Ýmsar aðgerðir í þágu sveitarfélaga
Ávarp Kristjáns L. Möller samgönguráðherra sem hann flutti við setningu landsþings Sambands ísl. sveitarfélaga 13. mars 2009.
Hér fer á eftir ávarp Kristjáns L. Möller samgönguráðherra sem hann flutti við setningu landsþings Sambands ísl. sveitarfélaga 13. mars.
Mér er það mikil ánægja að vera aftur gestur á landsþingi ykkar sem nú er að hefjast. Viðamikil mál eru á dagskránni sem krefjast ítarlegrar umræðu og afgreiðslu.
Mér finnst ánægjulegt að sjá, að þrátt fyrir efnahagsástandið og þann bráðavanda sem ríkir og sveitarfélög eiga nú við að etja, að þið sveitarstjórnarmenn ætlið einnig á þessu landsþingi að horfa til framtíðar. Það er brýnt, um leið og við gerum okkar besta við að sinna daglegum viðfangsefnum, að menn gefi einnig gaum að framtíðinni, marki sér stefnu í hinum ýmsu málaflokkum og stuðli þannig að frekari framþróun í samfélagi okkar. Ekki veitir af á tímum sem þessum og því fagna ég að málefni eins og hugmyndir um aukið lýðræði í sveitarfélögum og Evrópumál skuli vera á dagskrá landsþingsins. Bæði þessi umfjöllunarefni eru afar brýn, ekki bara fyrir sveitarstjórnarstigið heldur einnig fyrir samfélagið í heild.
Við sem störfum á vettvangi landsmálanna verðum einnig að leitast við að gera slíkt hið sama, þó við séum engu að síður í sömu andránni önnum kafin við hið mikla björgunarstarf að reisa samfélag vort við eftir efnahagshrunið, koma hjólum atvinnulífsins í gang og verja hag heimilanna í landinu. Þó stutt skerf sé nú stigið með því frumvarpi sem nú liggur fyrir til breytinga á stjórnarskránni, markar það engu að síður mikilvægt upphaf að hinu nauðsynlega endurbótaferli sem þarf að að eiga sér stað á stjórnarskránni og hinni lýðræðislegri umræðu og umgjörð í landinu.
Það er mikilvægt að þið sveitarstjórnarmenn horfið til framtíðar hvað varðar breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það er þess vegna ánægjulegt að við skyldum hafa sameinast um þá viljayfirlýsingu sem undirrituð verður hér í hádeginu, sem varðar veginn fyrir áframhaldandi vinnu við það verkefni.
Á samráðsfundi okkar og fjármálaráðherra með formanni ykkar og framkvæmdastjóra í vikunni var upplýst að við fjármálaráðherra höfum sameiginlega ákveðið að þegar verði hafist handa við að endurskoða lög um tekjustofna sveitarfélaga. Nefnd verður skipuð fulltrúum alla stjórnmálaflokka á Alþingi auk fulltrúa ykkar og okkar. Meðal verkefna nefndarinnar er að móta það hvernig staðið verður að tekjutilfærslu til sveitarfélaga í tengslum við yfirfærslu á verkefnum frá ríki. Nefndin á að vinna hratt og vænti ég þess að tillögur hennar geti legið fyrir eigi síðar en um áramótin. Jafnframt vil ég geta þess að starfandi er nefnd sem endurskoðar heildstætt reglur Jöfnunarsjóðs, en Flosi Eiríksson bæjarfulltrúi í Kópavogi leiðir þá vinnu.
Það hefur valdið mér áhyggjum að illa hefur gengið að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum og þrátt fyrir umbætur hvað þetta varðar síðustu áratugina þá hallar enn verulega á konur. Við síðustu sveitarstjórnarkosningar 2006 voru kjörnar 189 konur í sveitarstjórnir, eða 36% og karlar 340 eða 64%. Í fimm sveitarfélögum var engin kona kjörin í sveitarstjórn.
Ég hef því ákveðið að skipa starfshóp sem fær það hlutverk að meta leiðir og koma með tillögur um aðgerðir til stjórnvalda sem miðað geta að því að jafna betur stöðu kynjanna í sveitarstjórnum. Starfhópurinn verður skipaður fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi. Ég teldi það vera æskilegt markmið fyrir þessa vinnu að hlutfall kvenna og karla í sveitarstjórnum verði sem næst 50% á landsvísu við sveitarstjórnarkosningarnar 2010 og að engin sveitarstjórn verði einvörðungu skipuð öðru kyninu. Ég óska eftir góðu samstarfi við ykkur, sveitarstjórnarmenn góðir, um þetta mikilvæga verkefni.
Stuttu eftir að efnahagsvandinn skall á okkur í haust af fullum þunga var komið á nánu samráði milli samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það fólst meðal annars í því að ég hitti reglulega formann ykkar og aðra lykilmenn Sambandsins og bæði við í ráðuneytinu og starfsmenn ykkar hafa gert sér far um að skiptast reglulega á upplýsingum. Á þessum samráðsvettvangi höfum við til dæmis getað tekið fljótt á ýmsum málum og hugmyndum sem upp hafa komið og varða stöðu sveitarfélaga. Ýmsar óskir og verkefni höfum við náð að leysa en vissulega hefur ekki verið hægt að verða við öllum ítrustu óskum um aðgerðir. Ég vil þó leyfa mér að vona að þessar aðgerðir hafi veitt einhverja viðspyrnu í því mikilvæga verkefni að varðveita grunnþjónustuna og velferð borgaranna.
Hámarksútsvar var hækkað úr 13,03 í 13,28 prósent. Hækkunin ætti að geta skilað sveitarfélögum á landsvísu um tveimur milljörðum króna í auknar tekjur miðað við fullnýtingu. Það eru hins vegar aðeins um 2/3 hluti sveitarfélaganna sem nýta sér hámarksálagningu, önnur virðast ekki hafa þörf fyrir þessar tekjur og það leiðir auðvitað hugann að því hvort innbyrðis tekjuskipting sveitarfélaga þurfi ekki frekari skoðunar við. Þetta tel ég að verði að kanna sérstaklega í tengslum við endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga og heildarendurskoðun á reglum Jöfnunarsjóðs.
Aukaframlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga var jafnframt tryggt, þó svo að það hafi lækkað um 400 milljónir á milli ára. Ríkið féll hins vegar frá þeirri kröfu að lækka álagningarprósentu í B hluta fasteignaskatts, sem hefði þýtt tekjulækkun fyrir sveitarfélög sem var að minnsta kosti sama fjárhæð eða um 430 milljónir króna.
Lög hafa nú verið samþykkt á Alþingi sem eru til hagsbóta fyrir sveitarfélög varðandi endurgreiðslu gatnagerðargjalda, en ekki var hægt að láta þær reglur gilda afturvirkt eins og gefur að skilja. Mikilvægt er þó í því sambandi að verðbætur á endurgreiðslu gjaldanna hefur nú verið afnumin.
Þá hafa verið samþykkt lög frá Alþingi sem gerir ráð fyrir því að almenningur geti tekið út séreignasparnað sinn að ákveðnu marki á þessu og næsta ári. Þetta mun færa sveitarfélögum útsvarstekjur af lífeyrisgreiðslum fyrr en ella hefði orðið og kemur þeim vel á tímum sem þessum, en búast má við því að um 40 milljarðar króna verði greiddir út á þessum grundvelli.
Frumvarp um Bjargráðasjóð er komið í þingið. Þar er lagt til að sveitarfélögin hætti aðkomu sinni að sjóðnum og fái greiddan út eignarhluta sinn, sem er allt að 250 milljónir króna. Jafnframt fellur niður skylda sveitarfélaga til að borga til sjóðsins frá og með þessu ári, sem er allt að 50 milljónir króna á ári.
Ágætu sveitarstjórnarmenn.
Ég kemst ekki hjá því að fjalla örlítið um samgönguframkvæmdir þar sem þær snerta íbúa sveitarfélaga um landið allt. Þrátt fyrir niðurskurð uppá meira en 6 milljarða króna verður árið eitt það umfangsmesta í Íslandssögunni hvað samgönguframkvæmdir varðar.
Í ár höldum við áfram verkefnum sem komin voru í gang í fyrra fyrir um 15 milljarða króna og bjóðum út ný verkefni fyrir um 6 milljarða. Þetta þýðir að verktakar um land allt eru með ýmis vegagerðarverkefni og fleiri eru framundan. Þetta er í þágu þess að halda uppi sem mestri atvinnu enda er atvinnuleysi einn alvarlegasti vandinn sem yfirvöld þurfa að glíma við um þessar mundir.
Ég vil einnig minnast hér á háhraðanettengingarnar sem fjarskiptasjóður samdi nýlega við Símann um að annast að undangengnu útboði. Tilboðin voru opnuð í haust rétt fyrir hrun og kom í ljós að tilboð Símans var það hagstæðasta. Talsverðan tíma tók að ganga frá samningum enda að mörgu að hyggja vegna breytts efnahagsumhverfis. En verkefnið er komið í gang á hagstæðum kjörum og í ár og á næsta ári verða kringum 1.800 sveitabæir og vinnustaðir tengdir. Þar með munu landsmenn allir sitja við sama borð þegar háhraðanetsamband er annars vegar enda er það löngu orðinn eðlilegur og sjálfsagður þáttur í daglegu lífi okkar.
Vík ég þá að eflingu sveitarstjórnarstigsins og stækkun sveitarfélaga.
Á aðalfundum landshlutasamtaka sveitarfélaga á liðnu hausti og víðar hef ég talað fyrir því að brýnt sé að hækka lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga. Hef ég sett fram íbúafjöldann eitt þúsund í stað 50 eins og nú er enda sér það hvert mannsbarn að rekstrareining með 50 íbúum er ekki burðug.
Frumvarp var lagt fyrir þingflokkanna í október eða nóvember og átti síðan að fara sína leið á Alþingi en málið hafði ekki verið afgreitt þegar skipt var um ríkisstjórn. Kemst það ekki á dagskrá nú þegar önnur mál er varða efnahag og aðgerðir hafa forgang. En ég fagna þeim sameiningarviðræðum sem nú eru hafnar, meðal annars milli Grímseyjar og Akureyrar, Djúpavogs og Fljótsdalshéraðs og ánægjulegt var að heyra áðan af áhuga á sameiningu Bolungarvíkur, Ísafjarðarbæjar og Súðavíkur.
Það er bjargföst skoðun mín, að ef ætlunin er að efla sveitarstjórnarstigið með auknum verkefnum og breytingum á tekjustofnum verður ekki hjá því komist að huga að stærð sveitarfélaganna. Núverandi sveitarstjórnarskipan er alvarleg hindrun fyrir því að við getum náð markmiðum um að efla sveitarstjórnarstigið, sem við erum öll sammála um og þið sveitarstjórnarmenn hafið margsinnis ályktað um.
Það er eins með þetta eins og Evrópumálin, við getum ekki haldið áfram að ræða hvað sé mikilvægt að gera eitthvað, en láta svo þar við sitja. Við verðum að taka ákveðin skref í sameiningarmálum. Leið frjálsra sameininga er ekki fær eða í besta falli of seinfær, það höfum við fengið að sjá, aðrar leiðir verður að fara.
Mig langar til þess að nota tækifærið hér, kæru sveitarstjórnarmenn, og bera undir ykkur þann valkost, að í stað þess að reynt verði að ná fram sameiningu með hækkun lágmarksíbúafjölda verði farin sú leið að skoða hvert landsvæði fyrir sig og meta þá sameiningarkosti sem þar koma til greina.
Til þessa verkefnis yrði settur starfshópur skipaður fulltrúum Sambandsins og ríkis sem auk sérfræðinga myndi þannig skoða hvern landshluta fyrir sig, setja fram tillögur um raunhæfa sameiningarkosti sem ná markmiði um heildstætt atvinnu- og þjónustusvæði, og eru jafnframt liður í að styrkja og efla sveitarstjórnarstigið. Jafnframt yrði metið hvort og þá hvaða aðrar aðgerðir þyrftu að eiga sér stað sem stuðlað gætu enn frekar að samþættingu og eflingu viðkomandi byggðarlags, svo sem á sviði samgangna, fjarskipta eða í byggðalegu tilliti. Íbúafjöldinn sem slíkur verður þá í öðru sæti eða með öðrum orðum við hengjum okkur ekki í þúsund eða 500 íbúa lágmark heldur horfum til áðurnefndra atriða fyrst og fremst.
Þegar tillögur liggja fyrir myndi ég leggja málið fyrir Alþingi til frekari afgreiðslu. Þar koma til greina tvær leiðir. Annars vegar að leggja fram tillögu til þingsályktunar sem byggð verður á tillögum starfshópsins. Með samþykkt hennar yrði samgönguráðuneytinu falið að leggja fram frumvarp um ákveðnar sameiningar eða stækkanir sveitarfélaga og næsta þing myndi síðan fjalla um frumvarpið sjálft. Við meðferð Alþingis yrði síðan leitað álits sveitarfélaga.
Hin leiðin væri sú að leggja strax fram frumvarp um sameiningartillögur og að afgreiðsla þess á Alþingi yrði tekin í einu skrefi. Þar með væri settur fram vilji stjórnvalda um eins konar sameiningaráætlun með tímasetningu og fjárhagsáætlun.
Báðar snúast þessar hugmyndir um það að hið æðsta lýðræðislega kjörna vald ákveði hvernig háttað yrði stækkun og eflingu sveitarfélaga landsins, sem ég sé fyrir mér að geti gerst frá og með almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2014.
Þessi leið til sameiningar hefur verið farin m.a. á Norðurlöndum, nú síðast í Grænlandi þar sem sveitarfélögum er fækkað úr 18 í 4.
Ég leyfi mér að slá þessu fram hér – þetta er í rauninni sama verkefnið, stækkun og efling sveitarfélaga en aðferðafræðin er önnur.
Góðir landsfundafulltrúar.
Ég hef nú farið vítt og breitt yfir það sem er á verkefnaskrá okkar í ráðuneyti sveitarstjórnarmála. Eins og þið sjáið er ýmislegt á dagskrá, sumt gengur hratt fyrir sig en annað hægar og stundum hægar en bæði þið og við hefðum kosið. Ný verkefni bætast stöðugt við og þannig er yfirleitt af nógu að taka í sveitarstjórnarmálum rétt eins og í öðrum verkefnum ráðuneytisins.
Ég fagna því að hafa átt góð samskipti og gott samstarf við forystu Sambands íslenskra sveitarfélaga og sveitarstjórnarmenn hér og þar um landið. Okkur í ráðuneytinu er nauðsynlegt að vera í góðu sambandi við ykkur – og ég leyfi mér að vona að það sé gagnkvæmt.