Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. desember 2007 InnviðaráðuneytiðKristján L. Möller, samgönguráðherra 2007-2010

Er tvöföldun þjóðvega lúxus?

Svar við grein Rögnvalds Jónssonar - Morgunblaðið 23.desember 2007.

RÖGNVALDUR Jónsson verkfræðingur var nýlega með ágætar vangaveltur í Morgunblaðinu um öryggi vega og varpar spurningum til samgönguráðuneytisins. Umræðan um 2+1 eða 2+2 vegi, kostnað og umferðaröryggi er þörf og við eigum sífellt að hafa samhengi þessara atriða að leiðarljósi.

Rétt er að ákveðið hefur verið að hefjast handa um tvöföldun Hringvegarins allt milli Borgarness og Selfoss. Það er stórvirki sem kosta mun mikla fjármuni og að sama skapi bæta umferðaröryggi.

Rögnvaldur Jónsson bendir líka á að með því að leggja í nokkru viðaminni vegagerð eða 2+1 veg verður framkvæmdin til muna ódýrari en 2+2 vegur og því unnt að setja þá fjármuni í uppbyggingu slíkra vega annars staðar á landinu eða að byggja upp almennilega þjóðvegi á strjálbýlum svæðum.

En er málið svona einfalt? Hér á eftir mun ég leitast við að svara spurningum Rögnvaldar:

1) Hvaða ástæður mæla með því að byggja 2+2 vegi í stað 2+1 vegi til Selfoss og Borgarness?

Ársdagsumferð (meðaltalsumferð á dag yfir árið) um Suðurlandsveg milli Reykjavíkur og Selfoss er 6 til 9 þúsund bílar eftir hvaða kafla er um að ræða. Um Vesturlandsveg milli Reykjavíkur og Borgarness er umferðin heldur minni eða milli 3.600 og 4.000 bílar á kaflanum milli Hvalfjarðarganga og Borgarness. Í báðum tilvikum er umferðin mest næst borginni.

Ef horft er til staðla um afköst vega er deginum ljósara að 2+1 vegur myndi anna umferð um þessa vegarkafla nema allra næst borginni næstu 10 ár og næstu 20 ár þegar horft er til umferðar lengra frá borginni. Hér er miðað við þá tilhneigingu í aukningu umferðar sem verið hefur síðustu árin.

Banaslys og alvarleg slys á þessum vegarköflum hafa knúið á aðgerðir. Lagning 2+1 vegar myndi bæta stórlega úr og ekki síst það atriði að aðskilja akstursstefnur. En menn hafa þrýst á um að gengið sé lengra en þetta, að vegirnir verði tvöfaldaðir. Þar er átt við íbúa, sveitarstjórnarmenn og alþingismenn. Reynsla vegfarenda af nýlegum 2+1 kafla yfir Svínahraun hefur frekar ýtt undir þrýsting á að farið verði strax í 2+2 veg á Suðurlandsvegi en sumir hafa talið hann of mjóan.

Samgönguyfirvöld stóðu því frammi fyrir þeirri spurningu hvort ráðast eigi í tvöföldun á umræddum vegum strax eða láta 2+1 vegi duga. Ákveðið var að fara þessa leið með þeim rökum að slysatíðnin myndi lækka og fjárfesta í vegum sem duga myndu til langrar framtíðar.

2) Telur ráðuneytið það réttlætanlegt að fresta framkvæmdum með því að byggja 2+2 vegi í stað 2+1 vegi?

Bréfritari gefur sér að öðrum framkvæmdum verði frestað meðan mikið fjármagn þarf að fara í tvöföldun. Miðað við framlög samkvæmt samgönguáætlun sem nú er unnið eftir verður í engu slakað á framkvæmdum annars staðar á landinu. Vil ég þar nefna Sundabraut sem er í undirbúningi, Bolungarvíkurgöng sem byrjað verður á næsta ár, Vaðlaheiðargöng sem eru á teikniborðinu, lagfæringu vegar milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar sem hefst næsta ár og ný Norðfjarðargöng sem eru í undirbúningi. Allt þetta er til þess fallið að auka umferðaröryggi.

3) Hvaða röksemdir eru fyrir því að setja svona mikla fjármuni í 2+2 vegi í staðinn fyrir 2+1 vegi þegar vegakerfið er að stórum hluta ófullkomið hvað varðar m.a. breidd vega, burðarþol, umferðaröryggi o.fl.?

Svarið er að nokkru leyti komið fram hér að framan. Rökin fyrir tvöföldun er umferðarþunginn og aukið öryggi sem bréfritari telur lúxus þar sem ná megi svipuðum árangri með 2+1 vegum. En ég ítreka að þessar fjárfreku framkvæmdir munu ekki tefja framgang annarra verkefna. Það er rétt sem felst í spurningunni að margt er enn ógert í vegakerfi okkar en þar verður í engu slakað á og unnið að umbótum á næstu árum í krafti aukinna fjárframlaga.

Árin 1966 til 2005 létust 56 vegfarendur í umferðarslysum á Reykjanesbraut en frá því hluti hennar var tvöfaldaður árið 2004 hefur ekkert banaslys orðið þar þó vissulega hafi orðið þar alvarleg slys.

Nýlega fjölluðu norskir fjölmiðlar um það að norska vegagerðin er orðin fráhverf þriggja akreina vegum. Reynsla Norðmanna af E6-veginum, en hann er 2+1 og 107 kílómetra langur, er sú að um leið og komið sé inná tvöfalda kaflann hefjist kappakstur og eins rétt áður en tvöfölduninni lýkur. Á síðustu 18 árum hefur, samkvæmt frétt í 24 stundum, orðið þar 21 banaslys en þar eru akstursstefnur reyndar ekki aðgreindar með vegriði. Þetta þýðir þó ekki að þriggja akreina vegir geti ekki átt ágætlega við íslenskar aðstæður.

Staðreyndin er hins vegar sú að umferðarspár sýna að umferð á Suðurlandsvegi, svo dæmi sé tekið, verður á næstu tólf árum komin allt upp í 23.000 bíla á sólarhring en talið er að þriggja akreina vegur geti vel þjónað 15.000 bílum.

Vilji samgönguyfirvalda er hinn sami og vilji allra íbúa: Að umferðarslysum fækki. Til að svo megi verða þarf tvennt: Góð mannvirki og góða hegðun í umferðinni. Ef við leggjum okkur fram á þessum tveimur sviðum náum við árangri. Hvort tveggja eru verkefni sem vinna þarf að í bráð og lengd.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta