Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. nóvember 2007 InnviðaráðuneytiðKristján L. Möller, samgönguráðherra 2007-2010

Gæði og fagmennska eru meginstoðir

Ávarp við upphaf aðalfundar Ferðamálasamtaka Íslands, að Flúðum 15.nóvember 2007.

Það er mér sönn ánægja að fá að ávarpa aðalfund Ferðamálasamtaka Íslands hér í dag, hugsanlega er það mitt eina tækifæri en verði samgöngumál einhvern tímann á dagskrá hjá ykkur er ég reiðubúinn til að mæta aftur.

Á þessum stutta tíma sem ég hef farið með ráðuneyti ferðamála hefur verið lokið við endurskoðun ferðamálaáætlunar 2006-2015, sem forveri minn ýtti úr vör, auk skýrslu um framkvæmd hennar fram að þessu sem ég lagði fram á Alþingi á dögunum. Verki þessu stýrði Magnús Oddsson, ferðamálastjóri af miklum myndarskap.

Einnig lagði öflug nefnd um skemmtiferðaskip nýlega fram tillögur sem snúa að móttöku skipanna, hafnargjöldum og nauðsyn á eflingu markaðsstarfs. Ég vil hvetja fundarmenn til að kynna sér skýrsluna sem er viðamikil og frekar skemmtileg samantekt á þessum geira.

Af öðrum verkefnum nefni ég Grímseyjarferjuna en endurbætur á henni eru komnar vel á veg. Sýnist mér sem þarna sé að verða til spennandi viðbót við ferðaþjónustuna í landinu.

Þá munu málefni Keflavíkurflugvallar færast til samgönguráðuneytis á næstunni og áform um byggingu samgöngumiðstöðvar í Reykjavík eru að verða mjög raunhæf.

Langþráð lenging flugbrautarinnar á Akureyri er komin á dagskrá auk þess sem stefnt er að útboði á göngum á milli Eskifjarðar og Neskaupstaðar.

Allt eru þetta innviðir sem nýtast munu ferðaþjónustunni.

Eins og ykkur er kunnugt þá er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar gert ráð fyrir að málefni ferðaþjónustunnar flytjist frá samgönguráðuneyti til iðnaðarráðuneytis um áramót. Um þetta eru auðvitað skiptar skoðanir en það er mín skoðun að ferðaþjónustan falli vel að verkefnum iðnaðarráðuneytisins á sviði byggðamála, nýsköpunar og jafnvel orkumála. Við þetta bjóðast ný tækifæri sem munu stuðla enn frekar að framgangi ferðaþjónustunnar.

Á næstu tveimur árum verður 180 milljónum varið beint til mótvægisaðgerða í ferðaþjónustu vegna niðurskurðar aflaheimilda og verður aðferðarfræðin við úthlutun fjármunanna kynnt fyrir árslok.

Samgönguráðuneytið er aðili að menningarsamningum við samtök sveitarfélaga um allt land en heildarframlag til þessara samninga hleypur á hundruðum milljóna á ári. Aðild samgönguráðuneytisins er fyrst og fremst til að efla menningartengda ferðaþjónustu. Ég hvet ykkur til að fylgjast með starfi menningarráðsins á ykkar svæði en þau halda utan um framkvæmd samninganna og auglýsa styrki.

Framlög til Ferðamálastofu voru aukin verulega á þessu ári til að standa að rekstri upplýsingamiðstöðva og svæðisbundnu markaðsstarfi og þið í Ferðamálasamtökum Íslands hafið haft mikið um að segja hvernig þessum fjármunum er varið. Markaðsstofur víða um land hafa síðan verið styrktar sérstaklega af stjórnvöldum. Er mjög gott að fundurinn ætli að fara ofan í þau mál hér í dag enda hefur hvert svæði sína sérstöðu og væntanlega sína sýn á hvernig þessum málum skuli háttað.

Ein af meginstoðum íslenskrar ferðaþjónustu og þar með markaðssóknar eru gæði og fagmennska þeirra sem taka á móti ferðamanninum og tryggja að upplifun hans sé í samræmi við væntingar. Því fagna ég því að hér á eftir verði fjallað um menntun og öryggismál sem eru stór hluti af gæðunum.

Fundargestir. - Margs konar nýsköpun og þróun hefur verið innan ferðaþjónustunnar undanfarin ár. Tilraunir hafa verið gerðar sem sumar eru dæmdar til að mistakast en aðrar heppnast vel. Við þurfum að halda áfram á þeirri braut - gera tilraunir og prófa okkur áfram.

Ég er ekki sérfræðingur í ferðamálum eða sérstaklega frjór hugmyndasmiður. En mætti ekki vinna meira út frá hugmyndum um mjög sérhæfðar ferðir, erfiðar gönguferðir, jöklaferðir, skíðaferðir og vetrarferðir á óbyggð svæði, dvelja á Hornströndum í viku í skammdeginu, sambandslaus og háður náttúruöflunum, fá hingað fólk sem vill kynnast einhverju allt öðru en sól og sandi? Getur ekki heilbrigðisþjónustan fengið fólk í aðgerðir sem ferðaþjónustan tekur síðan við og býr til sérhæfðar heilsuferðir eða heilsuvikur hér og þar á landinu?

Ég veit að þið hafið miklu fleiri hugmyndir og vil brýna ykkur til dáða á ykkar mikilvæga vettvangi! Ég óska ykkur að lokum góðs aðalfundar og ánægjulegrar dvalar hér á Flúðum. Ferðamálasamtökum Íslands óska ég farsældar í störfum sínum. Takk fyrir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta