Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. september 2009 InnviðaráðuneytiðKristján L. Möller, samgönguráðherra 2007-2010

Sókn er besta vörnin

Kristján L. Möller flutti ræðu á málþingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi 26. ágúst þar sem rætt var um eflingu sveitarfélaga og búsetu á Austurlandi undir yfirskriftinni Sókn er besta vörnin. Ráðherra ræddi í upphafi stöðu ríkissjóðs og sveitarfélaga og fór yfir ýmsar aðgerðir sem ríkisstjórnin og sveitarfélög vinna að sameiginlega til að mæta efnahagserfiðleikunum. Í lokin setti hann fram nokkra möguleika á sameiningu sveitarfélaga á Austurlandi.

Samgönguráðherra ávarpar fundarmenn á ráðstefnunni  Sókn er besta vörnin
Sókn er besta vörnin

Sókn er besta vörnin – eflum sveitarfélögin
Ráðstefna á Egilsstöðum 26. ágúst 2009

Ávarp samgönguráðherra

Góðir fundarmenn.

Það er ánægjulegt að sitja þetta málþing með ykkur undir yfirskriftinni sókn er besta vörnin fyrir Ísland í dag og að við erum sammála um að efling sveitarstjórnarstigsins sé sú sókn sem við þurfum á að halda nú.

Það er mikill áhugi á því að efla sveitarstjórnarstigið, ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á það eins og fram kemur í stjórnarsáttmálanum og Samband sveitarfélaga hefur margítrekað stuðning sinn við áform um eflingu þess.

Ég hef alla tíð lagt áherslu á þetta verkefni, ekki einvörðungu frá því að ég settist í stól samgönguráðherra, heldur einnig áður sem þingmaður og enn fyrr sem sveitarstjórnarmaður. Ég hef kappkostað að efla samskipti ráðuneytis og sveitarstjórnarmanna, bæði formleg og óformleg og nú er unnið að allmörgum verkefnum í stjórnarráðinu sem tengjast umræðuefni dagsins: Að efla sveitarfélögin.

Sóknaráætlun og svæðisbundin samvinna

Undir forystu forsætisráðuneytisins er nú unnið að gerð sóknaráætlana fyrir alla landshluta til eflingar á atvinnulífi og lífsgæðum til framtíðar. Markmiðið er að kalla fram sameiginlega framtíðarsýn og að samþættar verði áætlanir í samgöngum, fjarskiptum, ferðamálum og byggðaáætlanir auk áætlana um eflingu sveitarstjórnarstigsins og fleiri þátta.

Það er ekki nokkur spurning að þessi áform, sem Dagur B. Eggertsson stýrir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, mun hafa veruleg áhrif í þá átt bæði að dreifa valdi og auka ábyrgð einstakra landsvæða á eigin málum. Þetta áhugaverða verkefni verður kynnt sérstaklega hér á eftir.

Ný skýrsla nefndar sem Hólmfríður Sveinsdóttir stýrði gefur gott yfirlit yfir svæðisbundna samvinnu sveitarfélaga og er mikilvægt innlegg í vinnu Dags um sóknaráætlanir. Meginspurningin er sú hvernig við getum nýtt þá svæðasamvinnu sem fyrir er, þ.e. landshlutasamtökin, eða að hve miklu leyti við verðum horfa til stærri eininga. Einnig þarf að huga að því hvernig við endurskipuleggjum svæðasamvinnuna með hliðsjón af Evrópusamvinnu, óháð því hvort við göngum í ESB eða ekki. Hólmfríður mun kynna niðurstöður sínar hér á eftir.

Verkaskipting

Metnaðarfull áform eru uppi varðandi breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og er unnið að því af hálfu sameiginlegrar verkefnisstjórnar ríkis og sveitarfélaga. Samkvæmt þeim áformum verða málefni fatlaðra komin til sveitarfélaganna árið 2011 og málefni aldraðra árið 2012. Ég sé það fyrir mér að næsta skrefið verði að skoða heilsugæsluna og þar á eftir framhaldsskólann.

Það má ljóst vera eftir geysi fjölmennan undirbúningsfund í vor að mikill áhugi er á að samþætta opinbera velferþarþjónustu og það er skoðun mín að afar mikilvægt sé að verkefnið gangi eftir eins og áætlanir gera ráð fyrir.

Þetta mun efla sveitarstjórnarstigið og færa meiri ábyrgð á málum heim í hérað. Við höfum áætlað að umsvif sveitarfélaga í búskap hins opinbera muni aukast um 5 til 7 prósentustig við þessa breytingu á verkaskiptingu. Allmörg sveitarfélög hafa þegar tekið við þessu verkefni með góðum árangri.

Stærð sveitarfélaga er þó ákveðin hindrun og ræðir verkefnisstjórnin því um að mynda þurfi þjónustusvæði fyrir verkefnaflutning þar sem fjöldi íbúa yrði ekki minni en sjö þúsund.

Tekjustofnar

Nefnd undir forystu Gunnars Svavarssonar vinnur nú að endurskoðun laga um tekjustofna sveitarfélaga. Nefndin er skipuð fulltrúum allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi og Samband sveitarfélaga á þar þrjá fulltrúa. Tekjustofnar þurfa að vera í sífelldri endurskoðun og þróun en verkefnið er ekki einfalt og væntanlega munu efnahagsaðstæður takmarka að einhverju leyti mögulegar breytingar. Það verður þó að skoða allar leiðir til að skapa sátt um tekjustofnakerfið og tryggja að tekjustofnar séu í samræmi við verkefnin.

Því er eðlilegt að spurt sé samhliða slíkri endurskoðun, hvort hægt sé að nýta betur þá tekjustofna sem sveitarfélög hafa nú til ráðstöfunar. Sum sveitarfélög þurfa til dæmis ekki að leggja á hámarksútsvar, meðan önnur fullnýta útsvar og dugar ekki til.

Þá er nefnd undir forystu Flosa Eiríkssonar langt komin með að endurskoða hlutverk og markmið Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Ljóst er að mörg sveitarfélög, einkum hin smærri, eru afar háð sjóðnum varðandi fjármögnun lögbundinna verkefna. Ég spyr hvort það sé eðlilegt að framlög Jöfnunarsjóðs séu meiri en helmingur heildartekna hjá allmörgum sveitarfélögum.

Samráð ríkis og sveitarfélaga

Starfandi hefur verið svokölluð Jónsmessunefnd sem hefur það hlutverk að bæta samskipti ríkis og sveitarfélaga, stuðla að markvissari vinnubrögðum og efla efnahagssamráð. Ég verð að segja að þessi vettvangur hefur starfað mjög vel síðustu mánuðina, það ríkir traust milli aðila og eindreginn áhugi er á því að bæta samskiptin. Áhersla nefndarinnar hefur verið á umbætur hvað efnahagssamráð varðar, samráðsnefnd um efnahagsmál fær aukið hlutverk, meðal annars það verkefni að móta ný vinnubrögð í tengslum við efnahagssasmráðið.

Ekki verður hjá því komist að stórefla þetta samráð ríkis og sveitarfélaga á tímum sem þessum. Það er ein af þeim ábendingum sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur sett fram, og það er ein af þeim forsendum sem lagt er upp með í áætlun fjármálaráðherra um jöfnuð í ríkisfjármálum fram til ársins 2013.

Samráðsfundur ríkis og sveitarfélaga er ráðgerður 28. september og verður helgaður efnahagsmálum.

Sameining sveitarfélaga

Þannig að það er breið og góð samstaða um að efla sveitarstjórnarstigið, færa verkefni, bæta samskiptin og skapa nýja sýn á svæðasamvinnu. Við þurfum öflug sveitarfélög, bæði vegna verkefna á landsvísu og eins til að takast á við nýjar áskoranir á alþjóðavettvangi. Það er enn brýnna nú en nokkru sinni að efla hið staðbundna lýðræði.

En hvað með stærð sveitarfélaga? Skiptir hún ekki máli þegar verið er að tala um áform um eflingu sveitarstjórnarstigsins? Er hægt að skilja þennan mikilvæga þátt eftir þegar til stendur að efla sveitarstjórnarstigið?

Svar mitt er nei, og það sem meira er: Leið frjálsrar sameiningar skilar ekki nauðsynlegum árangri og því þarf að fara aðrar leiðir.

Á ársfundum landshlutasamtakanna í fyrra kynnti ég nokkuð ítarlega hugmyndir um að lögbinda hækkun á lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga úr 50 í þúsund. Frumvarp var tilbúið í haust en það náði ekki fram að ganga vegna þeirrar stöðu sem upp var komin í þjóðfélaginu.

Það var mat mitt að mikilvægt væri að halda þessum bolta á lofti, og á landsþingi ykkar í vor lagði ég fram tillögu að nýrri leið til sameiningar sveitarfélaga. Hún felur það í sér að sameiningarkostir í hverjum landshluta verði metnir og samræmdar tillögur um stækkun og eflingu sveitarfélaga á hverju svæði fyrir sig verði settar fram til umræðu og afgreiðslu á Alþingi. Það væri því Alþingi sem æðsta lýðræðisstofnun þjóðarinnar sem tæki ákvörðun um sveitarstjórnarskipan á grundvelli tillagna sameiningarnefnda.

Ég ritaði í kjölfar landsþingsins stjórn Sambandsins bréf og óskaði samstarfs um þetta verkefni. Í svari stjórnarinnar kom fram vilji til að ræða málin á komandi hausti án þess að afstaða væri tekin til hugmyndanna. Ég bíð eftir þeim fundi, en vil þó ítreka að þessari vinnu verður að halda áfram og Samband íslenskra sveitarfélaga verður að taka af krafti þátt í henni.

Ég hygg að íbúafjöldi ráði alltaf mjög miklu um hversu öflugt sveitarfélag verður. Sterkar einingar, fjölmennir byggða- og þjónustukjarnar og stór atvinnusvæði stuðla að því að hægt sé að standa undir nauðsynlegri þjónustu sveitarfélags í nútímasamfélagi. Íbúafjöldinn hlýtur því alltaf að vera ákveðin viðmiðun enda er bent á það í tengslum við flutning á þjónustu við fatlaða og aldraða að þjónustusvæðin þurfi að telja sjö til átta þúsund íbúa.

Í áðurnefndri skýrslu um framtíð landshlutasamtaka sveitarfélaga kemur fram yfirlit um eflingu sveitarstjórnarstigsins hjá nágrannaþjóðum okkar. Ég nefni sem dæmi að í Danmörku var í ársbyrjun 2007 til ný skipan sveitarstjórnarmála. Sveitarfélögunum var fækkað með lagaboði, gömlu ömtin voru lögð niður og lagt upp með ný, mun valdaminni svæðasambönd (regioner). Í kjölfarið voru verkefni og fjármagn flutt á milli stjórnsýslustiga, aðallega frá ömtum til ríkis og sveitarfélaga.

Í Færeyjum var síðasta sumar kynnt áætlun sem hefur það að markmiði að fækka sveitarfélögum úr 34 í 7 fyrir lok janúar 2010.

Í ársbyrjun 2009 fækkaði sveitarfélögum á Grænlandi úr 18 í 4 með lagasetningu. Um leið yfirtaka sveitarfélögin mörg ný verkefni sem styrkir sveitarstjórnarstigið.

Í Noregi hefur síðuðustu 10 ár verið rætt um breytingar en engin niðurstaða fengist. Markmiðið er að styrkja fylkin með því að flytja til þeirri fleiri verkefni frá ríkinu og svipað er uppi á teningnum í Svíþjóð.

Breytingaferli hófst í Finnlandi með setningu rammalaga í febrúar 2007. Þegar hafa orðið allmargar frjálsar sameiningar í kjölfarið og fleiri eru á dagskrá. Einnig hafa svæði sameinast og yfirtekið verkefni og á Álandseyjum hefur þróunin verið í þá átt að fámenn sveitarfélög leysa verkefni sín í samstarfi við önnur.

Góðir fundarmenn.
Það hefur náðst árangur í sameiningarmálum hjá okkur, Austurland er gott dæmi um það. Sameiningar hafa eflt sveitarstjórnarstigið hér í fjórðungnum og hafa beinlínis skapað forsendur fyrir þeim vexti sem hér hefur orðið. Sameiningarumræðan heldur áfram, Fljótsdalshérað og Djúpivogur eru í viðræðum og heyrst hefur af þreifingum milli Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar. !!!!

Ég vil til gamans og hvatningar setja fram mynd af því hvernig hægt væri að halda áfram að sameina sveitarfélög hérna á svæðinu.

Ég hef nú staldrað við nokkur atriði varðandi eflingu sveitarfélaga. Ég þykist vita að samgöngumál séu einnig mjög ráðandi þáttur í því hvernig gengur að stækka og sameina sveitarfélög yfir fjallvegi og firði. Ég fer ekki nánar út í þá sálma en veit að þið hafið ýmsar hugmyndir og óskir sem þið hafið komið á framfæri við ráðuneytið og eigið áreiðanlega eftir að gera það áfram.

Ég vil að lokum þakka fyrir þennan fund og hlakka til að heyra erindi og umræður hér á eftir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta