Stofnfundur FLUG-KEF
Góðir fundarmenn.
Ég vil þakka ykkur fyrir þátttökuna í þessum stofnfundi um opinbert hlutafélag þar sem við sameinum rekstur Flugstoða ohf. og Keflavíkurflugvallar ohf. Áður en við slítum fundi vil ég fá að gera örstutta grein fyrir aðdraganda þessarar ráðstöfunar.
Ríkisstjórnin sem nú situr og fyrrverandi ríkisstjórn sömu flokka hefur markað þá stefnu að leita allra leiða til að hagræða í rekstri ríkisins. Um leið er það markmið stjórnvalda að öll stjórnsýslan sé gagnsæ og að ráðuneytin jafnt sem stofnanir þeirra veiti skilvirka og góða þjónustu á öllum sviðum. Meðal leiða til að ná fram þessum markmiðum er að endurskipuleggja rækilega allan ríkisreksturinn og hugsanlega sameina stofnanir.
Í byrjun síðasta árs skipaði ég starfshóp sem falið var að kanna kosti þess að sameina opinberu hlutafélögin Flugstoðir og Keflavíkurflugvöll. Er skemmst frá því að segja að starfshópurinn taldi sameiningu félaganna hagkvæma og að stefna bæri að henni. Að því hefur verið unnið síðan í haust og voru lög um heimild til samruna félaganna samþykkt á Alþingi 21. desember síðastliðinn. Þar kemur fram að fjármálaráðherra fer með hlut ríkisins í félaginu.
Við höfum nú hleypt hinu nýja félagi af stokkunum. Tilgangur þess er skýr: Að reka alla flugvelli landsins og sjá um uppbyggingu þeirra með tilheyrandi flugstöðvum og mannvirkjum, reka á sama hátt og byggja upp flugleiðsögu- og flugumferðarþjónustu og annast annan rekstur hins nýja félags sem tengist flugi nánast á hvaða hátt sem vera skal.
Stjórn félagsins sem nú hefur verið kjörin hefur umfangsmikið hlutverk strax frá fyrsta degi. Ég vænti þess að hún muni eiga góða samvinnu bæði við fjármálaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um málefni félagsins. Fjármálaráðherra fer eins og áður sagði með hlut ríkisins í félaginu og ber ábyrgð á fjárhagshliðinni. Það kemur hins vegar í hlut samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að bera ábyrgð á faglegri stefnumótun í samvinnu við stjórnina.
Slík stefnumótun verður ekki hrist framúr erminni. Hún þarf annars vegar að byggjast á vönduðum spám um hversu umfangsmikil flug- og flugþjónustustarfsemi okkar þarf að vera og hins vegar á þeirri stefnu sem yfirvöld marka hverju sinni í samgönguáætlun. Stefnu sem byggist á hagkvæmni og arðsemi og lýtur einnig umhverfis- og byggðasjónarmiðum.
Ég vil einnig minna á að flutningur á málefnum Keflavíkurflugvallar frá utanríkisráðuneyti til samgönguráðuneytis og breytingar í framhaldi af því tókust vel og ég á mér þá ósk að það takist ekki síður vel til með þessa breytingu nú.
Ég óska hinu nýju félagi velfarnaðar og hlakka til góðrar samvinnu við ykkur stjórnarmenn og fjármálaráðherra sem fer með eignarhlut ríkisins.
Góða ferð.