hluti ökumanna hegðar sér eðlilega í umferðinni og virðir umferðarlög og réttindi annarra.
En ég taldi rétt að hnykkja á þessum atriðum og brýna enn og aftur fyrir okkur öllum að halda áfram vel á spöðunum í umferðinni.
Til þessa hafa mun færri banaslys orðið í umferðinni en á sama tíma í fyrra. Ég minni hins vegar á að verstu mánuðirnir í fyrra voru ágúst og október.
Við megum því hvergi slaka á og við megum ekki láta freistast til glannaskapar. Við vitum aldrei hvað slík augnablik geta kostað.
Við afhendum hér á eftir útdrátt um þessi hertu viðurlög og ég vil aðeins staldra við nokkur atriði varðandi þau.
- Sektir við umferðarlagabrotum hafa verið hækkaðar. Menn eru þegar farnir að finna fyrir því. Sektarupphæðir eru mun hærri, menn fá fleiri punkta í ökuferilsskrá og sviptingu ökuleyfis og akstursbanni er beitt fyrir alvarleg brot.
- Nú er með heimild í umferðarlögum hægt að gera ökutæki upptæk vegna ákveðinna alvarlegra og ítrekaðra brota á lögunum. Þar er bæði um að ræða heimild en í ákveðnum tilvikum er einnig um skyldu að ræða að gera ökutæki upptæk. Mál vegna hugsanlegrar upptöku ökutækja eru þegar í gangi.
- Þá vil ég einnig vekja athygli ungra ökumanna á akstursbanni sem hægt er að beita gegn ökumönnum með bráðabirgðaskírteini.
- Byrjandi í umferðinni, þ.e sá sem hefur bráðabirgðaökuskírteini, skal sæta akstursbanni þegar hann hefur fengið fjóra eða fleiri punkta vegna umferðarlagabrots. Í framhaldinu þarf hann að sitja námskeið og taka próf að nýju. Þetta er harkaleg aðgerð og ljóst að menn þurfa ekki að brjóta oft af sér til að fá fjóra punkta. Þegar ekið er gegn rauðu ljósi eru fjórir punktar skráðir, tveir ef stöðvunarskylda eða forgangur á gatnamótum eru ekki virt og þrír ef gangbrautarréttur er ekki virtur.
Með þessu teljum við unnt að veita ungum ökumönnum strax slíkt aðhald að þeir hugsi sig um áður en ekið er af stað.
- Að lokum vil ég vekja sérstaka athygli á umferðaröryggisáætluninni sem er hluti samgönguáætlunar fyrir árin 2007 til 2010. Þar eru verulegir fjármunir lagðir í hert eftirlit, áróður, fræðslu og aðgerðir á þjóðvegakerfinu þar sem slys hafa verið tíð. Allar þessar aðgerðir miða að því að draga sem mest úr slysum í umferðinni.
Ég vil að lokum biðja fyrir eftirfarandi orðsendingu til ökumanna:
- Sýnum aðgæslu í umferðinni, ökum á löglegum hraða í samræmi við aðstæður með beltin spennt og án vímuefna.
-
Það verður mikil umferð um helgina. Gerum ráð fyrir að allar ferðir okkar taki lengri tíma en vanalega, ætlum okkur meiri tíma. Það er betra að koma of seint í áfangastað en komast alls ekki.
- Sýnum ábyrga hegðun í umferðinni.