Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. mars 2008 InnviðaráðuneytiðKristján L. Möller, samgönguráðherra 2007-2010

Háhraðanet um allt land

Grein um uppbyggingu háhraðanets - 24 stundir 29.mars 2008.

Eitt af markmiðum ríkisstjórnarinnar er að koma á háhraðanettenginu um land allt. Víðtæk sátt hefur náðst um það í samfélaginu að hér sé um að ræða eitt það mesta framfaraverkefni fyrir byggð í landinu sem hægt er að ráðast í. Góð nettenging við umheiminn felur ekki bara í sér aukin þægindi fyrir þá sem hennar njóta, heldur er hún forsenda atvinnuþróunar og vaxtar á 21.öldinni. Uppbygging háhraðanets um land allt er því bæði aðkallandi og skynsamleg aðgerð, sem skapar breiðari grundvöll undir vöxt og viðgang þjóðfélagsins alls.

1200 staðir

Markaðsaðilar hafa þegar komið á háhraðanetteningu víðast hvar. Hlutverk ríkisvaldsins er annars vegar að styðja við þá uppbyggingu, en hins vegar – og ekki síður – að sjá til þess að háhraðanettenging sé lögð til þeirra staða þar sem ekki er ætlun fyrirtækja að gera það á markaðslegum forsendum.

Fjarskiptasjóður stóð fyrir því að kortleggja þessa staði og tók í þeirri vinnu mið af áætlunum markaðsaðila. Upphaflega var talið að á annað hundrað staðir á landinu stæðu fyrir utan áætlanir markaðsaðila og þyrftu sérstakar aðgerðir, en þegar upp var staðið kom í ljós að þetta átti við um ríflega 1200 staði. Með stöðum er átt við að lágmarki eitt lögheimili með heilsársbúsetu og/eða fyrirtæki með starfsemi allt árið.

Enginn situr eftir

Aðkallandi er að þessi staðir sitji ekki eftir og njóti verri skilyrða til búsetu og atvinnulífs en aðrir staðir á landinu. Mikilvægt er að koma á tengingu á þessa staði sem fyrst og hefur nú þegar verið ráðist í útboð á því verki. Útboðið var auglýst nú í febrúar og rennur frestur til að skila inn tilboðum út þann 31.júlí.

Verkefnið felur í sér stuðning ríkisvaldsins vegna viðbótarkostnaðar við uppbyggingu á háhraðanettengingum á þessum skilgreindu stöðum.Tilboðin verða metin út frá m.a. hraða við uppbygginguna, gagnaflutningshraða auk tilboðsfjárhæðar. Ástæðan fyrir löngum útboðstíma er meðal annars sú að fjarskiptafyrirtækin þurfa að meta hvernig best er unnt að koma fyrir tengingum hjá hverjum og einum þeirra rúmlega 1200 staða sem falla undir útboðið.

Unnið að málinu á háhraða

Að lokinni þessari framkvæmd verður íbúum á þessum svæðum tryggð háhraðanettenging og tilheyrandi þjónusta allt til ársins 2014 hið minnsta. Sá áfangi þýðir í raun og veru að markmið ríkisstjórnarinnar um að koma á háhraðanetengingu um land allt – með öllum þeim möguleikum sem þá skapast fyrir byggðarþróun og atvinnuuppbyggingu í landinu – hefur náðst. Rösklega hefur verið gengið til verks í þessu máli. Engum ætti að dyljast, að ætlun mín og ríkisstjórnarinnar er að vinna að þessu framfaraverki á háhraða.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta