Umferðarþing 2008
Góðir ráðstefnugestir.
Enn á ný blásum við til umferðarþings til að fjalla um ýmis áhugaverð efni sem tengjast umferðaröryggi. Við heyrum meðal annars af umferðaröryggisáætlun, um það markmið að útrýma banaslysum, um EuroRap vegamatið, endurskoðun umferðarlaga og margt fleira.
Alltof oft höfum við rifjað upp tölur sem snúast um slys í umferðinni, kostnað þjóðfélagsins og einstaklinganna við slysin og um leið höfum við reynt að gera okkur grein fyrir þeim mannlega harmleik sem hvert og eitt slys veldur. Það er óþarfi að fara út í þá umræðu hér - við þekkjum alltof vel þennan raunveruleika sem blasir of oft við okkur.
Að þessu sinni langar mig til að staldra við umferðaröryggisáætlunina sem er hluti af samgönguáætlun. Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri mun annars gera nánari grein fyrir henni hér á eftir. Við spyrjum kannski til hvers er umferðaröryggisáætlun? Er þetta ekki allt í sómanum, við höfum lög og reglur, eigum góða bíla og erum góðir ökumenn? Nei, því miður er þetta ekki alveg svona einfalt.
Reynslan sýnir okkur að umferðaröryggisáætlunin er það tæki sem við getum beitt með mestum árangri til að fækka umferðarslysum. Það er vegna þess að hún tekur til allra þátta umferðar og samgangna, allt frá hönnun mannvirkja til hegðunar okkar í umferðinni - sem bílstjórar og gangandi eða hjólandi vegfarendur allt frá unga aldri.
Þess vegna setjum við fram markmið í umferðaröryggisáætlun. Þar kemur fram metnaður okkar sem höfum umsjón með þessum málaflokki og um leið á áætlunin að vera öðrum aðilum hvatning til dáða á þessu sviði. Þar nefni ég til dæmis sveitarfélögin og við fáum að heyra hér á eftir fróðleik frá Danmörku um það. En sveitarfélögin eru nauðsynlegur aðili að umferðaröryggisáætlun því þau reka að stærstum hluta gatnakerfi innan sinnar lögsögu. Þess vegna skiptir miklu máli að þau setji sér markmið líka.
Ég ætla einnig að gera að umtalsefni þann vanda sem við stöndum stundum frammi fyrir þegar aldurinn færist yfir. Við vitum alveg að ýmsir hæfileikar okkar dvína með aldrinum og jafnvel glatast alveg. Ég þarf ekki að minnast á að við gerumst gleymin, töpum heyrn, sjónin daprast og snerpan minnkar. Hvaða áhrif hefur þetta á okkur sem ökumenn? Engin áhrif, segjum við og teljum okkur alltaf jafn hæf til að allra hluta. En auðvitað er það ekki svo en hver á að segja okkur það þegar bílprófið er annars vegar.
Um þennan vanda verður fjallað sérstaklega hér á eftir og ég veit að hann er ekki auðveldur viðureignar. Læknar bera mikla ábyrgð þegar þeir eru beðnir um vottorð til að framlengja ökuskírteini fyrir aldraða. Hvernig á að segja þeim að þeir séu ekki færir um að aka bíl? Okkur finnst nefnilega svo mikil mannréttindi felast í bílprófinu. Ferðafrelsið skerðist, við getum bara alls ekki hreyft okkur ef við höfum ekki bílpróf. Það verður fróðlegt að heyra hvað er til ráða á þessu sviði.
Við heyrum líka hér á eftir af einkunnagjöf eða gæðamati íslenska vegakerfisins. Með aðferð EuroRap er lagt ískalt mat á það hvernig vegunum er háttað og umhverfi þeirra. Komið hefur í ljós að úrbóta er víða þörf en það eru einnig langir kaflar í vegakerfinu þar sem þeir teljast góðir og umhverfi þeirra með besta móti. Vegagerðin hefur líka á síðustu árum tekið umferðaröryggismál enn fastari tökum og horft til öryggisþátta strax við hönnun samgöngumannvirkja.
Umferðarljósið afhent
Góðir ráðstefnugestir.
Í lokin fæ ég það ánægjulega hlutverk að afhenda umferðarljósið - viðurkenninguna sem er veitt þeim einstaklingi, samtökum eða stofnun sem unnið hafa sérstaklega árangursríkt eða eftirtektarvert starf á sviði umferðaröryggismála.
Megintilgangur verðlaunanna er að hvetja til góðra og þýðingarmikilla starfa sem stuðla að betri og öruggari umferð. Umferðarljósið var fyrst veitt árið 1990 og er það nú veitt í 8. sinn. Jafnan er Umferðarljósið afhent á Umferðarþingi.
Það er skemmst frá því að segja að það eru stjórnendur útvarpsþáttarins Reykjavík sídegis á Bylgjunni sem fá Umferðarljósið í ár.
Hlutverk fjölmiðla í umferðaröryggisstarfinu er mjög mikilvægt. Fjölmiðlar eiga ríkan þátt í því að koma mikilvægum boðskap á framfæri, boðskap sem skapar örugga umferð. Þeir eru einnig afar mikilvegur þáttur í að veita stjórnamálamönnum og embættismönnum sem starfa að umferðarmálum aðhald og stundum veitir ekki af. Það er óhætt að segja að íslenskir fjölmiðlar hafi almennt séð gegnt þessu hlutverki vel, sérstaklega á undanförnum misserum. Er það vel því flestir landsmenn hafa skoðanir á umferðinni þar sem hún snertir líf fólks með svo áþreifanlegum hætti á degi hverjum.
Að öðrum ólöstuðum hafa umsjónarmenn útvarpsþáttarins ,,Reykjavík síðdegis”, þeir Þorgeir Ástvaldsson, Kristófer Helgason, Bragi Guðmundsson og áður Ásgeir Páll Ágústsson verið fundvísir á áhugaverð málefni, ekki hvað síst í sambandi við umferð og umferðaröryggi. Meðal þess sem einkennir þætti þeirra og umfjallanir, er að oftar en ekki er kafað dýpra ofan í málin en almennt gerist og þannig koma fram ólík viðhorf og sjónarhorn, sem efla skilning fólks á viðfangsefninu.
Þeirra styrkur er að þeir eru í beinu sambandi við hlustendur og hika ekki við að leita til þeirra sem þekkingu hafa á einstökum sviðum þegar umferðarmál eru til umræðu. Einnig virðast þeir vera vakandi vegfarendur, því að oft brydda þeir upp á einhverju sem þeir sjálfir hafa séð eða upplifað. Öll umfjöllun þeirra félaga hefur verið í anda þess að gera umferðina örugga fyrir alla vegfarendur.
Þáttastjórnendur Reykjavíkur síðdegis eru með athyglina á því sem máli skiptir, ekki hvað síst varðandi umferðaröryggi. Þá athygli mega vegfarendur taka sér til eftirbreytni. Að athygli þeirra sé óskert - á því sem máli skiptir í umferðinni. Framlag þáttarins Reykjavík síðdegis til þess að allir megi komast heilir heim er þakkarvert. Þess vegna eru þeir Þorgeir, Kristófer og Bragi handhafar Umferðarljóssins í ár.
Þeir félagar hafa iðulega hringt í mig til að spyrja frétta eða álits á ýmsu er varðar samgöngur, umferð og öryggi. Ég hef alltaf talið mér það bæði ljúft og skylt að bregðast við kalli þeirra enda er umfjöllunin í síðdegisþætti Bylgjunnar þýðingarmikið innlegg í þessa umræðu. Ég þykist vita að þeir muni halda áfram á þessari braut og á grænu ljósi. Ég óska þeim til hamingju með þessa viðurkenningu og þeir eru vel að henni komnir.